Aðalvefur

Útgáfufrétt. Ný rannsókn á sögu hreindýra á Íslandi

Út er komin bókin Öræfahjörðin. Saga hreindýra á Íslandi, eftir Unni Birnu Karlsdóttur sagnfræðing og forstöðumann Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Austurlandi, á Egilsstöðum. Útgefandi er Sögufélag.

Bókin er afrakstur rannsóknar sem Unnur vann að á Austurlandi á árunum 2015-2019. Í henni er rakin saga hreindýra á Íslandi frá því þau voru flutt til landsins á seinni hluta 18. aldar til dagsins í dag. Bókin er hugmyndasaga sem fjallar jafnt um hreindýrin sjálf og viðhorf landsmanna til þeirra. Fjallað er um lífsbaráttu hreindýra, veiðiferðir fyrr og síðar, deilur um hreindýr og drauma um hreindýrabúskap. Fjallað er um sambúð manna og hreindýra á Austurlandi en einnig á Reykjanesi og í Þingeyjarsýslu.

Unnur Birna Karlsdóttir hefur gegnt stöðu forstöðumanns Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Austurlandi frá 1. júní 2018. Hún lauk doktorsprófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 2010. Hún hefur sent frá sér ýmis fræðirit og fræðigreinar um samband manna og náttúru á Íslandi. Rannsóknin á sögu hreindýra á Íslandi er stærsta verk hennar á því sviði hingað til.

 

Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra 2019 á Laugarvatni 28. mars nk.

Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra verður haldinn í húsnæði Háskóla Íslands á Laugarvatni fimmtudaginn 28. mars nk.  Fundurinn er öllum opinn en gestir eru beðnir að skrá sig. Skráningu lýkur 22. mars. 

Dagskrá

13.30       Setning ársfundar. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra

13.40       Ávarp. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands

13.50       Ávarp. Helgi Kjartansson, oddviti Bláskógabyggðar

14:00       Hvað er rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða? Guðrún Pétursdóttir, formaður verkefnisstjórnar 4. áfanga rammaáætlunar og framkvæmdastjóri Stofnunar Sæmundar fróða

14:20       Þjóðgarðar - óleysanlegar mótsagnir eða hvatning til breyttrar hugsunar? Þorvarður Árnason, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Hornafirði

14:40       Kaffi

15:10       Náttúruvernd og landnotkun. Tómas Grétar Gunnarsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Suðurlandi

15:30       Hafa villt dýr réttindi? Spjall um umhverfissögulega rannsókn á sambúð manns og villtra dýra á Íslandi. Unnur Birna Karlsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Austurlandi

15:50       Áhrif manna á búsvæði fugla.  Aldís Erna Pálsdóttir, doktorsnemi við Rannsóknasetur HÍ á Suðurlandi

16:10       Fundarslit og samantekt. Halldór Jónsson, sviðsstjóri Vísinda- og nýsköpunarsviðs Háskóla Íslands

Fundarstjóri: Halldór Jónsson, sviðsstjóri Vísinda- og nýsköpunarsviðs Háskóla Íslands

Að fundinum loknum verður boðið upp á léttar veitingar.

Rútuferð verður frá Aðalbyggingu HÍ kl. 11.30 og aftur frá Laugarvatni kl. 17:00 (ef ekki kemur til boðaðs verkfalls rútubílstjóra 28.mars) Boðið verður upp á léttan hádegisverð á Laugarvatni áður en fundurinn hefst.

Skráning á ársfundinn er á vefslóðinni https://goo.gl/forms/rmdZvKpbBCGTsJLm1

 

Grunnskólakrakkar í háskólarannsókn á Laugarvatni

Rannsóknir á fuglum eru mjög mikilvægar vegna þess að þær endurspegla ástand vistkerfa auk þess að gefa skarpa mynd af breytingum í lífríkinu vegna sviptinga í lofslagi. Nú er hafið mjög spennandi verkefni við Bláskógaskóla á Laugarvatni þar sem unglingastig skólans vinnur með Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Suðurlandi að því að meta áhrif árferðis og loftslagsbreytinga á fuglastofna í nágrenni við vatnið.

„Til að mæla þessar breytingar fara krakkarnir út vikulega og telja fugla í ýmsum búsvæðum á og við Laugarvatn,“ segir Tómas Grétar Gunnarsson, sem er forstöðumaður rannsóknasetursins en hann leiðir verkefnið ásamtfuglafræðingnum Böðvari Þórissyni, sem einnig starfar við rannsóknasetrið og grunnskólakennurunum Hallberu Gunnarsdóttur og Guðna Sighvatssyni við Bláskógaskóla.

Í stefnu Háskóla Íslands er hvatt til gagnkvæms samstarfs við fyrri skólastig og þetta verkefni er svo sannarlega að uppfylla það markmið með mjög frumlegum hætti. Í þessu verkefni styðja grunnskólanemar nefnilega við mikilvægar rannsóknir á háskólastigi og raunar gott betur því þeir taka beinan þátt í þeim.

Tómas Grétar segir að talningarnar nýtist á fjölbreyttan hátt í kennslunni en fuglatalningarnar eru hluti af sérhæfðu útinámi við Bláskógaskóla á Laugarvatni.  „Auk þess að byggja upp þekkingu á náttúrufræði er hægt að nota upplýsingarnar sem fást í verkefninu í fleiri fögum til dæmis landafræði og stærðfræði.“

Miklar sviptingar í lífríki vegna loftslagsbreytinga

Að Tómasar sögn hófst verkefnið í fyrra og þótti gefa það góða raun að því er haldið áfram núna í haust af miklum krafti.

„Ef reglubundnum mælingum af þessu tagi er haldið til streitu um lengri tíma má meta breytingar á komutíma farfugla, á stofnstærðum og á samsetningu fuglafánunnar. Hnattrænar breytingar á náttúrufari eru settar saman úr staðbundnum atburðum og ferlum og því leggja mælingar sem þessar til mikilvægar upplýsingar sem nýtast til náttúruvöktunar.“

Tómas Grétar segir að miklar breytingar séu að verða á lífríki jarðar vegna loftslagsbreytinga og eyðingar búsvæða. „Breytingar á komutíma farfugla að vori eru afar augljós merki um áhrif loftslagsbreytinga á náttúrufar. Fjöldi rannsókna í Evrópu og Ameríku, m.a. á Íslandi, hefur sýnt að farfuglar koma æ fyrr á varpstöðvar með hlýnandi veðri. Þetta á einkum við um skammdræga farfugla en síður um langdræga. Þá benda rannsóknir til að breytingar á fartíma séu tengdar stofnstærðum á þann hátt að það fækki síður í fuglastofnum sem geta frekar aðlagað fartíma sinn að breyttum skilyrðum . Fuglar eru áberandi og auðþekktir miðað við flesta hópa dýra  og eru því ákjósanlegur mælikvarði og viðfangsefni rannsókna. Þá eru fuglar gjarnan ofarlega í fæðukeðjum,“ segir Tómas,  og fuglarannsóknir gefa þannig vísbendingar um atburði á neðri fæðuþrepum.“

Krakkarnir mjög áhugasamir

Í stefnu Háskóla Íslands er hvatt til að auka áhuga nemenda á öllum skólastigum á vísindum og fræðum og hér er sannarlega unnið í þeim anda. Nemendur grunnskólans á Laugarvatni hafa verið mjög áhugasamir um verkefnið enda er rannsóknin sjálf spennandi og fuglarnir heilla krakkana eins og reyndar flest fólk.  Mjög margir njóta þess að horfa á fugla og tengja þá við árstíðir, komu vorsins þegar farfuglar þyrpast til landsins, og haustsins þegar þeir fljúga aftur utan. „Fuglar eiga undir högg að sækja eins og fleiri þættir lífríkisins. Aukin þekking sem fæst með rannsóknum er besta leiðin til að stemma stigu við slíkri hnignun. Það er því ánægjulegt að geta sameinað ánægjulega útiveru, nám og mikilvægar rannsóknir á náttúrunni í verkefninu, þvert á skólastig,“ segir Tómas Grétar.  

 

Ljósmyndir tók Kristinn Ingvarsson, ljósmyndari Háskóla Íslands. 

Samstarf treyst við opnun nýrrar rannsóknaaðstöðu í Bolungarvík

Fjölmenni var við opnun nýrrar rannsóknaaðstöðu Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum. Við sama tækifæri var undirritaður samstarfsamningur Bolungarvíkurkaupsstaðar og Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum.

Samstarfssamninginn undirrituðu Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkurkaupstaðar, Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum, og Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands. Samningurinn hefur það að markmiði að efla þekkingar- og rannsóknastarf í Bolungarvík og á Vestfjörðum og um leið að festa í sessi og efla starfsemi rannsóknasetursins.

Með samningnum er fest í sessi sumarnámskeið fyrir grunnskólabörn og samstarf við efstu bekki grunnskólans þar sem nemendur kynnast vísindalegum aðferðum við sjávarrannsóknir t.d. með því að veiða og rannsaka fiskseiði.

Guðbjörg Ásta Ólafsdótir, forstöðumaður rannsóknasetursins, sagði við þetta tækifæri að ,,með glæsilegri rannsóknaaðstöðu aukast möguleikar okkar á að þróa okkar rannsóknir um leið og samstarfsmöguleikar okkar innan svæðisins og utan aukast mjög.“ Ánægjulegt er að starfsemi rannsóknasetursins hafi eflst mjög undafarna mánuði og starfa nú átta manns við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum, auk Guðbjargar, Ragnar Edvardsson fornleifafræðingur, þrír doktorsnema, tveir meistaranemar auk starfsnema.  

Framlög frá Bolungarvíkurkaupstað, Uppbyggingasjóði Vestfjarða, Innviðasjóð Rannís og Tækjakaupasjóði Háskóla Íslands hafa gert þá innviðauppbyggingu mögulega sem í dag var fagnað að viðstöddu fjölmenni. Rannsóknasetrið hefur nú alla fyrstu hæð húsnæðisins við Hafnargötu 9b.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum var sett á fót árið 2007 og eru þar lögð áhersla á rannsóknir náttúru, mannlífi og atvinnuvegum á svæðinu. Rannsóknasetrið er hluti af Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands en markmið hennar er að skapa aðstöðu til rannsókna á landsbyggðinni, auka möguleika almennings til menntunar og styrkja tengsl Háskóla Íslands við atvinnu- og þjóðlíf. Stofnunin er jafnframt vettvangur samstarfsverkefna Háskólans við sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga á landsbyggðinni.

Myndirnar eru frá opnun nýrrar rannsóknaaðstöðu Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum og þær tóku Catherine Chambers og Sæunn Stefánsdóttir.

Varp tjaldsins brást algerlega á Suðurlandi

„Þetta sumar var gríðarlega þurrt á Suðurlandi og varla kom dropi úr lofti. Við sáum í rannsóknum okkar hvernig fullorðnir fuglar, sem halda til á túnum sunnan lands, áttu í gríðarlegum erfiðleikum með að finna æti fyrir ungana og jafnvel sjálfa sig.“

Þetta segir Verónica Méndez Aragón sem er nýdoktor við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi.  Hún hefur varið stórum hluta af sínum vísindaferli hér við að rannsaka þennan fallega vaðfugl. Rannsóknirnar hófust af fullum þunga sumarið 2015 og hafa verið fjármagnaðar af Rannís og breska rannsóknaráðinu NERC. Verónica vinnur rannsóknirnar í samstarfi við teymi af vísindafólki og áhugamönnum. José Alves sem er gestavísindamaður við Rannsóknasetrið hefur m.a. unnið náið með henni. 

Þau segja að í sumum tilvikum hafi tjaldurinn algerlega hætt við varp þar sem hann hafði ekkert aðgengi að fæðu og á svæðum inn til landsins þar sem tjaldar reiða sig á ánamaðka hafi verið mikill ungadauði í þurrkunum í sumar.

Verónica segir að á Íslandi noti tjaldar einkum tvenns konar búsvæði. Hluti stofnsins haldi sig gjarnan í fjörum og á leirum eða lítt grónum svæðum við strendurnar. Þessir tjaldar lifa á því sem fjörurnar færi þeim og er það mest kræklingur og annar skelfiskur. Aðrir tjaldar sæki í tún og graslendi en þeir verpi flestir inn til landsins. 

Tjaldurinn er einkar áberandi í íslenskri náttúru því hann er stór og stendur gjarnan upp úr melunum, svartur og hvítur, með sinn langa rauðgula gogg og rauðbleika háa fætur. Hann á það líka til að verpa þar sem hann virðist alveg berskjaldaður en margir taka eftir honum á eggjum á vegöxlum, jafnvel við fjölförnustu þjóðvegi landsins. 

„Tjaldur er sérkennilegur vegna þess að ólíkt öðrum vaðfuglum, þá fóðra fullorðnir fuglar ungana en láta þá ekki um að bjarga sér upp á eigin spýtur. Ungarnir eru af þessum sökum gjarnan vel fóðraðir þar sem fullorðnir fuglar þekkja varplandið gríðarlega vel og þá möguleika sem svæðið býður upp á varðandi það að finna æti.“ 

Verónica segir að sunnanlands sé stærstur partur af stofninum í túnum og graslendi og þar hafi nánast verið um náttúruhamfarir að ræða fyrir þennan fugl í sumar. „Það var mjög óvenjulegt ástand því það skorti algerlega úrkomu, vatnsborð varð þannig mjög lágt í tjörnum og skurðum, og tjaldurinn gat hvergi grafið sig í gegnum grjótharðan jarðveginn, hann var svo þurr. Þetta er langversti varpárangur tjaldsins á þessu svæði frá því við hófum rannsóknir okkar árið 2015. Strandfuglarnir á hinn bóginn, á Norðurlandi vestra og í Hvalfirði, stóðu sig afar vel eins og í öðrum árum, sem er léttir fyrir mig,“ segir Verónica og brosir. 

„Hugsaðu þér sumar án unga!“

Vísindakaffi í Bolungarvík: Hvaða áhrif hafa umhverfisbreytingar í sjó á ferðir þorskseiða?

Hvaða áhrif hafa umhverfisbreytingar í sjó á ferðir þorskseiða?

Rannsóknarsetur HÍ á Vestfjörðum býður gestum og gangandi upp á vísindakaffi og meðlæti í húsakynnum setursins, laugardaginn 28. september kl. 14:00-16:00 að Hafnargötu 9b í Bolungarvík. Forstöðumaður setursins, dr. Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, ásamt samstarfsfólki, mun taka á móti gestum og kynna það sem er helst á döfinni. Þá verður sagt frá nýjum rannsóknum þar sem þorskseiði eru merkt með hljóðmerkjum til að kanna ferðir þeirra um vestfirska firði og gestum gefst tækifæri til að skoða tilraunir á hegðun og ferðum þorskseiða í rannsóknabúrum. Vísindakaffið er haldið í samstarfi við Vísindavöku Rannís 2019. Allir velkomnir!

 

Áhrif mannanna hljóða á lundann

Þar sem lundinn er ljúfastur fugla, orti skáldið Ási í Bæ um þennan magnaða svartfugl sem hefur orðið að einkennisfugli Íslands í augum erlendra ferðamanna. Lundinn er enda í skrautlegra lagi, með gogg sem er einn sá litríkasti í veröldinni, og stendur upp úr eins og prófastur í pontu. Lundinn er gríðarlega algengur við strendur Íslands og er ætlað að um sextíu prósent af heimsstofninum verpi hér. Til að átta sig betur á fjöldanum þá eru lundar hér við land um tíu milljónir talsins.

Nú stendur yfir mjög áhugaverð rannsókn á lundanum hjá rannsóknasetri Háskóla Íslands á Húsavík en Bandaríkjamaðurinn Adam Smith vinnur að verkefninu undir stjórn Marianne Rasmussen sem er forstöðumaður setursins.

„Rannsóknir mínar snúast um það hvernig dýr hagnýta sér hljóð. Þetta felur í sér að kanna hvað þau heyra, hvaða hljóð þau mynda, hvaða hljóð eru í náttúrulega umhverfi þeirra og líka hvernig manngerð hljóð hafa áhrif á líf þeirra og hegðun,“ segir Adam á meðan hann kemur fyrir upptökubúnaði á varpstöðvum lundans norður af Húsavík. Hann fikrar sig nær bjargbrúninni en lundinn verpir í holur við brúnina sem hann grefur.  Þessi fallegi sjófugl getur orðið furðugæfur á varpstöðvum og því er hann líklega sá fugl sem oftast er festur á flöguna hjá ljósmyndurum.

Hvernig hafa hljóð áhrif á lundann?

„Hér er ég að rannsaka náttúrulegar hljóðmyndir á varpsvæði lundans. Hugtakið hljóðmynd,“ segir Adam,  „vísar til allra þeirra ólíku fyrirbæra sem mynda hljóð og skapa það hljóðmynstur sem finna má á tilteknu svæði. Á landi geta hljóð t.d. stafað af vindi, regni, öldum og röddum fugla eða frá bílum sem ekið er eftir vegi. Í vatni koma hljóð m.a. frá vindi og öldum á yfirborðinu auk þess frá hvölum, fiskum og bátum sem eiga leið hjá.“

Adam segir að á undanförnum árum hafi vísindamenn verið að uppgötva að þessar hljóðmyndir geta gegnt mikilvægu hlutverki í hegðun og lífi dýra. „Þegar hljóðmyndir náttúrunnar breytast vegna mannsins getur það haft neikvæði áhrif. Við leitumst við að skilja náttúruleg hljóðmynstur í kringum varpsvæði lunda, hvaða þættir eru mikilvægastir í þeim og síðan að meta hvort að manngerð hljóð eru að breyta þessum mynstrum og hvaða áhrif það kann að hafa á lundann.“ 

Adam segir að rannsóknaaðferðin sé kölluð óvirk hljóðskönnun sem felist í því að setja upp hljóðupptökutæki á landi og í sjó á svæðinu umhverfis varpsvæði lundans. „Síðan eru þessi tæki skilin eftir og þau taka upp hljóðin í umhverfinu sumarlangt á meðan lundarnir eru á svæðinu. Upptökunum er svo safnað saman og þær greindar á rannsóknarstofu.“

Adam segir að þessi aðferð skili miklu því með henni sé unnt taka upp hljóð yfir mjög löng tímabil allan sólarhringinn, „og að auki gefur það okkur möguleika á að taka upp náttúruleg hljóð lundanna þegar enginn mannvera er nálæg.“

Auk rannsókna á hljóðmyndum á varpsvæðum lundans rannsakar Adam fjölmargt annað varðandi lundann, t.a.m. heyrn fuglsins, lífeðlisfræði hlustunarfæra þeirra og hvernig þeir bregðast við manngerðum hljóðum í rannsóknarstofum.

Verkefnið er fjölþjóðlegt og er partur af breiðu rannsóknarsamstarfi milli vísindamanna við Háskóla Íslands, Woods Hole Oceanographic Institution í Bandaríkjunum SDU í Danmörku.

Sjófuglar einstaklega áhugaverðir

Adam er afar heillaður af verkefninu og segir að sjófuglar séu sérstaklega áhugaverðir hvað hljóðheiminn varðar því þeir lifi á mörkum hafs og lands og hafi þróast til að hagnýta sér þessi gjörólíku umhverfi. „Þetta eðli er sérstaklega áberandi hjá sjófuglum sem kafa eins og lundinn gerir. Hann eltir bráð niður á allt að 100 metra dýpi. Við vitum mjög lítið um það hvernig flestir sjófuglar nota hljóð, og hvort þeir heyri eða myndi hljóð neðansjávar. Hljóð hagar sér með gjörólíkum hætti á láði og í legi og því þarf ólíkan búnað til að nema og mynda hljóð í sjó og á landi. Þannig að sjófuglar eru áhugaverðir frá sjónarmiði grunnvísinda því þeir hafa þróað með sér hljóðbúnað sem fyrst nýtist í lofti eins og hjá öðrum fuglum, en hefur aðlagast til að nýtast eða í það minnsta að þola, gjörólíkt umhverfi neðansjávar.“

Adam segir að við lok rannsóknarinnar geri hann ráð fyrir að vita hvernig hljóðmyndir við lundabyggðir breytist yfir sumarið, hvaða þættir stýri þessum breytingum og að hve miklu leyti þessi svæði veri fyrir áhrifum hljóðmengunar.

Hvernig tjá lundar sig með hljóðum?

Nú eru fuglar komnir á kreik og kvæðin syngja,
því ég vandist oft við unga,
er mér kunnug þeirra tunga.

Svona orti Eggert Ólafsson, sem þekkti augljóslega mál fuglanna, en óvíst er með öllu hvort hann hafi haft á þeim mikinn skilning. Það er einmitt markmið Adam Smith að skilja betur hvert inntak hljóðanna er hjá lundanum. „Við vonumst til að geta dregið ályktanir af samskiptakerfi lunda, t.d. hvaða hljóð lundar gefa frá sér og á hvaða tíma dags þeir eru virkastir í að mynda hljóð.“

Flestir dást að fegurð fugla og einn mesti myndlistamaður þjóðarinnar, Jóhannes Kjarval, er sagður hafa hvatt okkur mennina til að taka ofan fyrir fuglum og blómum. Sumum gæti samt þótt að fegurðin ein nægi ekki sem ástæða til rannsókna á þessum lífverum en frá hagnýtu sjónarhorni er vert að benda á að sjófuglar eru meðal þeirra fugla sem eru í hvað mestri útrýmingarhættu.  „Um fjórðungur allra sjófugla eru á lista yfir tegundir í hættu. Þetta á sérstaklega við sjófugla í norðurhöfum þar sem heimskautasvæðin eru sérstaklega viðkvæm gagnvart loftslagsbreytingum,“ segir Adam.

Stofnar Atlantshafslundans á Íslandi og í Noregi hafa minnkað verulega síðan snemma á öldinni, sem hefur leitt til þess að lundinn hefur nýlega verður settur á lista yfir dýr í útrýmingarhættu á Íslandi og í Evrópu.“

Adam segir að minnkun stofnsins eigi að líkindum ýmsar orsakir, þ.m.t. í mengun af manna völdum og í minnkandi aðgengi að bráð vegna loftslagsbreytinga. „En að auki hefur sjónum verið í auknum mæli verið beint að aukinni hljóðmengun af völdum manna í umhverfinu sem getur haft neikvæð áhrif á dýr. Sjófuglar á borð við lundann sem kafa verða hugsanlega fyrir meiri áhrifum og kunna að vera viðkvæmari fyrir hljóðmengun en ýmis önnur dýr, og því er það afar mikilvægt að komast að því hvort manngerð hljóð eru að valda skaða.“

Niðurstöðurnar mikilvægar og nýtast vel

Adam segir að niðurstöður rannsókna sinna muni verða mikilvægar til að reglur um náttúruferðamennsku og vernd lundastofnsins á Íslandi verði byggðar á traustum grunni. „Jafnframt þessu er hægt að vinna að öruggri áætlun út frá niðurstöðunum til að vernda og endurreisa lundastofna á Íslandi og um heim allan. Þó lundar séu viðfangsefni mitt má gera ráð fyrir að niðurstöðurnar gagnist varðandi áhrif hljóðmengunar á aðra sjófugla.“

 

Myndirnar tóku Daniel Bergmann (af lundanum) og Jón Örn Guðbjartsson

 

 

 

 

 

 

Hornsílið rannsakað af krökkum á sumarnámskeiði í Bolungarvík

Hressir krakkar hafa gert víðreist í kringum Bolungarvík síðustu daga. Taka þau þátt í sumarnámskeiði á vegum Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum. Markmiðið með námskeiðinu er að gefa grunnskólanemum innsýn inn í vísindarannsóknir á lífríki sjávar og nýtingu þess.

Á námskeiðinu hafa þátttakendur fengið innsýn og prufað sig áfram með fjölbreyttar rannsóknir. Þau hafa kortlagt búsvæði fiska, gert botnmælingar í sjó, lagt hornsílagildrur og veitt með strandnót svo dæmi séu nefnd. Þátttakendur hafa t.d. rannsakað hornsílið, en hann er einn mesti rannsakaði fiskur í heimi. Krakkarnir hafa veitt og merkt hornsíli og gert tilraun til að meta hvað þeir eru margir. Þá hafa þau skoðað kvarnir (eyrnabein) hornsíla í smásjám til að meta hvað fiskarnir eru gamlir, pælt í vexti þeirra og veiðistofnum. Loks hafa þau gert tilraunir með mismunandi veiðarfærum á rannsóknastofu í því markmiði að kanna hvaða áhrif veiðar geta haft á hinu ýmslu eiginleika fiskistofna. Þá hafa þátttakendur kynnst því hvernig fiskveiðar og aðrar sjávarnytjar þróuðust á Vestfjörðum frá landnámi og að nútíma. Munu þau skoða verstöðvar og hvalveiðistöðvar ásamt því að skoða fiskibein og hvalbein úr fornleifarannsóknum.

Aðspurð segir Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Vestfjörðum, að krakkarnir standi sig vel og séu afar áhugasöm um lífríki sjávar. Þau veigri sér ekki við að vaða, veiða og prufa rannsóknatæki vísindamanna setursins hvort sem er innandyra eða utan.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum var sett á fót 2007. Rannsóknir setursins eru bæði á sviði fiskilíffræði og fornleifafræði og sérstök áhersla er þar á rannsóknir á haf- og strandsvæðum.

 

Hornsílið rannsakað af krökkum á sumarnámskeiði í Bolungarvík

Hressir krakkar hafa gert víðreist í kringum Bolungarvík síðustu daga. Taka þau þátt í sumarnámskeiði á vegum Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum. Markmiðið með námskeiðinu er að gefa grunnskólanemum innsýn inn í vísindarannsóknir á lífríki sjávar og nýtingu þess.

Á námskeiðinu hafa þátttakendur fengið innsýn og prufað sig áfram með fjölbreyttar rannsóknir. Þau hafa kortlagt búsvæði fiska, gert botnmælingar í sjó, lagt hornsílagildrur og veitt með strandnót svo dæmi séu nefnd. Þátttakendur hafa t.d. rannsakað hornsílið, en hann er einn mesti rannsakaði fiskur í heimi. Krakkarnir hafa veitt og merkt hornsíli og gert tilraun til að meta hvað þeir eru margir. Þá hafa þau skoðað kvarnir (eyrnabein) hornsíla í smásjám til að meta hvað fiskarnir eru gamlir, pælt í vexti þeirra og veiðistofnum. Loks hafa þau gert tilraunir með mismunandi veiðarfærum á rannsóknastofu í því markmiði að kanna hvaða áhrif veiðar geta haft á hinu ýmslu eiginleika fiskistofna. Þá hafa þátttakendur kynnst því hvernig fiskveiðar og aðrar sjávarnytjar þróuðust á Vestfjörðum frá landnámi og að nútíma. Munu þau skoða verstöðvar og hvalveiðistöðvar ásamt því að skoða fiskibein og hvalbein úr fornleifarannsóknum.

Aðspurð segir Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Vestfjörðum, að krakkarnir standi sig vel og séu afar áhugasöm um lífríki sjávar. Þau veigri sér ekki við að vaða, veiða og prufa rannsóknatæki vísindamanna setursins hvort sem er innandyra eða utan.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum var sett á fót 2007. Rannsóknir setursins eru bæði á sviði fiskilíffræði og fornleifafræði og sérstök áhersla er þar á rannsóknir á haf- og strandsvæðum.

 

Minnstu skógar geta haft áhrif á varp mófugla

Skógrækt á varpsvæðum mófugla eins og heiðlóu og spóa hefur ekki aðeins áhrif á varp á ræktunarsvæðinu sjálfu heldur einnig utan jaðars þess, óháð stærð og tegund skóga. Þetta er meðal þess sem rannsóknir doktorsnemans Aldísar Ernu Pálsdóttur við Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Suðurlandi hafa leitt í ljós og kynntar verða á ársfundi Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands.
 
Háskóli Íslands starfrækir níu rannsóknarsetur víða um land þar sem vísindamenn og nemendur vinna að forvitnilegum og blómlegum rannsóknum á jafnólíkum fræðasviðum og lífríki hafsins, umhverfi og landnýtingu, ferðamálum, bókmenntum, þjóðfræði og fornleifafræði, í góðu samstarfi við heimamenn. Á ársfundi Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands, sem fram fer fimmtudaginn 28. mars á Laugarvatni, veita starfsmenn setranna innsýn í starfsemina og í hópi fyrirlesara er Aldís Erna Pálsdóttir, doktorsnemi við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi.
 
Aldís vinnur að rannsókn á áhrifum breytinga á landnotkun á Íslandi á mófuglastofna sem verpa hér á landi, en í hópi þeirra eru þúfutittlingur og vaðfuglar eins og heiðlóa, hrossagaukur, tjaldur og stelkur. „Upphaflegt markmið rannsóknarinnar var að kanna áhrif svokallaðar landbútunar á fuglastofna, þ.e. þegar stór landsvæði eru brotin niður í smærri einingar með ýmiss konar uppbyggingu. Land víðast hvar í Evrópu er mikið bútað niður en Ísland er enn þá tiltölulega dreifbýlt og því er gott að skoða þessi byrjunarstig landbútunar og hvaða áhrif þau hafa á fugla hér á landi. Auk þess hýsir Ísland stóran hluta ýmissa vaðfuglastofna, eins og heiðlóu, og okkur ber því lagaleg skylda til að vernda búsvæði þessara tegunda. Ísland er því kjörið fyrir slíka rannsókn,“ segir Aldís.
 
Mófuglar kunna alla jafna vel við sig á opnum svæðum og Aldís bendir á að við uppbyggingu mannsins á varpsvæðum mófugla missi fuglarnir ekki einungis landið sem fer undir uppbygginguna heldur verða oft einnig svokölluð jaðaráhrif þannig að fuglarnir forðast uppbyggingarsvæði og missa þ.a.l. meira varpsvæði en uppbyggingin sjálf afmarkar. „Hingað til hef ég kannað þessi jaðaráhrif annars vegar í kringum skóga og hins vegar í og við sumarbústaðarlönd. Til þess að kanna þessi áhrif tel ég fugla nálægt þessum uppbyggingarstöðum og ber saman við fjölda fugla og tegundasamsetningu fjær uppbyggingarstöðunum,“ segir Aldís um rannsóknina.
 

Mófuglar forðast skógarjaðarinn

Aldís segir fyrstu niðurstöður rannsóknanna sýna að flestar tegundir mófugla forðast skógarjaðarinn. „Skógarþröstur og hrossagaukur fundust í meira mæli nálægt skóginum en tjaldur, jaðrakan, spói, heiðlóa, lóuþræll, stelkur og þúfutittlingur fundust frekar lengra frá skóginum og var þetta samband mjög marktækt. Það merkilega við þessar niðurstöður er að stærð skógar (hæð og breidd), þéttleiki hans og gerð trjáa hafði engin áhrif á þessa „fælni“ fuglanna sem bendir til þess að jafnvel minnstu skógar geti framkallað þessi áhrif,“ segir hún og bætir við að upplýsingarnar megi nýta til þess að skipuleggja framtíðaruppbyggingu skóga þannig að þeir hafi sem minnstan jaðar. „Þetta er t.d. hægt með því að hafa þá eins hringlaga og hægt er og einnig að rækta frekar færri en stærri skóga en marga trjáreiti hér og þar.“
 
Enn er verið að vinna úr niðurstöðum á áhrifum sumarhúsauppbyggingar á varp mófugla en þær benda að sögn Aldísar til þess að skógarþresti fjölgi þar sem húsum fjölgi en fjöldi hrossagauka breytist ekki með fjölda húsa. Þá séu vísbendingar um að hinar fimm tegundirnar, sem skoðaðar voru í rannsókninni, forðist hús að einhverju leyti. „Stefnt er að því að stórauka skógrækt á Íslandi og sumarhúsum fjölgar hratt og því gætu þessar niðurstöður rannsóknarinnar nýst til þess að skipuleggja áframhaldandi uppbyggingu á þann hátt að hún hafi sem minnst áhrif á fugla landsins,“ segir Aldís aðspurð um þýðingu rannsóknanna.
 
Aldís státar af bæði BS- og MS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands og aðspurð hvað heilli hana við fræðigreinina segir hún hnattræna hlýnun og þær breytingar sem fylgi henni fela í sér áskoranir sem hún vilji taka þátt í að leysa. „Jörðin er að taka miklum og hröðum breytingum með hækkandi hitastigi, súrnun sjávar og röskun á búsvæðum lífvera og okkur ber skylda til að reyna að vernda þær dýrategundir sem eftir eru. Með því að fara í líffræði og vinna að rannsóknum og birta niðurstöður þeirra get ég vonandi lagt mitt af mörkum til að vernda þær tegundir sem hér eru. Starfið sjálft hefur enn fremur mikla kosti. Ég kynnist fjölmörgu áhugaverðu fólki sem kemur til landsins til að safna gögnum fyrir rannsóknir og ég ver tveimur mánuðum á hverju sumri í útivinnu en á sama tíma er þetta krefjandi og ég tekst á við nýjar áskoranir á hverjum degi. Ég gæti ekki hugsað mér að gera neitt annað,“ segir hún að endingu.
 
Hægt er að fræðast frekar um rannsóknasetur Háskóla Íslands víða um land og ársfund Stofnunar rannsóknasetra á vef stofnunarinnar.

Pages

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is