Auglýst eftir doktorsnema í vistfræði

Auglýst er eftir doktorsnema í vistfræði til að rannsaka áhrif landnotkunar á mófuglastofna. Verkefnið er styrkt af Doktorssjóði Háskóla Íslands til þriggja ára. Það verður unnið við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi. Gert er ráð fyrir að nemandi dvelji hluta af námstímanum í Bretlandi.

Um verkefnið
Landbútun, þegar svæði eru brotin niður í smærri einingar, er ógn við líffræðilega fjölbreytni sem tapast ört á heimsvísu. Drifkraftar landbútunar eru oftast af mannavöldum, s.s. vegna mannvirkja og ræktunar. Víða í þéttbýlum löndum er landbútun gengin langt og þau ferli sem ráða fyrstu áhrifum landbútunar á dýrastofna eru illa þekkt. Á Íslandi eru stórir vaðfuglastofnar sem þrífast á víðáttumiklum bersvæðum. Hraðar breytingar hafa orðið á landnotkun síðustu ár og þar má nefna stóraukna skógrækt og sumarhúsabyggðir. Þessar gerðir landnotkunar eru áberandi á varpsvæðum vaðfugla og gefa einstakt tækifæri til að skoða hvernig frumstig landnotkunar birtast í útbreiðslu og þéttleika fuglastofna sem Íslendingar bera alþjóðlega ábyrgð á. Niðurstöðurnar munu bæta skilning á viðbrögðum dýrastofna við landbútun og hafa alþjóðlegt gildi fyrir náttúruvernd.

Menntunar- og hæfniskröfur
Umsækjendur skulu hafa lokið MS gráðu í líffræði eða skyldum greinum. Umsækjendur þurfa að hafa góð tök á enskri og íslenskri tungu í töluðu og rituðu máli. Nemandi þarf að geta unnið sjálfstætt og með öðrum. Góð tölfræðikunnátta og ritverk sem birst hafa á ritrýndum vettvangi teljast umsækjendum til tekna. Einnig er gott að umsækjendur þekki fugla og eigi auðvelt með að ræða við landeigendur.

Umsóknarferli
Umsókninni skal fylgja stutt kynnisbréf þar sem fram kemur hvað vekur áhuga umsækjanda á verkefninu og hvað hann/hún hefur fram að færa við mótun og vinnslu þess. Til viðbótar skal fylgja; i) ferilskrá, ii) afrit af prófskírteinum (grunnnám og meistaranám), iii) tvö umsagnarbréf og upplýsingar um hvernig má hafa samband við umsagnaraðila.

Sækja þarf um á www.hi.is/laus_storf 

Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin. Laun eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og hlutaðeigandi stéttarfélags. Við ráðningu í störf við Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans.

Nánari upplýsingar
Frekari upplýsingar veitir Tómas Grétar Gunnarsson forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi, tomas@hi.is, símar 488-3075 og 525-5460.

Umsóknarfrestur
Umsóknarfrestur er til og með 1. ágúst 2016.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands var sett á fót 2009 og heyrir undir Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands. Áherslusvið þess eru rannsóki á landnotkun og þá einkum hvernig mynstur landnotkunar í tíma og rúmi tengjast líffræðilegri fjölbreytn.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is