Hólmavík

Auglýst eftir verkefnisstjóra við Rannsóknasetur HÍ á Snæfellsnesi

Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands auglýsir laust til umsóknar starf verkefnisstjóra við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi, sem staðsett er í Stykkishólmi.
 
Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi sinnir rannsóknum á sjófuglum á Breiðafirði, einkum æðarfugli. Rannsóknasetrið hefur aðsetur í Ráðhúsi Stykkishólms. Verkefnisstjórinn mun hafa umsjón með langtímarannsóknum setursins á fuglastofnum. Í því felst m.a. fjölbreytt gagnaöflun á vettvangi, umsjón gagnagrunna, úrvinnsla og kynning á niðurstöðum í ræðu og riti. Verkefnisstjórinn mun einnig koma að öðrum verkefnum rannsóknasetursins og taka þátt í greinaskrifum og styrkumsóknum. Þá verður verkefnisstjórinn þátttakandi í sérhæfðu rannsóknateymi ásamt forstöðumanni og samstarfsmönnum.
 
Innan Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands eru níu sjálfstæð rannsóknasetur víða um land. Markmið stofnunarinnar er m.a. að skapa aðstöðu til rannsókna á landsbyggðinni og vera vettvangur samstarfsverkefna háskólans við sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga á landsbyggðinni.
 
Hæfniskröfur:
 • Háskólapróf í líffræði eða vistfræði, meistarapróf er kostur.
 • Reynsla í öflun vistfræðilegra gagna og umsjón gagnasafna.
 • Frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum, lipurð í mannlegum samskiptum.
 • Gott vald á ensku og íslensku.
 • Góður grunnur í tölfræði er æskilegur.
 • Reynsla af stofnrannsóknum á fuglum, fuglamerkingum eða annarri rannsóknavinnu utan dyra er æskileg.
 • Reynsla af alþjóðasamstarfi, af þverfræðilegu samstarfi og sókn í rannsóknasjóði er kostur.
Verkefnisstjórinn verður starfsmaður Háskóla Íslands en hefur starfsaðstöðu við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi. Búseta á svæðinu er skilyrði. Um fullt starf er að ræða.
 

Umsóknarferli

Umsóknarfrestur er til 27. ágúst 2018.
Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.
Sótt er um starfið á vefsíðu Háskóla Íslands undir laus störf.
 
Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin. Umsóknir geta gilt í sex mánuði frá lokum umsóknafrests.
 
Laun eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og Félags háskólakennara.
 
Allar nánari upplýsingar um starfið veitir Jón Einar Jónsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Snæfellsnesi í síma 8472436 og joneinar@hi.is.
 
Við ráðningu í störf í Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans.
 
Vakin er athygli á málstefnu Háskóla Íslands.

Fjörugt sumar á Hólmavík

Það er búið að vera heilmikið um að vera hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu í sumar, einkum í skemmtilegum samstarfsverkefnum í héraðinu. Styrkur fékkst frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að ráða Agnesi Jónsdóttir þjóðfræðinema og Guðrúnu Gígju Jónsdóttur MA-nema í hagnýtri menningarmiðlun til að vinna að verkefni sem heitir Hólmavík - íbúabyggð og ferðamannastaður. Það snýst um hugmyndavinnu og greiningu á sérstöðu þorpsins og í framhaldinu umbætur á útivistarsvæðum og almannarýmum í þorpinu, bæði íbúum og ferðafólki til hagsbóta. Haldinn hefur verið íbúafundur um verkefnið á Hólmavík og heilmiklu efni safnað um skoðanir heimamanna. Verkefnið er unnið í samstarfi við sveitarfélagið Strandabyggð sem fékk stuðning frá Styrktarsjóði EBÍ til vinnunar. Einnig er stefnt að samstarfi við Sóknaráætlun Vestfjarða um að gera uppskrift að aðferðinni svo hægt verði að ráðast í sambærilegt vinnuferli í öðrum minni þorpum í fjórðungnum. 

Strandir í verki er verkefni sem Leikfélag Hólmavíkur er á bak við og snýst um skapandi sumarstörf fyrir unglinga á framhaldsskólaaldri. Það er unnið í samvinnu við Rannsóknasetur HÍ á Ströndum, Sauðfjársetur á Ströndum og sveitarfélagið Strandabyggð. Þrjú ungmenni sóttu um þátttöku og hafa í sumar starfað að margvíslegum skapandi verkefnum sem tengjast að nokkru leyti svæðinu, þjóðsagnaarfi og sögu þess. Rakel Ýr Stefánsdóttir leiklistarnemi hefur verið listrænn stjórnandi þessa verkefnis. Stúlkurnar sem taka þátt hafa m.a. unnið að skapandi skrifum og sett upp frumsaminn leikþátt Of(s)ein, sem er gamandrama um sambönd og samskipti í nútímanum. Þær hafa einnig sýnt þjóðsagna- og galdratengt leikrit á bæjarhátíðum á Hólmavík og Reykhólum og Náttúrubarnahátíð á Ströndum, auk þess að bregða sér í hlutverk Strandanorna sem rýna í fortíð, samtíma og framtíð fólks. Skemmtikvöld, Open Mic, hefur einnig verið haldið á veitingastaðnum Café Riis. Verkefnið fékk stuðning frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða 2018. 

Náttúrubarnaskólinn hefur verið í fullum gangi á Sauðfjársetrinu í Sævangi í sumar, en hann er í góðu samstarfi við Rannsóknasetur HÍ á Ströndum. Hann hefur starfað í 4 sumur og var nýsköpunarsjóðsverkefni sem Jón Jónsson þjóðfræðingur hafði umsjón með árin 2016 og 2017. Heilmikil Náttúrubarnahátíð var haldin um miðjan júlí og var þar mikið um dýrðir. Dagrún Ósk Jónsdóttir sem lauk í vor meistaraprófi í þjóðfræði hefur umsjón með Náttúrubarnaskólanum. Hún fékk í sumar Lóuna - menningarverðlaun Strandabyggðar fyrir verkefnið. Síðan því var komið á laggirnar hefur það fengið góðan stuðning úr Safnasjóði og Uppbyggingasjóði Vestfjarða, Nýsköpunarsjóði námsmanna og fleiri aðilum. 

Tvær ráðstefnur verða haldnar í ágúst sem Rannsóknasetur HÍ á Ströndum tekur þátt í. Annars vegar er það Vestfirski fornminjadagurinn sem haldinn verður á vegum Áhugafólks um fornleifar á Vestfjörðum á Suðureyri við Súgandafjörð þann 8. ágúst. Jón Jónsson þjóðfræðingur hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum heldur þar erindið: Álagablettir, þjóðtrú og saga. Það er semsagt óáþreifanlegi menningararfurinn sem er í forgrunni hjá Jóni, en einnig talar fjöldi fornleifafræðinga á málþinginu. Annað málþing sem er framundan þann 18. ágúst í Hveravík á Ströndum hefur yfirskriftina Landnámsbær fundinn á Selströnd - málþing um minjar og menningu Stranda. Þar heldur Jón Jónsson erindi sem ber yfirskriftina Að virkja hugvitið, sögur og sagnir. Það er Bergsveinn Birgisson fræðimaður og rithöfundur sem er á bak við þetta verkefni með stuðningi frá Uppbyggingasjóði Vestfjarða og í samvinnu við fjölda aðila í héraðinu, einnig Fornleifastofnun Íslands og Háskólann í Bergen. Ráðstefnan er hluti af Menningararfsári Evrópu.

Í sumar hefur Rannsóknasetrið einnig tekið þátt í svokölluðu Sögurölti um Dali og Strandir. Það er verkefni sem söfnin á Ströndum og Dölum, Byggðasafn og Héraðsskjalasafn Dalamanna og Sauðfjársetur á Ströndum hafa staðið fyrir, ásamt Náttúrubarnaskólanum. Þessi sögurölt hafa verið mjög vinsæl, en um er að ræða rúmlega klukkustundar gönguferð þar sem meiri áhersla er lögð á fróðleik, sögur og sagnir, en gönguna sjálfa. Jón Jónsson verkefnastjóri hjá Rannsóknasetrinu hefur verið sögumaður í þremur af þessum söguröltum í sumar, Tröllaskoðunarferð í Kollafirði, Dagbókargöngu að Naustavík við Steingrímsfjörð og Þjóðsagna- og sögugöngu í Tröllatungu. Framundan er fornleifarölt í Sandvík á Selströnd þann 17. ágúst þar sem í gagni er rannsókn og þrjár göngur hafa einnig farið fram í Dölum, að fornleifauppgreftri í Ólafsdal við Gilsfjörð þar sem Birna Lárusdóttir fornleifafræðingur var sögumaður og göngur á Tungustapa og í Kumbaravog þar sem Valdís Einarsdóttir safnstjóri var sögumaður. Verkefnið er hluti af Menningararfsári Evrópu. 

Í sumar hafa verið endurfluttir á Rás 1 sex útvarpsþættir um förufólk og flakkara sem Jón Jónsson og Rósa Þorsteinsdóttir þjóðfræðingur hjá Stofnun Árna Magnússonar gerðu árið 2000. Þetta er í þriðja sinn sem þeir eru fluttir í útvarpi. Fljótlega fer bókin Á mörkum mennskunnar. Viðhorf til förufólks í sögnum og samfélagi eftir Jón Jónsson síðan í dreifingu, en þar er fjallað um sama efni: Förufólk á Íslandi, sagnir og samfélag fyrri alda. Háskólaútgáfan gefur hana út í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar

Auglýst eftir verkefnisstjóra við Rannsóknasetur HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu

Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands auglýsir laust til umsóknar starf verkefnisstjóra við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofu, sem staðsett er á Hólmavík.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofa sinnir rannsóknum í þjóðfræði með sérstakri áherslu á hagnýtar rannsóknir á sviði þjóðfræði og hagnýtingu þjóðfræðilegrar þekkingar. Rannsóknasetrið hefur aðsetur í Þróunarsetrinu á Hólmavík. Auk sjálfstæðra rannsókna mun verkefnisstjórinn hafa umsjón með daglegri starfsemi setursins. Hann skipuleggur rannsóknir, samstarfsverkefni og sjóðasókn. Einnig er gert ráð fyrir að verkefnastjórinn sinni kennslu og leiðbeiningu nemenda á háskólastigi.

Innan Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands eru níu sjálfstæð rannsóknasetur víða um land. Markmið stofnunarinnar er m.a. að skapa aðstöðu til rannsókna á landsbyggðinni og vera vettvangur samstarfsverkefna háskólans við sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga á landsbyggðinni.

Hæfniskröfur:

 • Meistarapróf í þjóðfræði.
 • Reynsla af rannsóknastarfi og hagnýtingu þjóðfræðilegrar þekkingar.
 • Reynsla af háskólakennslu og leiðbeiningu háskólanema er æskileg.
 • Frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum, lipurð í mannlegum samskiptum.
 • Gott vald á ensku og íslensku.
 • Reynsla af rekstri og verkefnastjórnun.
 • Reynsla af alþjóðasamstarfi, af þverfræðilegu samstarfi og sókn í rannsóknasjóði er kostur.

Verkefnisstjórinn verður starfsmaður Háskóla Íslands en hefur starfsaðstöðu við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofu. Búseta á svæðinu er skilyrði. Um fullt starf er að ræða.

Umsóknarferli

Umsóknarfrestur er til 7. ágúst 2018.

Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.

Sótt er um starfið á vefsíðu Háskóla Íslands undir laus störf.

Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin. Umsóknir geta gilt í sex mánuði frá lokum umsóknafrests.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og Félags háskólakennara.

Allar nánari upplýsingar um starfið veitir Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands í síma 892 8835 og saeunnst@hi.is.

Við ráðningu í störf í Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans.

Vakin er athygli á málstefnu Háskóla Íslands.

Hólmavík - íbúabyggð og ferðamannastaður

Sumarið 2018 er unnið að hugmyndavinnu og skýrslugerð í verkefninu Hólmavík - íbúabyggð og ferðamannastaður, en vinna að því hófst á síðasta ári. Verkefnið er unnið á vegum Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu í samvinnu við sveitarfélagið Strandabyggð og framundan er einnig samvinna við Vestfjarðastofu innan vébanda Sóknaráætlunar Vestfjarða. 

Þrír starfsmenn Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu vinna að verkefninu í sumar, Jón Jónsson þjóðfræðingur og verkefnastjóri hjá setrinu, Guðrún Gígja Jónsdóttir MA-nemi í hagnýtri menningarmiðlun og Agnes Jónsdóttir þjóðfræðinemi. Þær tvær síðastnefndu eru ráðnar sérstaklega til Rannsóknasetursins til að vinna að verkefninu fram á haust, að hluta til með stuðningi Nýsköpunarsjóðs námsmanna. 

Í haust eiga að liggja fyrir útfærðar tillögur um margvíslegar umbætur á almannarýminu utanhúss á Hólmavík og miðlun sögu og fróðleiks um þorpið á áningarstöðum í því. Hugmyndavinnunni er ætlað að koma bæði Strandamönnum og ferðafólki til góða, auka lífsgæði íbúa og möguleika þeirra á að njóta útivistar. 

Fimmtudaginn 21. júní er haldin spjallfundur um verkefnið á Hólmavík sem allir eru velkomnir á. Þar verður rætt um hugmyndir sem fram hafa komið í tengslum við vinnuna og verkefnið kynnt fyrir þeim sem áhuga hafa. Í framhaldinu verður síðan leitað frekar til íbúa um tillögur og hugmyndir.

Húmorsþing á Hólmavík

Laugardaginn 14. apríl verður haldið stórmagnað húmorsþing á Hólmavík. Þar verður blandað saman fyrirlestrum, fróðleik og fjöri og öll sem áhuga hafa hjartanlega velkomin. Um daginn verða málstofur og þjóðfræðilegir fyrirlestrar um húmor, móttaka í Rannsóknasetri HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu, stórmagnað kvöldverðar hlaðborð á Café Riis og síðan skemmtun um kvöldið, PubQuiz með gamansömu húmorsívafi, tónlistaratriði og uppistand. Á eftir verður dansað smávegis. Það er því um að gera að taka daginn frá og stefnuna norður á Strandir. 

 

 

 

 

Dagskrá Húmorsþingsins:

16:30 - Fróðleikur og húmorsfræði - staðsetning: Pakkhús, Café Riis

Kristinn Schram: Húmorfræði á fimm mínútum

Kristín Einarsdóttir: Það er ekkert öruggt að hann smæli

Agnes Jónsdóttir: "Hvað er svona fyndið?" Uppistand sem einhliða samtal
Jón Jónsson: Skemmtikraftar eða aðhlátursefni: Framkoma við förufólk í gamla sveitasamfélaginu
Eiríkur Valdimarsson: Kynlíf og gamla bændasamfélagið - er eitthvað fyndið við það?

18:00 Mótttaka á Rannsóknarsetri HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofa, Hnyðja í Þróunarsetrinu á Hólmavík

19:00 Hlaðborð á Café Riis
Glæsilegt hlaðborð á Café Riis, verð 3000 kr. Best er að panta í hlaðborðið í síma: 451-3567

20:30 Skemmtidagskrá á Riis

Pub Quiz um gleði og gamanmál
Villi Vandræðaskáld skemmtir mannskapnum
Pétur Húni: Pseudo - þjóðfræðilegt laumuhúmorískt atriði
Rachel Schollaert með uppistand
Alice Bower fyndnasti háskólaneminn: Tröllið tjáir sig

Dans, gleði og gaman fram eftir nóttu!

Samstarfsaðilar um Húmorsþing á Hólmavík 2018 eru Þjóðfræði við Háskóla ÍslandsRannsóknasetur HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofa, Fjölmóður - fróðskaparfélag á Ströndum, Félag þjóðfræðinga á Íslandi og Þjóðbrók, félag þjóðfræðinema.

Auglýst er eftir forstöðumanni Rannsóknaseturs HÍ á Austurlandi

Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands auglýsir til umsóknar starf forstöðumanns Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Austurlandi, sem jafnframt er starf sérfræðings.

Stofnun Rannsóknasetra Háskóla Íslands hyggst koma að nýju á fót Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Austurlandi sem starfaði þar á árunum 2008 til 2010. Frá haustinu 2014 hefur akademískur sérfræðingur á vegum stofnunarinnar haft aðsetur og unnið sínar rannsóknir á Austurlandi.

Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Austurlandi er ætlað að sinna rannsóknum á breiðu sviði með áherslu á tengsl manns og náttúru. Auk sjálfstæðra akademískra rannsókna hefur forstöðumaður umsjón með starfsemi setursins, fjármálum þess og daglegum rekstri. Hann skipuleggur rannsóknir og samstarfsverkefni, hefur með höndum áætlanagerð og stýrir sókn í sjóði. Hann þarf að geta tekið að sér leiðbeiningu háskólanema í framhaldsnámi og aðra kennslu á háskólastigi.

Innan Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands eru 9 sjálfstæð rannsóknasetur víða um land. Rannsóknir eru meginviðfangsefni rannsóknasetranna, og eru viðfangsefnin fjölbreytt og tengjast nærumhverfi setranna með einhverjum hætti. Lögð er rík áhersla á árangur í starfi, áhrif og gæði rannsókna og hagnýtingu rannsóknaniðurstaðna. Þá er stofnunin jafnframt vettvangur samstarfsverkefna háskólans við sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga á landsbyggðinni.

Umsækjendur skulu hafa lokið doktorsprófi á sviði umhverfisfræða, t.d. í umhverfissagnfræði eða skyldum greinum og hafa stundað sjálfstæðar rannsóknir á því sviði. Frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum, lipurð í mannlegum samskiptum, gott vald á ensku og íslensku er nauðsyn. Reynsla af alþjóðasamstarfi sem og reynsla af þverfræðilegu samstarfi er æskileg. Þá er reynsla af sókn í innlenda sem erlenda rannsóknasjóði kostur. Umsækjendur skulu leggja fram rannsóknaáætlun til fimm ára þar sem skal koma fram hvernig rannsóknir umsækjanda tengjast Austurlandi.

Forstöðumaðurinn verður starfsmaður Háskóla Íslands en hefur starfsaðstöðu við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Austurlandi. Starfsstöð setursins er á Egilsstöðum og er gert ráð fyrir að forstöðumaðurinn gegni starfi sínu þaðan. Búseta á svæðinu er skilyrði. Um fullt starf er að ræða og verður ráðið í starfið til fimm ára með möguleika á ótímabundinni ráðningu að þeim tíma liðnum, sbr. 3. mgr. 31. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.

Um meðferð umsókna, mat á hæfi umsækjenda og ráðningu í starfið er farið eftir ákvæðum laga um Háskóla nr. 85/2008 og reglna um Háskóla Íslands nr. 569/2009. Sérstök nefnd sem rektor skipar annast mat og forgangsröðun umsókna.

Umsóknarfrestur er til 30. apríl 2018.

Sótt er um starfið á vefsíðu Háskóla Íslands undir laus störf.

Umsækjendur skulu láta rannsóknaáætlun til fimm ára fylgja umsókn sinni, vottorð um námsferil sinn og störf, ritaskrá, skýrslu um vísindastörf og önnur störf sem þeir hafa unnið. Í umsókn skal koma fram hver ritverka sinna, allt að átta talsins, umsækjandi telur veigamest með tilliti til þess starfs sem um ræðir. Umsækjandi sendir eingöngu þessi ritverk sín með umsókn, eða vísar til þess hvar þau eru aðgengileg á rafrænu formi. Þegar fleiri en einn höfundur stendur að innsendu ritverki skulu umsækjendur gera grein fyrir framlagi sínu til verksins. Enn fremur er ætlast til þess að umsækjendur láti fylgja með umsagnir um kennslu- og stjórnunarstörf sín, eftir því sem við á. Umsókn og umsóknargögn sem ekki er skilað rafrænt skal skila í tvíriti til Vísinda- og nýsköpunarsviðs Háskóla Íslands, Sæmundargötu 2, 101 Reykjavík.

Allar nánari upplýsingar um starfið veitir Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar Rannsóknasetra Háskóla Íslands í síma 525 4041, saeunnst@hi.is .

Öllum umsækjendum verður svarað og þeim tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun liggur fyrir. Umsóknir geta gilt í sex mánuði frá lokum umsóknarfrests.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og Félags háskólakennara.

Við ráðningu í störf við Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun Háskóla Íslands.

Vakin er athygli á málstefnu Háskóla Íslands.

Tímarit Háskóla Íslands 2018 er komið út

Tímarit Háskóla Íslands 2018 er komið út. Þar er að finna fjölbreyttar greinar um starfsemi háskólans um land allt. Í því má meðal annars vinna viðtal við Jón Jónsson, þjóðfræðing við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum - Þjóðfræðistofu, um fólk og birni á förum um landið. Þá er einnig rætt við Chörlu Basran, doktorsnema við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík, um rannsóknaverkefni hennar um hnúfubaka í veiðarfærum. Rannsókn á ferðavenjum og útgjöldum ferðamanna á völdum áfangastöðum um landið er umræðuefnið í viðtali við Lilju Rögnvaldsdóttur, verkefnisstjóra við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík. Þá er einnig fjallað um í Tímaritinu rannsókn Jukka Siltanen, meistaranema í umhverfis- og auðlindafræði, um efnahagslega leyndardóma Snæfellsjökuls. Þorvarður Árnason, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði, var einn leiðbeinenda Jukka í verkefninu. 

Í tímaritinu er svo einnig að finna viðtal við Birnu Gunnarsdóttur, verkefnisstjóra við Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands og á Nýsköpunar- og vísindasviði HÍ, um opin vísindi. 

Sjón er sögu ríkari. Tímaritið má finna hér. 

Þar sem rassinn hvílir: Þjóðfræði heimilisins

Þjóðfræðinemar við Háskóla Íslands í námskeiðinu Hagnýt þjóðfræði eru á Ströndum í námslotu í vikunni og ætla að halda málþing sem verður opið öllum sem áhuga hafa. Flutt verða sjö stutt og skemmtileg erindi og óhætt að segja að dagskráin sé bæði fjölbreytt og spennandi. Heimilið og heimilislíf frá þjóðfræðilegu sjónarhorni er þemað, en daglegt líf í samtíma og fortíð er sígilt umfjöllunar- og rannsóknarefni þjóðfræðinga.

Málþingið verður haldið á Restaurant Galdri á Galdrasýningunni á Hólmavík og stendur frá kl. 18-20 miðvikudaginn 28. febrúar. Hægt verður að kaupa veitingar á meðan. Rannsóknasetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofa, Strandagaldur, Þjóðfræði við Háskóla Íslands og Fjölmóður – fróðskaparfélag á Ströndum standa saman að viðburðinum. 

Eftirfarandi fyrirlestrar verða fluttir:

Agnes Jónsdóttir: „Hér er ró og hér er friður …“

Baðherbergið hefur verið mikilvægt rými innan veggja hins íslenska heimilis frá því að tími torfbæjanna rann sitt skeið. Þar sinna menn og konur frumþörfum sínum, en það er ekki það eina sem þau gera þar – hvað er það sem á sér stað innan þessara veggja og hvers vegna það svona mikið einkamál?

Dagný Davíðsdóttir: Ég var að hugs’um að far’úr buxum.

Vinsældir kósíkvölda hafa gjarnan dýpri tilgangi en einungis að seðja hungur í sælgæti og góða ræmu. Margir halda þau reglulega með ákveðnum siðum og venjum sem alltaf er farið eftir. Viðburðurinn á sér einnig tímaramma og staðsetningu ásamt nokkrum lykilhlutum sem gera þau að því sem þau eru. Fyrir mörgum er þetta mikilvægasti tími vikunnar.

Gunnar Óli Dagmararson: Þetta er herbergið mitt. Um einkarými heimilisins, tómstundir og iðju.

Í fyrirlestri mínum ætla ég að velta fyrir mér gildi þess að eiga sér einkarými og miða það við kenningar fræðimanna í þjóðfræði um heimilið, rými og hópa. Ég mun taka dæmi úr eigin lífi og koma af stað umræðu með gestum málþingsins um einkarými heimilisins.

Guðrún Gígja Jónsdóttir: Hver á að elda í kvöld?

Matarmenning er stór hluti að lífi okkar, en án matar væri lítið um líf. Eldhúsið er staðurinn þar sem galdrarnir fara fram og er það mismunandi eftir því hver eldar og fyrir hvern og af hvaða tilefni! Matur og viðburðir eru mjög tengdir líkt og matarboð þar sem oftast er boðið vinum og vandamönnum í mat inn á heimilinu.

Sigrún Sigvaldadóttir: Bækur á heimilum landsmanna

Íslenska þjóðin hefur ávallt verið talin mikil bókaþjóð. Bækur hafa verið stolt eigenda sinna og prýtt heimili þeirra í gegnum aldirnar. Það verður því áhugavert að skoða aðeins hverskonar bækur hafa verið til á heimilum og hvernig þær hafa oft á tíðum gagnast á margskonar hátt.

Dagrún Ósk Jónsdóttir: „Í herberginu hennar var opin gátt til helvítis“

Það er oft talað um að það sé reimt í húsum, við fáum einhverja ákveðna tilfinningu þegar við löbbum inn í þau, þeim fylgja allskonar minningar og sögur, sannar eða ekki, og allskonar draugar fortíðarinnar. Suma gesti viljum við alls ekki hafa heima hjá okkur og getur verið erfitt að losna við. Hvernig bregst maður við ósýnilegri innrás á heimilið sem á að vera okkar griðarstaður?

Alice Bower: „Í hömrum þessum var hellir hennar, þar fór hún inn með hann“: Um heimilis- og matarhætti trölla, huldufólks og dverga

Oft er sagt að fólk geri hús að heimili. En sköpun heimilis getur líka átt sér stað í þúfum, í hellum og í dvergasteinum. Þar búa þjóðsagnaverur sem elda, halda matarboð, sofa -ekki ósjaldan hjá mennskum mönnum- og skemmta sér um kvöldið með vín og vist og hljóðfæraslátt. Í erindinu verður lagt út af völdum dæmum úr íslenskum þjóðsagnasöfnum til að draga fram einkenni heimilishátta trölla, álfa og dverga. Einnig verður grafist fyrir um samband þessara lýsinga og viðhorfa sagnamanna til náttúrunnar.

Verið öll hjartanlega velkomin! Aðgangur að málþinginu er ókeypis.

Áramótakveðja Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands

Starfsfólk Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands þakkar samfylgdina á árinu sem er að líða og óskar samstarfsfólki sínu gleðilegs nýs árs.

Árið 2018 verður 18. starfsár stofnunarinnar og eins og áður margt spennandi framundan. Ársfundur stofnunarinnar verður t.a.m. haldinn í Bolungarvík, 11. apríl nk. Takið daginn frá!

Pages

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is