Aðalvefur

Áramótakveðja Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands

Starfsfólk Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands þakkar samfylgdina á árinu sem er að líða og óskar samstarfsfólki sínu gleðilegs nýs árs.

Árið 2018 verður 18. starfsár stofnunarinnar og eins og áður margt spennandi framundan. Ársfundur stofnunarinnar verður t.a.m. haldinn í Bolungarvík, 11. apríl nk. Takið daginn frá!

Alvöru karlmenn! í Háskóla Íslands

Sýningaropnun í Háskóla Íslands: Sæbjörg Freyja Gísladóttir þjóðfræðingur á Flateyri opnar ljósmyndasýninguna Alvöru karlmenn miðvikudaginn 8. nóvember 2017. Kynning á sýningunni verður kl. 16 á opnunardegi í stofu 102 í Gimli og síðan sér Sæbjörg um leiðsögn um sýninguna á göngum Háskólatorgs. Þaðan liggur svo leiðin í Stúdentakjallarann. Sýningin er á vegum Námsbrautar í þjóðfræði og safnafræði við Háskóla Íslands og Rannsóknarseturs HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu. Verið öll hjartanlega velkomin! 

Alvöru karlmenn

Vaskir sjómenn, vígreifir bankamenn, krúttleg lopatröll, léttfættir séntilmenn, þrekmiklir bændasynir: Það er misjafnt hvað þykir karlmannlegt, breytilegt eftir stað, stund og stétt. En hvernig hefur karlmennskan þróast í tímans rás og hvernig bera menn sig karlmannlega í dag? Þjóðfræðingurinn Sæbjörg Freyja Gísladóttir hefur rannsakað hvernig karlmennska birtist í ljósmyndum frá árunum 1914 til 2014, hvaða líkamsstaða þykir karlmannleg á hverjum tíma og hvernig líkamar karlmanna endurspegla samfélagsbreytingar.

Sæbjörg safnaði og greindi um eitt þúsund ljósmyndir frá Skjalasafni Austfirðinga og Skjalasafninu á Ísafirði frá fyrstu áratugum 20. aldar. Hún ljósmyndaði einnig þrjátíu karlmenn sem eru búsettir á Egilsstöðum, Reykjavík og Önundarfirði. Afrakstur þessa er ljósmyndasýningin Alvöru karlmenn sem þegar hefur verið sýnd víða um land og ratar nú á veggi Háskóla Íslands. 

 

Opið hús í Túni - Húsavík

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík stendur fyrir opnu húsi laugardaginn 4. nóvember nk. milli 13 og 16. Rannsóknasetrið hefur nýverið tekið á leigu húsið Tún á Húsavík fyrir nemendur og starfsnema sína.

Tíu ár eru síðan starfsemi rannsóknasetursins hófst en við rannsóknasetrið er lögð áhersla á rannsóknir á hvölum og ferðaþjónustu.

Starfsfólk og nemendur rannsóknasetursins bjóða upp á kaffi og kökur og kynna verkefni og rannsóknir setursins. 

Verið hjartanlega velkomin!

Starfsfólk rannsóknasetra á Þjóðarspegli

Þjóðarspegillinn, um rannsóknir í félagsvísindum, fer fram föstudaginn nk. 3. nóvember milli 9 og 17 í Háskóla Íslands. Rannsóknasetur háskólans eiga sína fulltrúa á Þjóðarspeglinum þetta árið eins og oft áður.

Jón Jónsson, verkefnisstjóri Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Ströndum - Þjóðfræðistofu, tekur þátt í málstofunni Náttúruhvörf og ímyndaflakk á norðurslóð: Samskipti mannfólks, dýra og náttúruvætta sem fram fer í Aðalbyggingu Háskóla Íslands, stofu 220, milli 11 og 12.45. Mun hann þar flytja erindið Kynjasögur um hvítabirni.

Lilja B. Rögnvaldsdóttir, verkefnisstjóri við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík tekur þátt í málstofunni Ferðaþjónusta í byggðum landsins: Viðhorf og innsýn I, sem fram fer kl. 13 - 14.45 í Lögbergi 102. Mun hún þar flytja fyrirlestur sinn, Erlendir gestir á einstökum svæðum.

Nánar má lesa um dagskrá Þjóðarspegilsins hér. 

Auglýst eftir forstöðumanni Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra

Forstöðumaður Rannsóknaseturs-Háskóli Íslands- Norðurland vestra

Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands auglýsir til umsóknar starf forstöðumanns Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra sinnir rannsóknum á sviði hugvísinda, einkum sagnfræði. Starfsstöð þess er á Skagaströnd. Auk sjálfstæðra akademískra rannsókna hefur forstöðumaður umsjón með starfsemi setursins, fjármálum þess og daglegum rekstri. Hann skipuleggur rannsóknir og samstarfsverkefni, hefur með höndum áætlanagerð og stýrir sókn í sjóði. Hann þarf að geta tekið að sér leiðbeiningu háskólanema í framhaldsnámi og aðra kennslu á háskólastigi. 

Innan Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands eru 8 sjálfstæð rannsóknasetur víða um land. Rannsóknir eru meginviðfangsefni rannsóknasetranna,  og eru viðfangsefnin fjölbreytt og tengjast nærumhverfi setranna með einhverjum hætti. Lögð er rík áhersla á árangur í starfi, áhrif og gæði rannsókna og hagnýtingu rannsóknaniðurstaðna. Þá er stofnunin jafnframt vettvangur samstarfsverkefna háskólans við sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga á landsbyggðinni.

Umsækjendur skulu hafa lokið doktorsprófi í sagnfræði eða skyldum greinum og hafa stundað sjálfstæðar rannsóknir á því sviði. Frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum, lipurð í mannlegum samskiptum, gott vald á ensku og íslensku er nauðsyn. Reynsla af alþjóðasamstarfi sem og reynsla af þverfræðilegu samstarfi er æskileg. Þá er reynsla af sókn í innlenda sem erlenda rannsóknasjóði kostur. Umsækjendum er skylt að leggja fram rannsóknaáætlun til fimm ára þar sem skal koma fram hvernig rannsóknir umsækjenda tengjast Norðurlandi vestra. 

Forstöðumaðurinn verður starfsmaður Háskóla Íslands en hefur starfsaðstöðu við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra. Starfsstöð setursins er á Skagaströnd og er gert ráð fyrir að forstöðumaðurinn gegni starfi sínu þaðan. Búseta á svæðinu er skilyrði. Um fullt starf er að ræða og verður ráðið í starfið til fimm ára með möguleika á ótímabundinni ráðningu að þeim tíma liðnum, sbr. 3. mgr. 31. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.

Um meðferð umsókna, mat á hæfi umsækjenda og ráðningu í starfið er farið eftir ákvæðum laga um Háskóla nr. 85/2008 og reglna um Háskóla Íslands nr. 569/2009. Sérstök nefnd sem rektor skipar annast mat og forgangsröðun umsókna.

Umsóknarfrestur er til 27. nóvember 2017.

Umsóknir skulu berast á rafrænu formi á netfangið bmz@hi.is merkt HI17100144. Umsækjendur skulu láta rannsóknaáætlun til fimm ára fylgja umsókn sinni, vottorð um námsferil sinn og störf, ritaskrá, skýrslu um vísindastörf og önnur störf sem þeir hafa unnið. Í umsókn skal koma fram hver ritverka sinna, allt að átta talsins, umsækjandi telur veigamest með tilliti til þess starfs sem um ræðir. Umsækjandi sendir eingöngu þessi ritverk sín með umsókn, eða vísar til þess hvar þau eru aðgengileg á rafrænu formi. Þegar fleiri en einn höfundur stendur að innsendu ritverki skulu umsækjendur gera grein fyrir framlagi sínu til verksins. Enn fremur er ætlast til þess að umsækjendur láti fylgja með umsagnir um kennslu- og stjórnunarstörf sín, eftir því sem við á. Umsókn og umsóknargögn sem ekki er skilað rafrænt skal skila í tvíriti til Vísinda- og nýsköpunarsviðs Háskóla Íslands, Sæmundargötu 2, 101 Reykjavík.

Öllum umsækjendum verður svarað og þeim tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun liggur fyrir. Umsóknir geta gilt í sex mánuði frá lokum umsóknarfrests. 

Laun eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og Félags háskólakennara. 

Við ráðningar í störf hjá Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans.

Allar nánari upplýsingar um starfið veitir Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar Rannsóknasetra Háskóla Íslands í síma 525 4041, saeunnst@hi.is.

Jón Einar flytur erindi á Hrafnaþingi Náttúrfræðistofnunar

Jón Einar Jónsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Snæfellsnesi ,flytur erindið „Merkingar á æðarkollum í Breiðafjarðareyjum“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 18. október kl. 15:15.

Hrafnaþing er heiti á röð fræðsluerinda Náttúrfræðistofnunar Íslands sem að jafnaði eru á dagskrá aðra hverja viku yfir vetrarmánuðina. Þar kynna starfsmenn stofnunarinnar rannsóknir sínar og gestafyrirlesurum er boðið að flytja erindi.

Hrafnaþing er haldið í húsakynnum Náttúrufræðistofnunar að Urriðaholtsstræti 6–8 í Garðabæ, 3. hæð.

Í erindi Jóns Einars verður fjallað um langtímarannsókn á æðarfuglum sem hófst í Breiðafjarðareyjum árið 2015. Val fugla á hreiðurstæði er háð því að forðast rándýr á álegutímanum, auk þess sem það er tengt átthagatryggð, dagsetningu varps og varpárangri æðarkollna.

Markmið verkefnisins eru að:

  1. kanna hvort kvenfuglar sýni mismunandi átthagatryggð milli eyja og ára.
  2. skýra einstaklingsbreytileika í vali á hreiðurstæði og varpárangri.
  3. bera saman varpárangur, dagsetningu varps, og álegu milli rannsóknareyjanna, sem eru ólíkar um staðhætti, gróðurfar, afræningja og tegundir annarra varpfugla.
  4. kanna hvort tryggð við hreiður eykst með aldri kvenfugla.

Nánar má lesa um erindið hér.

Allir velkomnir. 

 

Meistaraverkefni um eldi Evrópuhumarsins

Á dögunum varði Soffía Karen Magnúsdóttir meistaraverkefni sitt við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Verkefnið vann hún að miklu leyti við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum undir handleiðslu Ragnheiðar Ingu Þórarinsdóttur prófessors og Halldórs Pálmars Halldórssonar, forstöðumanns Rannsóknaseturs HÍ á Suðurnesjum. Þá sat Jörundur Svavarsson professor einnig í meistaranefndinni. 

Evrópuhumarinn er verðmæt tegund tífættra krabba sem finnst við flestar strandlengjur Evrópu. Árleg heildarveiði er rétt yfir 5000 tonnum og afurðaverð er hátt. Á þessum tímapunkti er tegundin hvergi í fullu
eldi, en landeldi gæti tæknilega séð fyrir stöðugu framboði og gæðum. Til að rannsaka vaxtarhraða, efnaskiptahraða og lifun Evrópuhumra voru fluttir til landsins unghumrar frá Institute of Marine Research, Noregi og National Lobster Hatchery í Cornwall, Bretlandi. Tilraunaeldið for fram í Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Suðurnesjum í Sandgerði og í Sæbýli ehf á Eyrarbakka. Gerðar voru tilraunir með fóður, hita og ljós. Nánar má lesa um verkefnið hér. 

Við óskum Soffíu Karan hjartanlega til hamingju með áfangann.

Vísindamenn rannsóknasetra Háskóla Íslands taka þátt í Arctic Circle

Ráðstefnan Arctic Circle hefst formlega nk. föstudag og stendur fram á sunnudag. Þó nokkrir viðburðir eru þó á dagskrá hennar fyrir formlega setningu og á morgun, 12. október kl. 17.30 í Rímu, mun Marianne Rasmussen, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík taka þátt í málstofunni Arctic Climate Predictions: Pathways to Resilient, Sustainable Societies (ARCPATH). Er málstofan skipulögð af Háskóla Íslands, Háskólanum í Bergen og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar. Mun Marianne flytja erindið "Climate, Cetaceans and Tourism and Anthropogenic Noise."

ARCPATH er norrænt öndvegisverkefni sem fjármagnað er af NordForsk.  ARCPATH er stefnt að eftirfarandi niðurstöðum: að ná fram betri spám um loftslag heimskautasvæða með því að fækka óvissuþáttum sem rekja má til breytinga í hafinu, að öðlast innsýn í næmi heimskautaloftslags gagnvart umhverfisbreytingum af mannavöldum, einnig að auka skilning á því hvernig loftslagsbreytingar orka á margvíslega félagslega þætti, allt frá þróun fiskveiðisamfélaga til nýtingar og neyslu sjávarspendýra í Norður-Atlantshafi. Í ARCPATH verða notuð tæki og nálgun bæði úr náttúruvísindum og félagsvísindum til þess að skapa þverfaglegt verkefni sem mun tengja saman loftslagsspár og áhrif á mannlíf, með greiningu og mati á þeim tækifærum og áhættu sem eru loftslagstengd.

Halldór Pálmar Halldórsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum, mun flytja erindi í málstofunni The Arctic and Polar Research as a Vehicle for Stem & Environmental Education á laugardag 12. október nk. kl. 12.45 í Rímu. Í erindi hans "Educational Activities and Opportunities at the Sudurnes Science and Learning Center, SW Iceland" mun Halldór miðla af reynslu sinni í ýmis konar miðlunar- og kennsluverkefnum sem hann hefur tekið þátt í og komið á fót fyrir Rannsóknasetur HÍ á Suðurnesjum.

Dagskrá Arctic Circle ráðstefnunnar má finna hér.

 

Vinnufundur um samstarf stjórnenda hafverndarsvæða

Á dögunum var haldinn þriggja daga vinnufundur í Hvalasafninu um samstarf stjórnenda hafverndarsvæða (Marine Protected Areas) í Atlantshafi. 

Fulltrúar Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík, forstöðumaðurinn Mariannes Rasmussen, og doktorsneminn Charla Basran, tóku þátt í fundinum ásamt fulltrúum Hvalasafnsins á Húsavík. 

Samstarfið ber heitið Transatlantic MPA Network og er um að ræða tilraunaverkefni á vegum Evrópusambandsins. Fundinn sátu aðilar frá löndum og svæðum beggja vegna Norður- og Suður- Atlantshafsins, og voru þátttakendur m.a. frá Bermuda, Grænhöfðaeyjum, Azoreyjum, Brasilíu, Bandaríkjunum, nokkrum löndum Evrópu og Íslandi.

Markmið verkefnisins er að stuðla að víðtækara samstarfi þvert yfir Atlantshafið og styðst það við nýtt alhliða hugtak; Atlantsisma (Atlanticism) sem felur í sér samstarf Afríku, Suður-Ameríku, Norður-Ameríku og Evrópu. Áhersla er lögð á umhverfismál og umhverfisvernd en auk þess nær verkefnið yfir vísindalega samvinnu milli stjórnenda hafverndarsvæða (Marine Protected Areas), sem getur upplýst og stuðst við stefnumótun ESB og einnig stuðlað að alþjóðlegum samskiptum.

Evrópusambandið leggur með þessu tilraunaverkefni áherslu á að efla víðtæka nálgun og samstarf um Atlantshafið með það að markmiði að auka skipti og miðlun á bestu mögulegu starfsvenjum og til að bæta skilvirka stjórnun verndarsvæða í sjó á strandsvæðum og ströndum Atlantshafsins. Verkefnið styður einnig við skuldbindingar ESB um að takast á við tap á líffræðilegum fjölbreytileika, hjálpa til við aðlögun loftslagsbreytinga og bregðast við innri stefnu ESB um umhverfismál, svæðisbundið samstarf og þætti er snúa að vistkerfi hafsins. 

Myndirnar tók fréttamaður fréttavefsins 640.is

Doktorsvörn í dag

Í dag, miðvikudaginn 28. júní, ver Lilja Jóhannesdóttir doktorsritgerð sína við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Tengsl landbúnaðar og vaðfuglastofna á norðlægum slóðum (e. Links between agricultural management and wader populations in sub-arctic landscapes).

Andmælendur eru dr. James Pearce-Higgins, deildarstjóri rannsóknasviðs hjá British Trust for Ornithology og dr. Hlynur Óskarsson, dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Leiðbeinandi Lilju er dr. Tómas Grétar Gunnarsson, vísinda- og forstöðumaður við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi. Aðrir í doktorsnefnd eru dr. Jennifer A. Gill, prófessor við Háskólann í East Anglia og dr. José A. Alves, nýdoktor við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi.

Ágrip af rannsókn

Hnignun líffræðilegrar fjölbreytni í heiminum á síðustu áratugum má að stórum hluta rekja til aukinnar útbreiðslu og ákefðar í landbúnaði. Íslenskur landbúnaður hefur enn ekki náð sömu ákefð og útbreiðslu og víða í vestrænum ríkjum og áhrif landbúnaðar á líffræðilega fjölbreytni eru að mestu óþekkt hérlendis, sem og í öðrum sambærilegum landbúnaðarkerfum. Ísland er mikilvægt varpsvæði margra ábyrgðartegunda og hér finnast stórir stofnar vaðfugla.

Markmið doktorsverkefnisins er að skýra tengsl landbúnaðar og vaðfuglastofna á norrænum slóðum með mælingum á Íslandi. Þetta var gert bæði með að meta þéttleika vaðfugla á landbúnaðarsvæðum sem og að spyrja bændur um fyrirætlanir þeirra í landnýtingu og viðhorf þeirra til fuglalífs á landi þeirra. Mat á þéttleika vaðfugla á svæðum undir mismiklum áhrifum landbúnaðar sýnir að almennt er hár þéttleiki á öllum svæðunum en þéttleikinn er lægri á svæðum undir meiri landbúnaðaráhrifum. Þetta bendir til að ef flatarmál ræktað lands eykst muni það hafa neikvæð áhrif á þéttleika vaðfugla en meirihluti þeirra bænda sem rætt var við fyrir verkefnið sögðust stefna á að auka ræktað land á komandi árum.

Eldvirkni og hitastig hafa umtalsverð áhrif á fuglalíf á Íslandi, en að auki geta áhrif ræktaðs lands á þéttleika vaðfugla ráðist af þessum tveimur þáttum. Á sumum svæðum minnkar þéttleiki með aukinni útbreiðslu ræktað lands en á öðrum svæðum eykst þéttleikinn. Áhrif aukningar ræktaðs lands á vaðfuglastofna ráðast því að hluta til af staðsetningu. Það eru litlar áherslur lagðar á vernd þessara tegunda á Íslandi og þegar bændur voru spurðir út í viðhorf þeirra til fuglalífs á landi þeirra sögðust þeir almennt ekki taka mikið tillit þess við landnýtingu þrátt fyrir að telja mikilvægt að hafa ríkulegt fuglalíf. Aftur á móti voru bændur jákvæðir gagnvart þeim verndraðgerðum sem lagðar voru til en vitað er að samvinna við landeigendur er lykilatriði ef á að viðhalda þeim þáttum líffræðilegrar fjölbreytni sem hafa víðtæka útbreiðslu.

Um doktorsefnið

Lilja Jóhannesdóttir er fædd árið 1981 og ólst upp á Mýrum í Hornafirði og í Skeiðahreppi. Hún lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurlands árið 2001, BS-prófi í náttúru- og umhverfisfræðum frá Landbúnaðarháskóla Íslands árið 2010 og meistaraprófi í náttúru- og umhverfisfræðum frá Landbúnaðarháskóla Íslands árið 2013. Doktorsnámið var unnið við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi í samstarfi við Háskólann í East Anglia í Bretlandi.

Spói á flugiJaðrakan á flugi

Pages

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is