Doktorsvörn í dag

Í dag, miðvikudaginn 28. júní, ver Lilja Jóhannesdóttir doktorsritgerð sína við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Tengsl landbúnaðar og vaðfuglastofna á norðlægum slóðum (e. Links between agricultural management and wader populations in sub-arctic landscapes).

Andmælendur eru dr. James Pearce-Higgins, deildarstjóri rannsóknasviðs hjá British Trust for Ornithology og dr. Hlynur Óskarsson, dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Leiðbeinandi Lilju er dr. Tómas Grétar Gunnarsson, vísinda- og forstöðumaður við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi. Aðrir í doktorsnefnd eru dr. Jennifer A. Gill, prófessor við Háskólann í East Anglia og dr. José A. Alves, nýdoktor við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi.

Ágrip af rannsókn

Hnignun líffræðilegrar fjölbreytni í heiminum á síðustu áratugum má að stórum hluta rekja til aukinnar útbreiðslu og ákefðar í landbúnaði. Íslenskur landbúnaður hefur enn ekki náð sömu ákefð og útbreiðslu og víða í vestrænum ríkjum og áhrif landbúnaðar á líffræðilega fjölbreytni eru að mestu óþekkt hérlendis, sem og í öðrum sambærilegum landbúnaðarkerfum. Ísland er mikilvægt varpsvæði margra ábyrgðartegunda og hér finnast stórir stofnar vaðfugla.

Markmið doktorsverkefnisins er að skýra tengsl landbúnaðar og vaðfuglastofna á norrænum slóðum með mælingum á Íslandi. Þetta var gert bæði með að meta þéttleika vaðfugla á landbúnaðarsvæðum sem og að spyrja bændur um fyrirætlanir þeirra í landnýtingu og viðhorf þeirra til fuglalífs á landi þeirra. Mat á þéttleika vaðfugla á svæðum undir mismiklum áhrifum landbúnaðar sýnir að almennt er hár þéttleiki á öllum svæðunum en þéttleikinn er lægri á svæðum undir meiri landbúnaðaráhrifum. Þetta bendir til að ef flatarmál ræktað lands eykst muni það hafa neikvæð áhrif á þéttleika vaðfugla en meirihluti þeirra bænda sem rætt var við fyrir verkefnið sögðust stefna á að auka ræktað land á komandi árum.

Eldvirkni og hitastig hafa umtalsverð áhrif á fuglalíf á Íslandi, en að auki geta áhrif ræktaðs lands á þéttleika vaðfugla ráðist af þessum tveimur þáttum. Á sumum svæðum minnkar þéttleiki með aukinni útbreiðslu ræktað lands en á öðrum svæðum eykst þéttleikinn. Áhrif aukningar ræktaðs lands á vaðfuglastofna ráðast því að hluta til af staðsetningu. Það eru litlar áherslur lagðar á vernd þessara tegunda á Íslandi og þegar bændur voru spurðir út í viðhorf þeirra til fuglalífs á landi þeirra sögðust þeir almennt ekki taka mikið tillit þess við landnýtingu þrátt fyrir að telja mikilvægt að hafa ríkulegt fuglalíf. Aftur á móti voru bændur jákvæðir gagnvart þeim verndraðgerðum sem lagðar voru til en vitað er að samvinna við landeigendur er lykilatriði ef á að viðhalda þeim þáttum líffræðilegrar fjölbreytni sem hafa víðtæka útbreiðslu.

Um doktorsefnið

Lilja Jóhannesdóttir er fædd árið 1981 og ólst upp á Mýrum í Hornafirði og í Skeiðahreppi. Hún lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurlands árið 2001, BS-prófi í náttúru- og umhverfisfræðum frá Landbúnaðarháskóla Íslands árið 2010 og meistaraprófi í náttúru- og umhverfisfræðum frá Landbúnaðarháskóla Íslands árið 2013. Doktorsnámið var unnið við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi í samstarfi við Háskólann í East Anglia í Bretlandi.

Spói á flugiJaðrakan á flugi

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is