Botndýrarannsóknir í Landanum

Frétta-og þjóðlífsþátturinn Landinn á RÚV fjallaði á dögunum um áhugaverðar rannsóknir sem Jörundur Svavarsson, prófessor í sjávarlíffræði, og samstarfsfólk hans við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum hefur tekið þátt í að undanförnu.

Verkefnið ber heitið IceAGE (Icelandic Animals, Genetics and Ecology) og að því koma vísindamenn frá mörgum löndum. Markmið þess er að kanna erfðafræði og vistfræði botndýra við Ísland, bæði á djúp- og grunnslóð. Verkefnið hófst í sumar með mánaðarlöngum rannsóknaleiðangri þýska rannsóknaskipsins Meteor þar sem siglt var í kringum landið og botndýrum safnað á skipulegan hátt.

IceAGE-verkefnið er framhald rannsóknarverkefnisins Botndýr á Íslandsmiðum (BIOICE) sem unnið var á árunum 1992-2003. Þær rannsóknir leiddu meðal annars í ljós að margir dýrahópar á Íslandsmiðum eru enn ákaflega illa þekktir. Samfara hækkandi hitastigi sjávar á norðurslóðum er talið líklegt að útbreiðsla tegunda breytist og með yfirstandandi rannsóknunum aukast möguleikarnir á því að fylgjast með þessum breytingum.

Landinn gerði þessum rannsóknum góð skil og ræddi við Jörund Svavarsson um þær. Umfjöllun Landans má finna á vef RÚV.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is