Alvöru karlmenn! í Háskóla Íslands

Sýningaropnun í Háskóla Íslands: Sæbjörg Freyja Gísladóttir þjóðfræðingur á Flateyri opnar ljósmyndasýninguna Alvöru karlmenn miðvikudaginn 8. nóvember 2017. Kynning á sýningunni verður kl. 16 á opnunardegi í stofu 102 í Gimli og síðan sér Sæbjörg um leiðsögn um sýninguna á göngum Háskólatorgs. Þaðan liggur svo leiðin í Stúdentakjallarann. Sýningin er á vegum Námsbrautar í þjóðfræði og safnafræði við Háskóla Íslands og Rannsóknarseturs HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu. Verið öll hjartanlega velkomin! 

Alvöru karlmenn

Vaskir sjómenn, vígreifir bankamenn, krúttleg lopatröll, léttfættir séntilmenn, þrekmiklir bændasynir: Það er misjafnt hvað þykir karlmannlegt, breytilegt eftir stað, stund og stétt. En hvernig hefur karlmennskan þróast í tímans rás og hvernig bera menn sig karlmannlega í dag? Þjóðfræðingurinn Sæbjörg Freyja Gísladóttir hefur rannsakað hvernig karlmennska birtist í ljósmyndum frá árunum 1914 til 2014, hvaða líkamsstaða þykir karlmannleg á hverjum tíma og hvernig líkamar karlmanna endurspegla samfélagsbreytingar.

Sæbjörg safnaði og greindi um eitt þúsund ljósmyndir frá Skjalasafni Austfirðinga og Skjalasafninu á Ísafirði frá fyrstu áratugum 20. aldar. Hún ljósmyndaði einnig þrjátíu karlmenn sem eru búsettir á Egilsstöðum, Reykjavík og Önundarfirði. Afrakstur þessa er ljósmyndasýningin Alvöru karlmenn sem þegar hefur verið sýnd víða um land og ratar nú á veggi Háskóla Íslands. 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is