Fjörugt sumar á Hólmavík

Það er búið að vera heilmikið um að vera hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu í sumar, einkum í skemmtilegum samstarfsverkefnum í héraðinu. Styrkur fékkst frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að ráða Agnesi Jónsdóttir þjóðfræðinema og Guðrúnu Gígju Jónsdóttur MA-nema í hagnýtri menningarmiðlun til að vinna að verkefni sem heitir Hólmavík - íbúabyggð og ferðamannastaður. Það snýst um hugmyndavinnu og greiningu á sérstöðu þorpsins og í framhaldinu umbætur á útivistarsvæðum og almannarýmum í þorpinu, bæði íbúum og ferðafólki til hagsbóta. Haldinn hefur verið íbúafundur um verkefnið á Hólmavík og heilmiklu efni safnað um skoðanir heimamanna. Verkefnið er unnið í samstarfi við sveitarfélagið Strandabyggð sem fékk stuðning frá Styrktarsjóði EBÍ til vinnunar. Einnig er stefnt að samstarfi við Sóknaráætlun Vestfjarða um að gera uppskrift að aðferðinni svo hægt verði að ráðast í sambærilegt vinnuferli í öðrum minni þorpum í fjórðungnum. 

Strandir í verki er verkefni sem Leikfélag Hólmavíkur er á bak við og snýst um skapandi sumarstörf fyrir unglinga á framhaldsskólaaldri. Það er unnið í samvinnu við Rannsóknasetur HÍ á Ströndum, Sauðfjársetur á Ströndum og sveitarfélagið Strandabyggð. Þrjú ungmenni sóttu um þátttöku og hafa í sumar starfað að margvíslegum skapandi verkefnum sem tengjast að nokkru leyti svæðinu, þjóðsagnaarfi og sögu þess. Rakel Ýr Stefánsdóttir leiklistarnemi hefur verið listrænn stjórnandi þessa verkefnis. Stúlkurnar sem taka þátt hafa m.a. unnið að skapandi skrifum og sett upp frumsaminn leikþátt Of(s)ein, sem er gamandrama um sambönd og samskipti í nútímanum. Þær hafa einnig sýnt þjóðsagna- og galdratengt leikrit á bæjarhátíðum á Hólmavík og Reykhólum og Náttúrubarnahátíð á Ströndum, auk þess að bregða sér í hlutverk Strandanorna sem rýna í fortíð, samtíma og framtíð fólks. Skemmtikvöld, Open Mic, hefur einnig verið haldið á veitingastaðnum Café Riis. Verkefnið fékk stuðning frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða 2018. 

Náttúrubarnaskólinn hefur verið í fullum gangi á Sauðfjársetrinu í Sævangi í sumar, en hann er í góðu samstarfi við Rannsóknasetur HÍ á Ströndum. Hann hefur starfað í 4 sumur og var nýsköpunarsjóðsverkefni sem Jón Jónsson þjóðfræðingur hafði umsjón með árin 2016 og 2017. Heilmikil Náttúrubarnahátíð var haldin um miðjan júlí og var þar mikið um dýrðir. Dagrún Ósk Jónsdóttir sem lauk í vor meistaraprófi í þjóðfræði hefur umsjón með Náttúrubarnaskólanum. Hún fékk í sumar Lóuna - menningarverðlaun Strandabyggðar fyrir verkefnið. Síðan því var komið á laggirnar hefur það fengið góðan stuðning úr Safnasjóði og Uppbyggingasjóði Vestfjarða, Nýsköpunarsjóði námsmanna og fleiri aðilum. 

Tvær ráðstefnur verða haldnar í ágúst sem Rannsóknasetur HÍ á Ströndum tekur þátt í. Annars vegar er það Vestfirski fornminjadagurinn sem haldinn verður á vegum Áhugafólks um fornleifar á Vestfjörðum á Suðureyri við Súgandafjörð þann 8. ágúst. Jón Jónsson þjóðfræðingur hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum heldur þar erindið: Álagablettir, þjóðtrú og saga. Það er semsagt óáþreifanlegi menningararfurinn sem er í forgrunni hjá Jóni, en einnig talar fjöldi fornleifafræðinga á málþinginu. Annað málþing sem er framundan þann 18. ágúst í Hveravík á Ströndum hefur yfirskriftina Landnámsbær fundinn á Selströnd - málþing um minjar og menningu Stranda. Þar heldur Jón Jónsson erindi sem ber yfirskriftina Að virkja hugvitið, sögur og sagnir. Það er Bergsveinn Birgisson fræðimaður og rithöfundur sem er á bak við þetta verkefni með stuðningi frá Uppbyggingasjóði Vestfjarða og í samvinnu við fjölda aðila í héraðinu, einnig Fornleifastofnun Íslands og Háskólann í Bergen. Ráðstefnan er hluti af Menningararfsári Evrópu.

Í sumar hefur Rannsóknasetrið einnig tekið þátt í svokölluðu Sögurölti um Dali og Strandir. Það er verkefni sem söfnin á Ströndum og Dölum, Byggðasafn og Héraðsskjalasafn Dalamanna og Sauðfjársetur á Ströndum hafa staðið fyrir, ásamt Náttúrubarnaskólanum. Þessi sögurölt hafa verið mjög vinsæl, en um er að ræða rúmlega klukkustundar gönguferð þar sem meiri áhersla er lögð á fróðleik, sögur og sagnir, en gönguna sjálfa. Jón Jónsson verkefnastjóri hjá Rannsóknasetrinu hefur verið sögumaður í þremur af þessum söguröltum í sumar, Tröllaskoðunarferð í Kollafirði, Dagbókargöngu að Naustavík við Steingrímsfjörð og Þjóðsagna- og sögugöngu í Tröllatungu. Framundan er fornleifarölt í Sandvík á Selströnd þann 17. ágúst þar sem í gagni er rannsókn og þrjár göngur hafa einnig farið fram í Dölum, að fornleifauppgreftri í Ólafsdal við Gilsfjörð þar sem Birna Lárusdóttir fornleifafræðingur var sögumaður og göngur á Tungustapa og í Kumbaravog þar sem Valdís Einarsdóttir safnstjóri var sögumaður. Verkefnið er hluti af Menningararfsári Evrópu. 

Í sumar hafa verið endurfluttir á Rás 1 sex útvarpsþættir um förufólk og flakkara sem Jón Jónsson og Rósa Þorsteinsdóttir þjóðfræðingur hjá Stofnun Árna Magnússonar gerðu árið 2000. Þetta er í þriðja sinn sem þeir eru fluttir í útvarpi. Fljótlega fer bókin Á mörkum mennskunnar. Viðhorf til förufólks í sögnum og samfélagi eftir Jón Jónsson síðan í dreifingu, en þar er fjallað um sama efni: Förufólk á Íslandi, sagnir og samfélag fyrri alda. Háskólaútgáfan gefur hana út í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is