Fjölmenni á ársfundi Stofnunar rannsóknasetra

Um sjötíu manns víðsvegar að á landinu sóttu ársfund Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands sem haldinn var í Hvalasafninu á Húsavík 9. apríl sl. Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra setti fundinn, og Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings og Kristín Ingólfsdóttir rektor fluttu ávörp.

Á fundinum voru kynntar rannsóknir sem unnið er að við rannsóknasetur Háskóla Íslands. Marianne Rasmussen, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Húsavík, sagði frá rannsóknum á hvölum á Skjálfandaflóa sem hún hefur stýrt undanfarin ár, og Lilja Berglind Rögnvaldsdóttir, verkefnisstjóri við sama setur, fjallaði um rannsókn á efnahagslegum áhrifum ferðamennsku í Þingeyjarsýslum.  Þá kynnti Soffía Karen Magnúsdóttir, meistaranemi við Rannsóknasetur HÍ á Suðurnesjum, rannsókn sína á mögulegu eldi á evrópska humrinum á Íslandi.

Fjallað var um umhverfi rannsóknasetranna og þekkingarstarfs á landsbyggðinni í tveimur erindum. Héðinn Unnsteinsson, stefnumótunarsérfræðingur í forsætisráðuneytinu, flutti fyrirlesturinn "Láréttar áskoranir í lóðréttu kerfi" og Óli Halldórsson, forstöðumaður Þekkingarnets Þingeyinga, fyrirlesturinn "Setu(r)stofur. Hugtök, samstarf og verkaskipting í rannsóknastarfsemi í byggðum landsins."

Loks kynnti Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands, stefnu stofnunarinnar 2015-2017  sem unnið hefur verið að á undanförnum mánuðum.

Að fundinum loknum undirrituðu Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, og Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, samstarfsyfirlýsingu þar sem m.a. kemur fram að sveitarfélagið hyggst styðja starfsemi Rannsóknaseturs HÍ á Húsavík með framlagi til gistiaðstöðu fyrir fræðimenn og nemendur sem dvelja á Húsavík við rannsóknir í tengslum við starfsemi setursins.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is