Aðalvefur

Doktorsvörn í dag

Í dag, miðvikudaginn 28. júní, ver Lilja Jóhannesdóttir doktorsritgerð sína við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Tengsl landbúnaðar og vaðfuglastofna á norðlægum slóðum (e. Links between agricultural management and wader populations in sub-arctic landscapes).

Andmælendur eru dr. James Pearce-Higgins, deildarstjóri rannsóknasviðs hjá British Trust for Ornithology og dr. Hlynur Óskarsson, dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Leiðbeinandi Lilju er dr. Tómas Grétar Gunnarsson, vísinda- og forstöðumaður við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi. Aðrir í doktorsnefnd eru dr. Jennifer A. Gill, prófessor við Háskólann í East Anglia og dr. José A. Alves, nýdoktor við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi.

Ágrip af rannsókn

Hnignun líffræðilegrar fjölbreytni í heiminum á síðustu áratugum má að stórum hluta rekja til aukinnar útbreiðslu og ákefðar í landbúnaði. Íslenskur landbúnaður hefur enn ekki náð sömu ákefð og útbreiðslu og víða í vestrænum ríkjum og áhrif landbúnaðar á líffræðilega fjölbreytni eru að mestu óþekkt hérlendis, sem og í öðrum sambærilegum landbúnaðarkerfum. Ísland er mikilvægt varpsvæði margra ábyrgðartegunda og hér finnast stórir stofnar vaðfugla.

Markmið doktorsverkefnisins er að skýra tengsl landbúnaðar og vaðfuglastofna á norrænum slóðum með mælingum á Íslandi. Þetta var gert bæði með að meta þéttleika vaðfugla á landbúnaðarsvæðum sem og að spyrja bændur um fyrirætlanir þeirra í landnýtingu og viðhorf þeirra til fuglalífs á landi þeirra. Mat á þéttleika vaðfugla á svæðum undir mismiklum áhrifum landbúnaðar sýnir að almennt er hár þéttleiki á öllum svæðunum en þéttleikinn er lægri á svæðum undir meiri landbúnaðaráhrifum. Þetta bendir til að ef flatarmál ræktað lands eykst muni það hafa neikvæð áhrif á þéttleika vaðfugla en meirihluti þeirra bænda sem rætt var við fyrir verkefnið sögðust stefna á að auka ræktað land á komandi árum.

Eldvirkni og hitastig hafa umtalsverð áhrif á fuglalíf á Íslandi, en að auki geta áhrif ræktaðs lands á þéttleika vaðfugla ráðist af þessum tveimur þáttum. Á sumum svæðum minnkar þéttleiki með aukinni útbreiðslu ræktað lands en á öðrum svæðum eykst þéttleikinn. Áhrif aukningar ræktaðs lands á vaðfuglastofna ráðast því að hluta til af staðsetningu. Það eru litlar áherslur lagðar á vernd þessara tegunda á Íslandi og þegar bændur voru spurðir út í viðhorf þeirra til fuglalífs á landi þeirra sögðust þeir almennt ekki taka mikið tillit þess við landnýtingu þrátt fyrir að telja mikilvægt að hafa ríkulegt fuglalíf. Aftur á móti voru bændur jákvæðir gagnvart þeim verndraðgerðum sem lagðar voru til en vitað er að samvinna við landeigendur er lykilatriði ef á að viðhalda þeim þáttum líffræðilegrar fjölbreytni sem hafa víðtæka útbreiðslu.

Um doktorsefnið

Lilja Jóhannesdóttir er fædd árið 1981 og ólst upp á Mýrum í Hornafirði og í Skeiðahreppi. Hún lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurlands árið 2001, BS-prófi í náttúru- og umhverfisfræðum frá Landbúnaðarháskóla Íslands árið 2010 og meistaraprófi í náttúru- og umhverfisfræðum frá Landbúnaðarháskóla Íslands árið 2013. Doktorsnámið var unnið við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi í samstarfi við Háskólann í East Anglia í Bretlandi.

Spói á flugiJaðrakan á flugi

Edda Elísabet Magnúsdóttir ver doktorsritgerð 19. maí nk.

Edda Elísabet Magnúsdóttir ver doktorsritgerð sína við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands föstudaginn 19. maí nk . Ritgerðin ber heitið: Sönghegðun hnúfubaksins (Megaptera novaeangliae) á fæðustöðvum við suðurmörk norðurheimskautsins (e. The singing behaviour of humpback whales (Megaptera novaeangliae) in subarctic waters.

Leiðbeinandi er dr. Jörundur Svavarsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Aðrir í doktorsnefnd eru dr. Marianne H. Rasmussen, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík, dr. Patrick Miller, prófessor við Háskólann í St. Andrews, Skotlandi og dr. Mads Peter Heide-Jørgensen, prófessor við Náttúrurannsóknastofnun Grænlands í Nuuk, Grænlandi.

Haustið 2008 hóf Edda doktorsnám sitt við Líf- og umhverfisvísindadeild og fór þar fram við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík undir handleiðslu forstöðumanns þess, Marianne Rasmussen. 

Nánar má sjá um doktorsvörnina hér. 

Ágrip af rannsókn

Á æxlunartíma hnúfubaksins (Megaptera novaeangliae) syngja tarfarnir flókna og langa söngva sem samanstanda af endurteknum og fjölbreyttum söngerindum. Á hverjum tíma og stað syngja tarfarnir sömu söngvana. Söngvarnir virðast einna helst mikilvægir í samskiptum tarfanna þegar þeir eru á æxlunarstöðvunum en líklega eru þeir jafnframt mikilvægir í tilhugalífi dýranna. Nýlegar rannsóknir hafa staðfest að hnúfubakstarfar eru einnig iðnir við söng utan æxlunarstöðva, t.d. á farleiðum og á fæðuslóðum á og við heimskautasvæðin. Tilgangur sönghegðunarinnar á fæðuslóðum er enn að miklu leyti á huldu.

Rannsóknir fóru fram á hljóðmyndun hnúfubaka við norðausturströnd Íslands á heilsársgrundvelli með áherslu á sönghegðun að vetri. Hljóðgögnum var safnað yfir þriggja ára tímabil. Upptökurnar leiddu í ljós að hnúfubakar syngja á fæðustöðvum sínum norðaustur af landinu á veturna og voru söngvarnir í mestum mæli á æxlunartíma þeirra. Jafnframt mynduðu þeir margvísleg samskiptahljóð allt árið sem flokkast ekki sem söngvar. Upptökur af söngvum fengust einnig frá þekktum æxlunarstöðvum hnúfubaka í Norður Atlantshafi, þ.e. frá Grænahöfðaeyjum úti fyrir norðvesturströnd Afríku og frá Karíbahafi. Markmiðið var að bera íslensku söngvana saman við söngva frá þessum æxlunarstöðvum.

Ef líkindi finnast milli söngva og þess hvernig þeir þróast á fjarlægum búsvæðum bendir það til þess að hvalir frá þeim svæðum eigi í samskiptum og tilheyri líklega sama æxlunarstofni. Fyrsta stigs Markov-líkan var notað til að meta samræmi og festu í myndun söngrunanna innan tímabila en samanburðargreiningar voru svo nýttar til að kanna líkindi milli söngvanna frá þessum ólíku svæðum og tíma. Ásamt því hversu miklum tíma hvalirnir vörðu í söng sýndu niðurstöðurnar fram á að söngvarnir frá Íslandi voru í samræmi við það söngform sem þekkist á hefðbundnum æxlunarstöðvum í hitabeltinu. Því er ólíklega um tilviljunarkennda söngva að ræða, öllu heldur eru líkur á að söngvarnir á Íslandi eigi þátt í tilhugalífi hvalanna. Söngvar með svipaða uppröðun erinda voru sungnir við Ísland og á æxlunarsvæðunum. Það bendir til þess að hvalirnir skiptist á hljóðum á Íslandsmiðum og/eða á farleiðum og flytji þau svo með sér suður á æxlunarstöðvarnar.

Þar sem söngvar heyrðust fram í mars er ljóst að einhverjir hnúfubakar halda til við Ísland yfir veturinn. Þannig geta íslensk hafsvæði nýst hvölunum á veturna og fram á vor til bæði fæðuöflunar, söngiðkunar og mögulega til mökunar. Niðurstöðurnar varpa þannig nýju ljósi á mikilvægi íslenskra fæðustöðva fyrir hnúfubaka að vetri til.
 

Um doktorsefnið

Edda Elísabet Magnúsdóttir fæddist í Durham, Englandi árið 1981 og ólst upp í Reykjavík. Edda á tvo drengi, þá Aðalstein Loga Bernharðsson 6 ára og Arnar Magnús Bryden Swift 9 mánaða, sambýlismaður hennar er Martin Jónas Swift eðlisfræðingur og kennari.

Edda lauk BSc námi í líffræði við Háskóla Íslands árið 2005 og M.Paed námi í líffræði og kennslufræðum við Háskóla Íslands árið 2007. Veturinn 2007–2008 starfaði hún sem raunvísindakennari við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki en hóf svo doktorsnám sitt í líffræði við Háskóla Íslands haustið 2008 og fór það fram við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík.

Meðfram námi hefur Edda sinnt margvíslegri kennslu, þar á meðal stundakennslu við Háskóla Íslands og Háskólasetur Vestfjarða, raunvísindakennslu við Menntaskólann við Sund, í Háskóla unga fólksins og Háskólalestinni. Hún hefur auk þess leiðbeint meistaranáms- og grunnnámsnemendum í líffræði við Háskóla Íslands.

Edda hefur lagt metnað sinn í fræðslu um hvali fyrir almenning, m.a. með ýmsum erindum sem hafa verið sérstaklega sniðin að almenningi og með skrifum fræðsluefnis um hvali fyrir hvalasafnið „Whales of Iceland“. Edda gaf jafnframt út hljóðbók um hina áhugaverðu hljóðhegðun hnúfubaksins fyrir almenning, ásamt Marianne Rasmussen, leiðbeinanda hennar, og öðru samstarfsfólki.

Hvert er hlutverk hvala í lífríkinu?

Vísindamenn Háskóla Íslands vinna að ýmsum rannsóknum tengdum hvölum en þar má nefna samskipti hvala og lifnaðarhætti þeirra, hvalveiðar og hvalaskoðun. Þessi stærstu spendýr jarðar og hlutverk þeirra í lífríkinu verður til umræðu á málþingi sem fram fer í dag, fimmtudaginn 27. apríl, klukkan 13 til 16 á vegum Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík og franska sendiráðsins á Íslandi. Yfirskrift málþingsins er „What Is the Role of Whales in the Ecosystem?“ og fer það fram í sal N-132 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands.
 
Síðustu misserin hafa vísindamenn í auknum mæli beint sjónum sínum að hlutverki hvala í lífríkinu. Einn þeirra sem rannsakað hafa þetta um árabil er Joe Roman, rannsóknarprófessor við Rubenstein-náttúruvísindaskólann. Joe, sem lauk doktorsprófi í líffræðilegri og þróunarfræðilegri líffræði frá Harvard-háskóla árið 2003, stígur fyrstur á stokk á málþinginu og ræðir rannsóknir sínar á vistfræði stórhvala og hvernig fjölgun hvala getur endurreist lífríki sjávar. 
 
Einn þeirra vísindamanna innan Háskóla Íslands sem stundað hafa rannsóknir á hvölum er Marianne Rasmussen, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík. Hún tekur einnig til máls á ráðstefnunni og fjallar um hljóðumhverfi hafdjúpanna og hvernig hegðun hvala getur gagnast öðrum tegundum. 
 
Á málþinginu mun Gísli Víkingsson, sérfræðingur í uppsjávarlífríki hjá Hafrannsóknastofnun, enn fremur fjalla um vistfræðilegt hlutverk hvala sem rándýra og bráðar í vistkerfi hafsins, sem er mjög mismunandi eftir hafsvæðum. 
 
Í lokin verður boðið upp á pallborðsumræður með fyrirlesurunum þremur og að málþingi loknu býður franska sendiráðið þáttakendum og gestum upp á léttar veitingar. 
 
Málþingið fer fram á ensku og er öllum opið. Dagskrána má sjá hér

“What Is the Role of Whales in the Ecosystem?”

Á vegum Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík og franska sendiráðsins á Íslandi fer fram málþingið: “What Is the Role of Whales in the Ecosystem?” 27. apríl nk. kl. 13 til 16 í stofu 132 í Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands.

Dagskráin er öllum opin og fer fram á ensku. 

---------------------

The University of Iceland's Research Center in Húsavík and the French Embassy in Iceland er hosting a symposium:  “What Is the Role of Whales in the Ecosystem?” April 27th from 13 to 16 in room 132 in Askja, University of Iceland.

The symposium is open to guests and will be held in English. 

 

13.00 - 13.03 Welcome

13.05 - 13.20 Opening Remarks by Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Minister of Fisheries and Agriculture

13.20 - 13.55 Gíslí Víkingsson, MFRI “Whales’ Roles as Predators and Prey”

13.55 - 14.30 Marianne Helene Rasmussen, HI “Behaviors That Benefit Other Species”

14.30 - 14.45 Coffee Break

14.45 - 15.30 Joe Roman, UVT “Whales as Marine Ecosystem Engineers”

15.30 - 15.25 Introduction of panel

15.25 - 15.55 Panel Q&A on all aspects of whales’ roles in the ecosystem

15.55 - 16.00 Appreciation and Closing

Jöklar í bókmenntun, listum og lífinu - ráðstefna á Höfn í Hornafirði

Helgina 28.-30. apríl verður haldin ráðstefna á Höfn í Hornafirði með yfirskriftinni Jöklar í bókmenntum, listum og lífinu. Fyrir ráðstefnunni stendur Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Höfn, í samvinnu við Náttúrustofu Suðausturlands og Menningarmiðstöð Hornafjarðar. Til ráðstefnunnar er boðið rithöfundum og fræðimönnum á sviði bókmennta, myndlistar og jöklafræða. Meðal gesta verða rithöfundarnir Steinunn Sigurðardóttir, Linda Vilhjálmsdóttir og Ófeigur Sigurðsson sem öll hafa fjallað um jökla í skrifum sínum.

Í tengslum við ráðstefnuna verða settar upp sýningar af ýmsu tagi; í Listasafni Svavars Guðnasonar á Höfn verður málverkasýning á verkum í eigu safnsins, auk nokkurra verka sem koma frá Listasafni Íslands. Í Nýheimum verður ljósmynda- og kortasýning, handverkssýning, sýning á teikningum barna, sem og sýning á heimildamyndinni Jöklaland eftir Gunnlaug Þór Pálsson. Ráðstefnan er styrkt af Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) og Vinum Vatnajökuls.

Allir eru velkomnir að taka þátt: hlýða á fyrirlestra og skoða sýningar. Ef fólk vill gera sér helgarferð austur af þessu tilefni væri ráð að panta gistingu sem fyrst.

Föstudagur 28. apríl:

NÝHEIMAR

16:30   Mæting á ráðstefnuna, ráðstefnugögn afhent.

16:45   Setning ráðstefnunnar: Ávarp bæjarstjóra.

16:50   Karlakórinn Jökull flytur Jökulinn (lag: Jóhann Móravek, ljóð: Guðbjartur Össurarson).

16:55   Kynningar á ljósmyndasýningu og kortasýningu í Nýheimum.

17:00   Opnunarfyrirlestur í Nýheimum: Steinunn Sigurðardóttir: Jökullinn og tíminn: Við upphaf jöklaráðstefnu.

17:40   Opnun málverkasýningar í Listasafni Svavars Guðnasonar og kokteill.

18:15   Sýning á Jöklalandi eftir Gunnlaug Þór Pálsson.

20:15   Kvöldverður á Humarhöfninni.

Laugardagur 29. apríl

NÝHEIMAR

10:00   Fyrirlestur: Oddur Sigurðsson: Þekking Íslendinga á jöklum og eðli þeirra.

10:40   Fyrirlestur: Julian D‘Arcy: Um enska þýðingu og ‚þverfagleika‘ í Jöklabók Helga Björnssonar.

11:10   Kaffi og opnun á handverkssýningu og teikningum barna á bóksafni Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar í Nýheimum.

11:30   Fyrirlestur: Kristján Jóhann Jónsson: „Taugarnar þúsundir ísvetra ófu“ (jöklarnir í lundarfari landans).

12:10   Ljóðalestur: Linda Vilhjálmsdóttir rithöfundur les úr Frostfiðrildum (1. hluti).

12:20   Hádegisverður.

13:30   Ljóðalestur: Linda Vilhjálmsdóttir les úr Frostfiðrildum (2. hluti).

13:40   Fyrirlestur: Guðbjörg R. Jóhannesdóttir: VÁ! Upplifun af undrun og ægifegurð andspænis jöklinum.

14:20   Fyrirlestur: Hlynur Helgason:  Jökullinn fangaður í mynd — birtingarmyndir íslenskra jökla í myndlist í ljósi kenninga breska gagnrýnandans Johns Ruskin.

15:00   Kaffi og meðlæti.

15:20   Ljóðalestur: Linda Vilhjálmsdóttir les úr Frostfiðrildum (3. hluti).

15:30   Fyrirlestur: Sveinn Yngvi Egilsson: Fagurfræði íssins: Jöklar og háleit orðræða.

16:10   Fyrirlestur Jón Yngvi Jóhannsson: Umhverfis jökla með Bjarti og Bensa. Dvöl og barátta í Aðventu og Sjálfstæðu fólki.

17:30   Hlé.

19:00   Kvöldverður í Pakkhúsinu.

Sunnudagur 30. apríl

HOFFELL

10:00   Fyrirlestur: Soffía Auður Birgisdóttir: Fegurð og vábrestir í jökulheimum: Af jöklum í íslenskum bókmenntum.

10:40   Fyrirlestur: Þorvarður Árnason: Með jökulinn í blóðinu – lifun og sjónarvottun klakabrennunnar.

11:20   Gönguferð um Hoffellsjöklulssvæðið undir leiðsögn Þorvarðar og Þrúðmars í Hoffelli.

12:00   Hádegisverður í Hoffelli.

13:00   Lokafyrirlestur og upplestur: Ófeigur Sigurðsson: Táknsæi jökla.

13:40   Samantekt og ráðstefnulok.

Ráðstefnan er öllum opin og engin ráðstefnugjöld eru innheimt. Gestir sjá sjálfir um að útvega sér gistingu og geta fengið málsverði á tilboðsverði ráðstefnudagana. Allir upplýsingar um slíkt verða í ráðstefnugögnum sem gestir fá við komu. Nánari upplýsingar hjá Soffíu Auði Birgisdóttur, s. 4708042, gsm. 8482003
 

Fjölmennur ársfundur í Reykjavík

Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands var haldinn í Reykjavík 30. mars sl. Fjöldi erinda var fluttur að viðstöddu fjölmenni. 

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, setti fundinn. Að því loknu voru flutt fróðleg erindi um viðfangsefni sem tengjast rannsóknum sem unnar eru við eða í tengslum við setrin. Fyrstu fjögur erindin tengdust ýmsum hliðum ferðaþjónustu:

Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor í ferðamálafræði við HÍ, fjallaði um samspili ferðaþjónustu og virkjana; Gyða Þórhallsdóttir, doktorsnemi í ferðamálafræði við HÍ, sagði frá greiningu á fjölda ferðamanna og hvert þeir leggja leið sína; Lilja B. Rögnvaldsdóttir, verkefnisstjóri við Rannsóknasetur HÍ á Húsavík, sagði frá könnun á væntingum ferðamanna til valinna áfangastaða og loks fjallaði Eyrún Jenný Bjarnadóttir hjá Rannsóknamiðstöð ferðamála um samfélagsleg áhrif ferðaþjónustu.

Allt eru þetta viðfangsefni sem tengjast umræðu um stöðu ferðaþjónustunnar og þróun hennar,  niðurstöðurnar eru fróðlegar fyrir alla sem áhuga hafa á málefninu auk þess sem rannsóknirnar gefa mikilsverðar upplýsingar sem geta komið að góðum notum við stefnumótun í greininni.

Eftir hlé var m.a. sagt frá rannsóknum á sviði bókmenntafræði og fornleifafræði. Soffía Auður Birgisdóttir, bókmenntafræðingur við rannsóknasetur HÍ á Hornafirði, velti fyrir sér hvað fræðimaður gerir sem rekist hefur á spennandi rannsóknarefni þar sem heimildir eru af skornum skammti. Erindið tengist rannsókn á heimildum um Guðrúnu Sveinbjarnardóttur Egilssonar (f.1831) sem „varð fyrir því óláni“ að kynferði hennar var rangt skilgreint við fæðingu og „hlaut hún að búa við það alla ævi“ eins og segir í einni heimildinni.

Ragnar Edvardsson, fornleifafræðingur við rannsóknasetur HÍ á Vestfjörðum, sagði síðan frá rannsóknum sínum á minjastöðum sem tengjast hvalveiðum Dana, Hollendinga, Norðmanna og fleiri þjóða við Ísland á 19. öld. Í fyrirlestrinum verður fjallað um rannsókninar á hvalveiðistöðvunun og greint frá vel heppnuðu samspili fræðilegra rannsókna, nýtingaráætlunar og ferðamennsku.

Að lokum flutti Sigurður Sigursveinsson, framkvæmdastjóri Háskólafélags Suðurlands, erindi sem hann nefndi Þekkingin og byggðirnar. .

Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands starfrækir rannsóknasetur á Hornafirði, Suðurlandi, Suðurnesjum, Snæfellsnesi, Vestfjörðum, Ströndum, Norðurlandi vestra og Norðausturlandi. Þá vinnur akademískur starfsmaður að rannsóknum á vegum stofnunarinnar á Austurlandi.

Á vegum rannsóknasetranna eru stundaðar fjölbreyttar rannsóknir. Meðal viðfangsefna eru lífríki hafsins, umhverfi og landnýting, hvalir, fiskar og fuglar, auðlindir, ferðamál, bókmenntir, sagnfræði, fornleifafræði og þjóðfræði. Allt eru þetta rannsóknasvið sem mikill áhugi er á um allt land og gefa tilefni til samstarfs milli setranna við Háskóla Íslands í Reykjavík, sem og aðrar rannsóknastofnanir hérlendis og erlendis. Nánari upplýsingar um starfsemi rannsóknasetra Háskóla Íslands má finna í ársskýrslu stofnunarinnar. 

Myndir á ársfundinum tók Kristinn Ingvarsson ljósmyndari.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, setti ársfundinnFjölmennt var á fundinumFjölmenni sótti fundinnFjölmenni sótti fundinnJörundur Svavarsson, prófessor og formaður ráðgefandi nefndar Stofnunar rannsóknsetra HÍ, var fundarstjóri. Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor í ferðamálfræði, flutti erindið: Ferðaþjónusta og virkjanir sem gerendur í byggðaþróun.Anna Dóra svarar spurningum úr sal. Gestir ársfundarinsGestir ársfundarins hlustuðu granntFjölmennt var á ársfundinum,Fjölmennt var. Gyða Þórhallsdóttir doktorsnemi flutti erindið: Ferðamenn – Hvert fara þeir?Lilja B. Rögnvaldsdóttir, verkefnisstjóri við Rannsóknasetur HÍ á Húsavík, flutti erindið: Hver var þetta og hvað vildi hann? Erlendir ferðamenn á Húsavík, Siglufirði, Höfn og í Mývatnssveit sumarið 2015.

Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra 30. mars 2017 í Þjóðminjasafni Íslands

Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands verður haldinn í sal Þjóðminjasafns Íslands fimmtudaginn 30. mars 2017.  Ársfundurinn hefst kl. 13.30 og dagskrá lýkur kl. 16.  Fundurinn er opinn öllum en gestir eru beðnir að skrá sig hér.

Dagskrá:

13.30 Setning ársfundar.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

13.45 Ferðaþjónusta og virkjanir sem gerendur í byggðaþróun.

Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor í ferðamálafræði við Háskóla Íslands.

14.00 Ferðamenn – Hvert fara þeir?

Gyða Þórhallsdóttir, doktorsnemi Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.

14.15 Hver var þetta og hvað vildi hann? Erlendir ferðamenn á Húsavík, Siglufirði, Höfn og í Mývatnssveit sumarið 2015

Lilja B. Rögnvaldsdóttir, verkefnisstjóri við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík. 

14.30 „Maður getur átt von á öllu mögulegu“. Um áhrif ferðaþjónustu í einstökum samfélögum.

Eyrún Jenný Bjarnadóttir, Rannsóknamiðstöð ferðamála.

14.45 Kaffi

15:15 Heimildarýni, speglanir og spuni. Hvað getur fræðimaður leyft sér?

Soffía Auður Birgisdóttir, sérfræðingur við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði.

15.30 Frá fornleifafræðilegum rannsóknum að hagnýtri stýringu og ferðaþjónustu: dæmi af hvalveiðistöðvum.

Ragnar Edvardsson, sérfræðingur við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum.

15.45 Þekkingin og byggðirnar

Sigurður Sigursveinsson, framkvæmdastjóri Háskólafélags Suðurlands.

16.00 Samantekt.

Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands.

Fundarstjóri: Jörundur Svavarsson, prófessor og formaður ráðgefandi nefndar Stofnunar rannsóknasetra HÍ.

 

Gestir eru vinsamlega beðnir að skrá sig á sérstöku eyðublaði. Skráningu lýkur 28. mars nk.

Erlendir ferðamenn á Húsavík, Siglufirði, Höfn og í Mývatnssveit sumarið 2015

Niðurstöður fjögurra skýrslna um erlenda ferðamenn á Húsavík, Siglufirði, Höfn í Hornafirði og í Mývatnssveit sýna að dvalarlengd gesta og útgjöld þeirra voru misjöfn eftir áfangastöðum sumarið 2015. Margt var þó líkt með gestum þessara staða, s.s. búsetuland þeirra, val á tegund gistingar, ferðafélagar og uppruni upplýsinga.

Skýrslurnar komu nýverið út hjá Rannsóknamiðstöð ferðamála, en verkefnið var samstarfsverkefni RMF, Rannsóknaseturs HÍ á Húsavík, Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri og Þekkingarnets Þingeyinga. Höfundur og umsjónaraðili verkefnisins var Lilja Berglind Rögnvaldsdóttir.

Í skýrslunum eru birtar niðurstöður ferðavenjukannana sem framkvæmdar voru á þessum stöðum sumarið 2015. Meðal þess sem kannað var í verkefninu var neysluhegðun og útgjaldamynstur erlendra gesta á hverjum stað auk þess sem svæðisbundið umfang ferðaþjónustunnar var áætlað út frá niðurstöðunum. Skýrslurnar má finna á vef Rannsóknamiðstöðvar ferðamála: (http://www.rmf.is/is/um-rmf/frettir/erlendir-gestir-nidurstodur-ferdavenjukonnunar).

Þórður Örn Kristjánsson í viðtali við Döffblaðið

Þórður Örn Kristjánsson sem í haust lauk doktorsritgerð sinni frá Háskóla Íslands er í viðtali í Döffblaðinu, tímariti Félags heyrnarlausra. Slóð á blaðið má finna hér.

Ritgerð Þórðar bar heitið: Varpvistfræði æðarfugls (Somateria mollissima) við Breiðafjörð (Breeding ecology of the Common Eider (Somateria mollissima) in Breiðafjörður, West Iceland). Vann Þórður Örn rannsókna sína á vettvangi Rannsóknaseturs Háskóla Íslands í Snæfellsnesi en aðalleiðbeinandi hans var dr. Jón Einar Jónsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Snæfellsnesi.

Markmið doktorsverkefnisins miðaði að bættum skilningi á varpvistfræði æðarfugla í Breiðafirði. Varphegðun kollna í þéttu varpi í Rifi (1,7 hreiður/m2) var skoðuð til að greina  hvort æðarkollur aðstoði hverja aðra við álegu og sinni því fleiri en einu hreiðri á álegutíma. Metið var hvort dúntekja hefði áhrif á orkubúskap álegufuglanna með því að athuga mun á léttingu álegukollna á dúnhreiðrum og á heyhreiðrum. Samtímis var rannsakað hvort kollur sem lágu á stórum urptum (≥7 egg) eyddu meiri orku en kollur með venjulega urptarstærð (≤6 egg). Ytri sníkjudýrum var safnað úr æðarhreiðrum og fjöldi dúnflóa (Cerotophyllus garei) borinn saman á milli æðarvarpa við Rif og í Hvallátrum. Að lokum var athugað hvort fæða fuglanna á varptíma (maí-júlí) væri breytileg yfir tíma og á milli kynja.

Í ofurþéttu varpi í Rifi staðfesti atferli litmerktra kollna að þær sinna hreiðrum hver annarrar auk sinna eigin. Ástæðan er sennilega sú að kollurnar ruglast vegna hins óeðlilega mikla þéttleika, sterk sjónræn örvun vegna fjölda óvarinna hreiðra nálægt þeirra eigin ýtir svo undir þessa hegðun. Einnig gætu kollurnar átt egg í fleiri en einni urpt í varpinu. Hár fjöldi flóa í þétta varpinu gæti verið ein ástæða þess að kollurnar fara oftar af hreiðri til að snyrta sig en hafa þá staðgöngukollur til að annast hreiðrin á meðan. Æðarkollur í strjálu æðarvarpi í Hvallátrum geta hins vegar skipt um hreiður milli ára ef mikið er um flær en ekki hefur orðið vart sömu áleguhegðunar og á Rifi. Fæðurannsóknin leiddi í ljós að aðalfæða fuglanna að vor/sumarlagi (maí-júlí) reyndist vera flekkunökkvi (Toncella marmorea), sem hefur ekki verið talinn mikilvæg fæða æðarfugla.

Niðurstöður verkefnisins sýna að dúntekja og urptarstærð (2-9 egg) hafa lítil áhrif á afkomu æðarkollna á Íslandi, í það minnsta í venjulegu tíðarfari. Kollur sem hafa byggt upp góðan fituforða fyrir áleguna geta þannig tekist á við bæði dúntekju og aukaegg í urptina án þess að það komi niður á líkamsástandi þeirra eða varpárangri. Dúntekja á Íslandi getur því talist vistvæn hvað kollurnar sjálfar varðar, þar sem áhrif hennar á álegufugla eru óveruleg.

 

Hvatningarverðlaun ferðaþjónustunnar veitt Rannsóknasetri HÍ á Suðurnesjum og Vitanum

Á dögunum fengu Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum og veitingahúsið Vitinn Hvatningaverðlaun ferðaþjónustunnar á Suðurnesjum 2017. Verðlaunin voru veitt fyrir farsælt samstarf undanfarin ár varðandi grjótkrabba. Þar hafa fléttast saman annars vegar rannsóknir af hálfu arnnsóknasetursins á grjótkrabba og landnámi hans hér við land og hins vegar þróun á hagnýtingu krabbans á Vitanum þar sem krabbaveislur hafa notið mikilla vinsælda innlendra sem erlendra gesta.

Nánar má lesa um afhendingu verðlaunanna hér

Pages

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is