Hólmavík

Landsbyggðarráðstefna þjóðfræðinga í Borgarnesi

Laugardaginn 27. maí næstkomandi verður blásið til landsbyggðarráðstefnu í Borgarnesi á vegum Félags þjóðfræðinga á Íslandi í samstarfi við Safnahús Borgarfjarðar og Rannsóknarsetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu. Hér gefst tækifæri fyrir fræðafólk á fræðasviðum félags- og hugvísinda að leiða saman hesta sína, miðla af þekkingu sinni og koma rannsóknum og niðurstöðum á framfæri út fyrir fræðasamfélagið. Allir sem áhuga hafa eru velkomnir á ráðstefnuna. 

Skráning og upplýsingar um dagskrána má finna undir þessum tengli. Fyrsti viðburður er í Safnahúsi Borgarfjarðar í Borgarnesi, en málstofur verða í Óðali, máltíðir á Landsnámssetrinu og söguganga um bæinn er einnig hluti af dagskránni. Meðfylgjandi mynd er af sýningunni Börn í 100 ár og fengin af Facebook síðu Safnahússins, en sýningin verður einmitt skoðuð og kynnt.

Ráðstefnan hefur yfirskriftina Borgarfjarðarbrúin og þemað á henni eru hópar og hvernig byggja má brýr á milli þeirra. Á okkar tímum eru miklar hræringar í samfélögum út um allan heim, eins og löngum hefur verið. Hópar og hópvitund er grundvöllur samfélaga hvort sem er í samtímanum eða fortíðinni og jafnframt lykilhugtök í þjóðfræði. Hópar eru af ýmsum toga, fjölmennir og fámennir, og öll tilheyrum við mörgum ólíkum hópum. Hugtök eins og minnihlutahópar, jaðarhópar, elítuhópar eða innflytjendur heyrum við öll í daglegri umræðu. Yfirskrift ráðstefnunnar vísar til allra þessa ólíku hópa sem byggja samfélög í nútíð og fortíð og hvernig líf fólks mótast af því hvaða hópum það tilheyrir og ekki síður hvaða hópum það tilheyrir ekki. Spurningin er hvað rannsóknir á sviði félags- og hugvísinda geta lagt af mörkum til að byggja brýr á milli hópa, auka skilning á áhrif þeirra á samfélög og draga fram þá sammannlegu þræði sem liggja um öll samfélög í gegnum ólíkar hópamyndanir.

Fjölmennur ársfundur í Reykjavík

Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands var haldinn í Reykjavík 30. mars sl. Fjöldi erinda var fluttur að viðstöddu fjölmenni. 

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, setti fundinn. Að því loknu voru flutt fróðleg erindi um viðfangsefni sem tengjast rannsóknum sem unnar eru við eða í tengslum við setrin. Fyrstu fjögur erindin tengdust ýmsum hliðum ferðaþjónustu:

Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor í ferðamálafræði við HÍ, fjallaði um samspili ferðaþjónustu og virkjana; Gyða Þórhallsdóttir, doktorsnemi í ferðamálafræði við HÍ, sagði frá greiningu á fjölda ferðamanna og hvert þeir leggja leið sína; Lilja B. Rögnvaldsdóttir, verkefnisstjóri við Rannsóknasetur HÍ á Húsavík, sagði frá könnun á væntingum ferðamanna til valinna áfangastaða og loks fjallaði Eyrún Jenný Bjarnadóttir hjá Rannsóknamiðstöð ferðamála um samfélagsleg áhrif ferðaþjónustu.

Allt eru þetta viðfangsefni sem tengjast umræðu um stöðu ferðaþjónustunnar og þróun hennar,  niðurstöðurnar eru fróðlegar fyrir alla sem áhuga hafa á málefninu auk þess sem rannsóknirnar gefa mikilsverðar upplýsingar sem geta komið að góðum notum við stefnumótun í greininni.

Eftir hlé var m.a. sagt frá rannsóknum á sviði bókmenntafræði og fornleifafræði. Soffía Auður Birgisdóttir, bókmenntafræðingur við rannsóknasetur HÍ á Hornafirði, velti fyrir sér hvað fræðimaður gerir sem rekist hefur á spennandi rannsóknarefni þar sem heimildir eru af skornum skammti. Erindið tengist rannsókn á heimildum um Guðrúnu Sveinbjarnardóttur Egilssonar (f.1831) sem „varð fyrir því óláni“ að kynferði hennar var rangt skilgreint við fæðingu og „hlaut hún að búa við það alla ævi“ eins og segir í einni heimildinni.

Ragnar Edvardsson, fornleifafræðingur við rannsóknasetur HÍ á Vestfjörðum, sagði síðan frá rannsóknum sínum á minjastöðum sem tengjast hvalveiðum Dana, Hollendinga, Norðmanna og fleiri þjóða við Ísland á 19. öld. Í fyrirlestrinum verður fjallað um rannsókninar á hvalveiðistöðvunun og greint frá vel heppnuðu samspili fræðilegra rannsókna, nýtingaráætlunar og ferðamennsku.

Að lokum flutti Sigurður Sigursveinsson, framkvæmdastjóri Háskólafélags Suðurlands, erindi sem hann nefndi Þekkingin og byggðirnar. .

Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands starfrækir rannsóknasetur á Hornafirði, Suðurlandi, Suðurnesjum, Snæfellsnesi, Vestfjörðum, Ströndum, Norðurlandi vestra og Norðausturlandi. Þá vinnur akademískur starfsmaður að rannsóknum á vegum stofnunarinnar á Austurlandi.

Á vegum rannsóknasetranna eru stundaðar fjölbreyttar rannsóknir. Meðal viðfangsefna eru lífríki hafsins, umhverfi og landnýting, hvalir, fiskar og fuglar, auðlindir, ferðamál, bókmenntir, sagnfræði, fornleifafræði og þjóðfræði. Allt eru þetta rannsóknasvið sem mikill áhugi er á um allt land og gefa tilefni til samstarfs milli setranna við Háskóla Íslands í Reykjavík, sem og aðrar rannsóknastofnanir hérlendis og erlendis. Nánari upplýsingar um starfsemi rannsóknasetra Háskóla Íslands má finna í ársskýrslu stofnunarinnar. 

Myndir á ársfundinum tók Kristinn Ingvarsson ljósmyndari.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, setti ársfundinnFjölmennt var á fundinumFjölmenni sótti fundinnFjölmenni sótti fundinnJörundur Svavarsson, prófessor og formaður ráðgefandi nefndar Stofnunar rannsóknsetra HÍ, var fundarstjóri. Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor í ferðamálfræði, flutti erindið: Ferðaþjónusta og virkjanir sem gerendur í byggðaþróun.Anna Dóra svarar spurningum úr sal. Gestir ársfundarinsGestir ársfundarins hlustuðu granntFjölmennt var á ársfundinum,Fjölmennt var. Gyða Þórhallsdóttir doktorsnemi flutti erindið: Ferðamenn – Hvert fara þeir?Lilja B. Rögnvaldsdóttir, verkefnisstjóri við Rannsóknasetur HÍ á Húsavík, flutti erindið: Hver var þetta og hvað vildi hann? Erlendir ferðamenn á Húsavík, Siglufirði, Höfn og í Mývatnssveit sumarið 2015.

Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra 30. mars 2017 í Þjóðminjasafni Íslands

Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands verður haldinn í sal Þjóðminjasafns Íslands fimmtudaginn 30. mars 2017.  Ársfundurinn hefst kl. 13.30 og dagskrá lýkur kl. 16.  Fundurinn er opinn öllum en gestir eru beðnir að skrá sig hér.

Dagskrá:

13.30 Setning ársfundar.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

13.45 Ferðaþjónusta og virkjanir sem gerendur í byggðaþróun.

Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor í ferðamálafræði við Háskóla Íslands.

14.00 Ferðamenn – Hvert fara þeir?

Gyða Þórhallsdóttir, doktorsnemi Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.

14.15 Hver var þetta og hvað vildi hann? Erlendir ferðamenn á Húsavík, Siglufirði, Höfn og í Mývatnssveit sumarið 2015

Lilja B. Rögnvaldsdóttir, verkefnisstjóri við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík. 

14.30 „Maður getur átt von á öllu mögulegu“. Um áhrif ferðaþjónustu í einstökum samfélögum.

Eyrún Jenný Bjarnadóttir, Rannsóknamiðstöð ferðamála.

14.45 Kaffi

15:15 Heimildarýni, speglanir og spuni. Hvað getur fræðimaður leyft sér?

Soffía Auður Birgisdóttir, sérfræðingur við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði.

15.30 Frá fornleifafræðilegum rannsóknum að hagnýtri stýringu og ferðaþjónustu: dæmi af hvalveiðistöðvum.

Ragnar Edvardsson, sérfræðingur við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum.

15.45 Þekkingin og byggðirnar

Sigurður Sigursveinsson, framkvæmdastjóri Háskólafélags Suðurlands.

16.00 Samantekt.

Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands.

Fundarstjóri: Jörundur Svavarsson, prófessor og formaður ráðgefandi nefndar Stofnunar rannsóknasetra HÍ.

 

Gestir eru vinsamlega beðnir að skrá sig á sérstöku eyðublaði. Skráningu lýkur 28. mars nk.

Málþing um menningartengda ferðaþjónustu

Málþing um menningartengda ferðaþjónustu verður haldið á Restaurant Galdri á Hólmavík fimmtudaginn 23. febrúar og hefst kl. 12:10. Á málþinginu láta bæði heimamenn á Ströndum og nemendur í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands ljós sitt skína og segja frá margvíslegum verkefnum. Málþingið er haldið í tengslum við heimsókn háskólanema í námskeiðinu Menningartengd ferðaþjónusta, en þeir dvelja tvær nætur á Ströndum, skoða sig um og heimsækja söfn, sýningar og sögustaði.

Meðal fyrirlesara á málþinginu eru Skúli Gautason menningarfulltrúi Vestfjarða sem fjallar um uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu á Vestfjörðum, Esther Ösp Valdimardóttir mannfræðingur og tómstundafulltrúi Strandabyggðar sem fjallar um bæjarhátíðina Hamingjudaga og fleiri hátíðahöld í Strandabyggð, Hafdís Sturlaugsdóttir landnýtingarfræðingur sem fjallar um menningarverkefni á vegum Náttúrustofu Vestfjarða og Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur sem fjallar um Náttúrubarnaskólann á Ströndum. Einnig flytja nemendur í hagnýtri menningarmiðlun fjórar kynningar á verkefnum sem þeir hafa unnið í tengslum við námskeiðið syðra. Málþingið er opið öllum sem áhuga hafa.

Það er Rannsóknasetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofa sem stendur fyrir móttöku hópsins og málþinginu í samvinnu við Strandagaldur og Sauðfjársetur á Ströndum. Um fundarstjórn sér Jón Jónsson þjóðfræðingur.

Pallborð um hagnýtingu og miðlun þjóðfræðiefnis

Þjóðtrúardaginn mikla, föstudaginn 13. janúar kl. 17:00, stendur Félag þjóðfræðinga fyrir pallborðsumræðum um hagnýtingu og miðlun þjóðfræðiefnis. Þar segja nokkrir þjóðfræðingar segja frá verkefnum sínum og eftir það verða svo umræður um efnið.

Jón Jónsson segir frá þjóðfræðiverkefnum á Ströndum og Rannsóknarsetri HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu. 
Ólöf Magnúsdóttir segir frá gagnvirku upplifunarsýningunni Huliðsheimar.
Sóley Björk Guðmundsdóttir segir frá smáforritinu Lifandi landslag.
Særún Lísa Birgisdóttir segir frá fyrirtæki sínu Lisa day tours og hvernig nýta má þjóðfræðina í ferðaþjónustu.

Viðburðurinn er haldinn í ReykjavíkurAkademíunni að Þórunnartúni 2. Allir eru hjartanlega velkomnir.

Fræðafélag stofnað á Ströndum

ATH: Fundi frestað þar til eftir áramót vegna veðurspár. Fyrirhugað er að stofna fræða- og fróðleiksfélag á Ströndum á milli jóla og nýárs. Félagið verður þverfaglegt og opið bæði háskólamenntuðu fólki og áhugamönnum um margvísleg fræði, vísindi, menningu og listir. Á Ströndum er grundvöllur fyrir dálítið rannsóknasamfélag, en þar eru meðal annars búsettir einstaklingar með menntun í þjóðfræði, sagnfræði, safnafræði, mannfræði og náttúruvísindum. Eins eru rekin þar söfn, sýningar og fræðasetur. Það er Rannsóknasetur HÍ á Ströndum - Þjóðfræðstofa sem stendur fyrir stofnun félagsins með það að markmiði að auka samvinnu og efla tengslanet fræði- og vísindamanna á Ströndum, auk þess að vinna að kynningu þeirra rannsóknarverkefni sem unnin eru í héraðinu fyrir íbúum og umheiminum öllum. 

Stofnfundurinn verður haldinn, ef veður leyfir, miðvikudaginn 28. desember kl. 20:00 í Sauðfjársetrinu í Sævangi. Allir eru velkomnir.

Súpufundur á Hólmavík um Uppbyggingarsjóð

Súpufundur verður haldinn á Restaurant Galdri á Hólmavík föstudaginn 9. desember og hefst kl. 12:10 (notið gamla innganginn á Galdrasýninguna). Að þessu sinni mun Skúli Gautason, nýráðinn menningarfulltrúi hjá Fjórðungssambandi Vestfirðinga, segja frá Uppbyggingarsjóði sem er hluti af Sóknaráætlun Vestfjarða. Nú hefur nýlega verið auglýst eftir umsóknum í sjóðinn fyrir árið 2017 og rennur umsóknarfrestur út 9. janúar næstkomandi. Skúli mun einnig halda örnámskeið  í gerð styrkumsókna á fundinum og á boðstólum verður dýrindis kjötsúpa á sérlegu tilboðsverði fyrir gesti fundarins á Restaurant Galdri, kr. 1.800.-

Það eru Rannsóknasetur HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofa og Þróunarsetrið á Hólmavík sem standa fyrir súpufundum á Ströndum veturinn 2016-2017. Á þeim er sagt frá fyrirtækjum og félagsstarfi sem tengist svæðinu, vísindum og verkefnum, fræðastarfi og fróðleik. Jón Jónsson þjóðfræðingur hefur umsjón með skipulagningu fundanna og eru þeir sem hafa áhugaverðan fróðleik fram að færa hvattir til að hafa samband við hann. Fundirnir eru haldnir í samvinnu við veitingastaði í héraðinu.

Fréttir af Ströndum

Starfsemi hófst hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu í september síðastliðnum og hefur verið unnið af kappi við að koma setrinu af stað. Haldin var þjóðtrúarkvöldvaka í september í samvinnu við Sauðfjársetur á Ströndum og tókst vel til. Yfirskriftin var Leyndardómar fjörunnar, þjóðtrú, ótti og óhugnaður. Þrír þjóðfræðingar héldu þar erindi, Kristinn H.M. Schram, Dagrún Ósk Jónsdóttir og Jón Jónsson. Kristinn var fyrsti forstöðumaður Þjóðfræðistofu Strandagaldurs sem er forveri Rannsóknasetursins á Ströndum. Þjóðtrúin, tónlistaratriði Arnars S. Jónssonar og dulmagnað kaffihlaðborð lokkuðu að fjölda gesta.

Þjóðfræðinemar í félaginu Þjóðbrók komu í heimsókn á Strandir í haust og í staðinn fyrir hefðbundna móttöku tók Jón Jónsson verkefnastjóri hjá rannsóknasetrinu þá með sér í dágóða álagabletta- og tröllaskoðunargönguferð í Kollafirði á Ströndum.

Unnið hefur verið að undirbúningi margvíslegra verkefna og uppbyggingu á tengslaneti. Sem dæmi má nefna að verkefnastjóri flutti fyrirlestur fyrir safnafólk um samspil safna og samfélags á Farskóla safnmanna í Keflavík og búið er að starta súpufundum yfir vetrartímann á Hólmavík um vísindi og fræði í samvinnu við Þróunarsetrið á Hólmavík. Unnið er að útfærslu á samstarfi við þjóðfræðiskor Háskóla Íslands og námsmenn í doktors- og mastersnámi hafa þegar notið góðs af samvinnu og aðstöðu við Rannsóknasetrið.

Rannsóknarsetrið á Ströndum er tilbúið í margvísleg samvinnuverkefni sem tengjast rannsóknum, kennslu og miðlun. Þetta á bæði við um samvinnu við þjóðfræðinga og þjóðfræðinema hér á landi og erlendis, en einnig fræðimenn á öðrum sviðum þar sem nálgunin er þverfagleg. Þeir sem hafa hugmynd um samvinnu eru hvattir til að hika ekki við að hafa samband við Jón Jónsson þjóðfræðing og verkefnastjóra - jonjonsson@hi.is.

Nýtt rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum stofnað

Nýtt rannsóknasetur, Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum - Þjóðfræðistofa, hefur verið sett á laggirnar. Rannsóknir í þjóðfræði verða þar í öndvegi og sérstök áhersla á miðlun og hagnýtingu þjóðfræðilegrar þekkingar. Rannsóknasetrið er staðsett á Hólmavík.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum er hluti af Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands en innan stofnunarinnar eru fyrir sjö rannsóknasetur víða um land, á Suðurnesjum, Snæfellsnesi, Vestfjörðum, Norðurlandi vestra, Húsavík, Hornafirði og Suðurlandi. Viðfangsefni rannsókna sem setrin standa fyrir eru fjölbreytt, en á meðal þeirra eru lífríki hafsins, umhverfi og landnýting, hvalir, fiskar og fuglar, ferðamál, bókmenntir, sagnfræði, fornleifafræði og nú þjóðfræði.

Með samningi mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands frá byrjun ársins 2016 var sett af stað vinna við að greina tækifæri og leiðir við að koma rannsóknasetrinu á fót. Áður hafði Strandagaldur ses staðið fyrir rekstri þekkingarsetursins Þjóðfræðistofu á Hólmavík frá árinu 2008, en starfsemi hennar hafði lagst af. Á grunni þessarar vinnu varð úr að ráðuneytið fól Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands að hefja starfsemi þessa nýja rannsóknaseturs, í góðri samvinnu við heimamenn og að hluta til er byggt á þeim góða grunni sem áður hefur verið lagður með starfsemi Þjóðfræðistofu Strandagaldurs.

Jón Jónsson þjóðfræðingur hefur verið ráðinn verkefnisstjóri Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofu og hóf hann störf í byrjun mánaðarins. Jón hefur síðustu árin starfað sem menningarfulltrúi Vestfjarða. Aðsetur rannsóknasetursins er í Þróunarsetrinu á Hólmavík.

Strandamenn ætla að fagna stofnun Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofu strax um helgina. Laugardagskvöldið 10. september verður haldin þjóðtrúarkvöldvaka í samvinnu hins nýja seturs og Sauðfjárseturs á Ströndum sem ber yfirskriftina Leyndardómar fjörunnar, þjóðtrú, ótti og óhugnaður. Jón Jónsson mun þar segja frá þjóðtrú og þjóðsögum tengdum heimsóknum ísbjarna til landsins og heitir erindi hans: Ísbirnir éta ekki óléttar konur! Á kvöldvökunni flytja einnig erindi þjóðfræðingarnir Dagrún Ósk Jónsdóttir og Kristinn H.M. Schram sem var fyrsti forstöðumaður Þjóðfræðistofu Strandagaldurs. Kvöldvakan verður í félagsheimilinu Sævangi og hefst kl. 20:00.

--------
Nánari upplýsingar gefur Jón Jónsson (jonjonsson@hi.is / gsm: 831 4600), verkefnisstjóri Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofu.

Vel sóttur ársfundur í Stykkishólmi

Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands var haldinn í Stykkishólmi 15. apríl sl. Í ár eru tíu ár frá stofnun Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Snæfellsnesi og flutti Jón Einar Jónsson forstöðumaður setursins yfirlitserindi þar sem hann sagði frá rannsóknum á æðarfugli sem stundaðar hafa verið við setrið.  Afrakstur rannsóknanna byggja m.a. á góðu samstarfi við æðarbændur, heimamenn, sveitarfélagið og Náttúrustofu Vesturlands. Með samstarfi og stuðningi þessara aðila má ná miklum árangri í starfi háskólastarfsemi á landsbyggðinni eins og sýnir sig með Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Snæfellsnesi. Á ársfundinum voru flutt áhugaverð erindi sem mörg hver tengdust lífríki Breiðafjarðar, önnur um náttúru og nytjar í víðum skilningi og umgengni mannsins við náttúruna. 

Að loknum ávörpum Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, og Sturlu Böðvarssonar, bæjarstjóra Stykkishólmbæjar, flutti Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands, erindi um hringrásarhagkerfið. Þá fjallaði Róbert Arnar Stefánsson, forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands, um hina auðugu þörungaskóga Breiðafjarðar í erindi sem hann nefndi „Regnskógar norðursins.“ Aldís Erna Pálsdóttir sagði frá afráni á æðarhreiðrum í Breiðafirði, en hún lauk nýlega meistaraprófi í líffræði frá Háskóla Íslands. Unnur Birna Karlsdóttir, sérfræðingur við starfsstöð Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands á Egilsstöðum, fjallaði um rannsókna sína á sögu hreindýra á Íslands í erindi sínu og Hrönn Egilsdóttir, doktorsnemi við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands, fjallaði um súrnun sjávar í erindi sínu ,,Súrnun sjávar við Íslands. Rannsóknir og staða þekkingar." 

Að dagskrá lokinni var haldið í Æðarsetur Íslands sem opnar innan skamms í Stykkishólmi. Nánari upplýsingar um dagskrá fundarins er að finna á vefsíðu Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands.

Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands starfrækir rannsóknasetur á Hornafirði, Suðurlandi, Suðurnesjum, Snæfellsnesi, Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Norðausturlandi. Þá vinnur akademískur starfsmaður að rannsóknum á vegum stofnunarinnar á Austurlandi.

Á vegum rannsóknasetranna eru stundaðar fjölbreyttar rannsóknir. Meðal viðfangsefna eru lífríki hafsins, umhverfi og landnýting, fiskar og fuglar, auðlindir, ferðamál, bókmenntir, sagnfræði og fornleifafræði. Allt eru þetta rannsóknasvið sem mikill áhugi er á um allt land og gefa tilefni til samstarfs milli setranna við Háskóla Íslands í Reykjavík, sem og aðrar rannsóknastofnanir hérlendis og erlendis. Nánari upplýsingar um starfsemi rannsóknasetra Háskóla Íslands má finna í ársskýrslu stofnurinnar.

Myndir á ársfundinum tók Kristinn Ingvarsson ljósmyndari.

Jón Einar Jónsson forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Snæfellsnesi

Sturla Böðvarsson bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar

Jón Atli Benediktsson rektors Háskóla Íslands

 

Pages

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is