Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra 2012

Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands var haldinn á Hótel Selfossi fimmtudaginn 29. mars 2012. Yfirskrift fundarins var Hlutverk rannsóknasetra í samfélaginu og sóttu hann um fimmtíu manns.

Ásta Stefánsdóttir framkvæmdastjóri sveitarfélagsins Árborgar bauð fundargesti velkomna á Selfoss og sagði stuttlega frá rannsóknatengdri starfsemi í sveitarfélaginu, en Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands flutti setningarávarp.

Rögnvaldur Ólafsson forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands gaf stutt yfirlit yfir starfsemina árið 2011 og sagði frá rannsóknum á vegum setranna.  Ýtarlegri upplýsingar um starfsemi rannsóknasetranna 2011 er að finna á Ársskýrslu Stofnunar rannsóknasetra.

Tómas Grétar Gunnarsson forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi sagði frá rannsóknum þar og Halldór Pálmar Halldórsson sem veitir Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Suðurnesjum forstöðu fjallaði um möguleika til rannsókna og kennslu á Suðurnesjum.

Erindi Þórarins Sólmundarsonar sérfræðings hjá Mennta- og menningarmálaráðuneyti nefndist um Þekkingarsetur - hlutverk og mikilvægi í svæðisbundinni þróun.

Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum ræddi um Rannsóknasetur í samfélaginu - uppbygging til framtíðar.

Blómstrandi þekkingarsetur. Hvað hafa þau að geyma? var yfirskrift erindis Erlu Bjarkar Örnólfsdóttur forstöðumanns Varar, sjávarrannsóknarseturs við Breiðafjörð.

Fundinum lauk með stuttri samantekt Rögnvalds Ólafssonar forstöðumanns Stofnunar rannsóknasetra.

Fundarstjóri var Steingerður Hreinsdóttir atvinnuráðgjafi hjá Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is