Auglýst eftir doktorsnema í ARCPATH rannsóknaverkefnið

Norræna öndvegissetursverkefnið Arctic Climate Predictions: Pathways to Resilient, Sustainable Societies (ARCPATH), sem fjármagnað er af NordForsk, auglýsir eftir umsóknum um stöðu doktorsnema.

Í ARCPATH er stefnt að eftirfarandi niðurstöðum: að ná fram betri spám um loftslag heimskautasvæða með því að fækka óvissuþáttum sem rekja má til breytinga í hafinu, að öðlast innsýn í næmi heimskautaloftslags gagnvart umhverfisbreytingum af mannavöldum, einnig að auka skilning á því hvernig loftslagsbreytingar orka á margvíslega félagslega þætti, allt frá þróun fiskveiðisamfélaga til nýtingar og neyslu sjávarspendýra í Norður-Atlantshafi. Í ARCPATH verða notuð tæki og nálgun bæði úr náttúruvísindum og félagsvísindum til þess að skapa þverfaglegt verkefni sem mun tengja saman loftslagsspár og áhrif á mannlíf, með greiningu og mati á þeim tækifærum og áhættu sem eru loftslagstengd.

Markmiðið með doktorsverkefninu er að tengja dreifingu smárra hvala við þætti sem tengjast loftslagsbreytingum, svo sem breytingar á dreifingu fæðudýra og magni þeirra sem stjórnast af umhverfisþáttum eins og breyttu hitastigi sjávar. Sjálfvirk hljóðupptökutæki verða notuð í tveimur fjörðum á Norðurlandi, Eyjafirði og Skjálfanda, til að mæla hlutfallslegan fjölda smárra hvalategunda (eins og höfrunga og hnísa). Áætlað er að verkefnið standi yfir frá maí 2017 til apríl 2020.

Umsækjandi þarf að hafa MS-próf í líffræði, með rannsóknarefni úr náttúruvísindum eða af skyldu sviði, og að hafa reynslu af hljóðupptökum og síritum eins og C-POD.

Umsókn um stöðuna HI17010154 þarf að fylgja kynningarbréf og lýsing umsækjanda á væntanlegu framlagi hans til verkefnisins. Bréfið skal ekki vera lengra en ein síða. Að auki þarf að fylgja umsókninni: 1) náms- og starfsferilsskrá, 2) afrit af prófskírteinum (BS- og MS-próf), 3) tvenn meðmæli og upplýsingar um símanúmer/netfang. Neminn sem ráðinn verður þarf síðan að senda inn umsókn um doktorsnám við Háskóla Íslands innan tilskilins frests.

Umsóknarfrestur er til 15. febrúar 2017. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst. Sótt er um á slóðinni: http://www.hi.is/doktorsnemi_i_arcpath_vid_rannsoknasetur_haskola_islands_a_husavik_hi17010154

Allar frekari upplýsingar veitir Marianne Rasmussen (mhr@hi.is), forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík. Upplýsingar um rannsóknasetrið er að finna hér.

Allar umsóknir verða metnar og öllum umsækjendum svarað um leið og ákvörðun um ráðningu liggur fyrir.

Við allar ráðningar í stöður við Háskóla Íslands er tekið mið af Jafnréttisáætlun Háskóla Íslands.

Laun eru í samræmi við samning Félags háskólakennara og fjármálaráðuneytisins.

Háskóli Íslands er stærsta mennta-, rannsókna- og vísindastofnun á Íslandi og meðal 250 bestu háskóla heims skv. matslista Times Higher Education.
Upplýsingar um Háskóla Íslands má finna hér www.hi.is en frekari upplýsingar er einnig að finna hjá Skrifstofu alþjóðasamskipta og Relocation Service.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is