Húsavík

Edda Elísabet Magnúsdóttir ver doktorsritgerð 19. maí nk.

Edda Elísabet Magnúsdóttir ver doktorsritgerð sína við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands föstudaginn 19. maí nk . Ritgerðin ber heitið: Sönghegðun hnúfubaksins (Megaptera novaeangliae) á fæðustöðvum við suðurmörk norðurheimskautsins (e. The singing behaviour of humpback whales (Megaptera novaeangliae) in subarctic waters.

Leiðbeinandi er dr. Jörundur Svavarsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Aðrir í doktorsnefnd eru dr. Marianne H. Rasmussen, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík, dr. Patrick Miller, prófessor við Háskólann í St. Andrews, Skotlandi og dr. Mads Peter Heide-Jørgensen, prófessor við Náttúrurannsóknastofnun Grænlands í Nuuk, Grænlandi.

Haustið 2008 hóf Edda doktorsnám sitt við Líf- og umhverfisvísindadeild og fór þar fram við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík undir handleiðslu forstöðumanns þess, Marianne Rasmussen. 

Nánar má sjá um doktorsvörnina hér. 

Ágrip af rannsókn

Á æxlunartíma hnúfubaksins (Megaptera novaeangliae) syngja tarfarnir flókna og langa söngva sem samanstanda af endurteknum og fjölbreyttum söngerindum. Á hverjum tíma og stað syngja tarfarnir sömu söngvana. Söngvarnir virðast einna helst mikilvægir í samskiptum tarfanna þegar þeir eru á æxlunarstöðvunum en líklega eru þeir jafnframt mikilvægir í tilhugalífi dýranna. Nýlegar rannsóknir hafa staðfest að hnúfubakstarfar eru einnig iðnir við söng utan æxlunarstöðva, t.d. á farleiðum og á fæðuslóðum á og við heimskautasvæðin. Tilgangur sönghegðunarinnar á fæðuslóðum er enn að miklu leyti á huldu.

Rannsóknir fóru fram á hljóðmyndun hnúfubaka við norðausturströnd Íslands á heilsársgrundvelli með áherslu á sönghegðun að vetri. Hljóðgögnum var safnað yfir þriggja ára tímabil. Upptökurnar leiddu í ljós að hnúfubakar syngja á fæðustöðvum sínum norðaustur af landinu á veturna og voru söngvarnir í mestum mæli á æxlunartíma þeirra. Jafnframt mynduðu þeir margvísleg samskiptahljóð allt árið sem flokkast ekki sem söngvar. Upptökur af söngvum fengust einnig frá þekktum æxlunarstöðvum hnúfubaka í Norður Atlantshafi, þ.e. frá Grænahöfðaeyjum úti fyrir norðvesturströnd Afríku og frá Karíbahafi. Markmiðið var að bera íslensku söngvana saman við söngva frá þessum æxlunarstöðvum.

Ef líkindi finnast milli söngva og þess hvernig þeir þróast á fjarlægum búsvæðum bendir það til þess að hvalir frá þeim svæðum eigi í samskiptum og tilheyri líklega sama æxlunarstofni. Fyrsta stigs Markov-líkan var notað til að meta samræmi og festu í myndun söngrunanna innan tímabila en samanburðargreiningar voru svo nýttar til að kanna líkindi milli söngvanna frá þessum ólíku svæðum og tíma. Ásamt því hversu miklum tíma hvalirnir vörðu í söng sýndu niðurstöðurnar fram á að söngvarnir frá Íslandi voru í samræmi við það söngform sem þekkist á hefðbundnum æxlunarstöðvum í hitabeltinu. Því er ólíklega um tilviljunarkennda söngva að ræða, öllu heldur eru líkur á að söngvarnir á Íslandi eigi þátt í tilhugalífi hvalanna. Söngvar með svipaða uppröðun erinda voru sungnir við Ísland og á æxlunarsvæðunum. Það bendir til þess að hvalirnir skiptist á hljóðum á Íslandsmiðum og/eða á farleiðum og flytji þau svo með sér suður á æxlunarstöðvarnar.

Þar sem söngvar heyrðust fram í mars er ljóst að einhverjir hnúfubakar halda til við Ísland yfir veturinn. Þannig geta íslensk hafsvæði nýst hvölunum á veturna og fram á vor til bæði fæðuöflunar, söngiðkunar og mögulega til mökunar. Niðurstöðurnar varpa þannig nýju ljósi á mikilvægi íslenskra fæðustöðva fyrir hnúfubaka að vetri til.
 

Um doktorsefnið

Edda Elísabet Magnúsdóttir fæddist í Durham, Englandi árið 1981 og ólst upp í Reykjavík. Edda á tvo drengi, þá Aðalstein Loga Bernharðsson 6 ára og Arnar Magnús Bryden Swift 9 mánaða, sambýlismaður hennar er Martin Jónas Swift eðlisfræðingur og kennari.

Edda lauk BSc námi í líffræði við Háskóla Íslands árið 2005 og M.Paed námi í líffræði og kennslufræðum við Háskóla Íslands árið 2007. Veturinn 2007–2008 starfaði hún sem raunvísindakennari við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki en hóf svo doktorsnám sitt í líffræði við Háskóla Íslands haustið 2008 og fór það fram við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík.

Meðfram námi hefur Edda sinnt margvíslegri kennslu, þar á meðal stundakennslu við Háskóla Íslands og Háskólasetur Vestfjarða, raunvísindakennslu við Menntaskólann við Sund, í Háskóla unga fólksins og Háskólalestinni. Hún hefur auk þess leiðbeint meistaranáms- og grunnnámsnemendum í líffræði við Háskóla Íslands.

Edda hefur lagt metnað sinn í fræðslu um hvali fyrir almenning, m.a. með ýmsum erindum sem hafa verið sérstaklega sniðin að almenningi og með skrifum fræðsluefnis um hvali fyrir hvalasafnið „Whales of Iceland“. Edda gaf jafnframt út hljóðbók um hina áhugaverðu hljóðhegðun hnúfubaksins fyrir almenning, ásamt Marianne Rasmussen, leiðbeinanda hennar, og öðru samstarfsfólki.

Hvert er hlutverk hvala í lífríkinu?

Vísindamenn Háskóla Íslands vinna að ýmsum rannsóknum tengdum hvölum en þar má nefna samskipti hvala og lifnaðarhætti þeirra, hvalveiðar og hvalaskoðun. Þessi stærstu spendýr jarðar og hlutverk þeirra í lífríkinu verður til umræðu á málþingi sem fram fer í dag, fimmtudaginn 27. apríl, klukkan 13 til 16 á vegum Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík og franska sendiráðsins á Íslandi. Yfirskrift málþingsins er „What Is the Role of Whales in the Ecosystem?“ og fer það fram í sal N-132 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands.
 
Síðustu misserin hafa vísindamenn í auknum mæli beint sjónum sínum að hlutverki hvala í lífríkinu. Einn þeirra sem rannsakað hafa þetta um árabil er Joe Roman, rannsóknarprófessor við Rubenstein-náttúruvísindaskólann. Joe, sem lauk doktorsprófi í líffræðilegri og þróunarfræðilegri líffræði frá Harvard-háskóla árið 2003, stígur fyrstur á stokk á málþinginu og ræðir rannsóknir sínar á vistfræði stórhvala og hvernig fjölgun hvala getur endurreist lífríki sjávar. 
 
Einn þeirra vísindamanna innan Háskóla Íslands sem stundað hafa rannsóknir á hvölum er Marianne Rasmussen, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík. Hún tekur einnig til máls á ráðstefnunni og fjallar um hljóðumhverfi hafdjúpanna og hvernig hegðun hvala getur gagnast öðrum tegundum. 
 
Á málþinginu mun Gísli Víkingsson, sérfræðingur í uppsjávarlífríki hjá Hafrannsóknastofnun, enn fremur fjalla um vistfræðilegt hlutverk hvala sem rándýra og bráðar í vistkerfi hafsins, sem er mjög mismunandi eftir hafsvæðum. 
 
Í lokin verður boðið upp á pallborðsumræður með fyrirlesurunum þremur og að málþingi loknu býður franska sendiráðið þáttakendum og gestum upp á léttar veitingar. 
 
Málþingið fer fram á ensku og er öllum opið. Dagskrána má sjá hér

“What Is the Role of Whales in the Ecosystem?”

Á vegum Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík og franska sendiráðsins á Íslandi fer fram málþingið: “What Is the Role of Whales in the Ecosystem?” 27. apríl nk. kl. 13 til 16 í stofu 132 í Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands.

Dagskráin er öllum opin og fer fram á ensku. 

---------------------

The University of Iceland's Research Center in Húsavík and the French Embassy in Iceland er hosting a symposium:  “What Is the Role of Whales in the Ecosystem?” April 27th from 13 to 16 in room 132 in Askja, University of Iceland.

The symposium is open to guests and will be held in English. 

 

13.00 - 13.03 Welcome

13.05 - 13.20 Opening Remarks by Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Minister of Fisheries and Agriculture

13.20 - 13.55 Gíslí Víkingsson, MFRI “Whales’ Roles as Predators and Prey”

13.55 - 14.30 Marianne Helene Rasmussen, HI “Behaviors That Benefit Other Species”

14.30 - 14.45 Coffee Break

14.45 - 15.30 Joe Roman, UVT “Whales as Marine Ecosystem Engineers”

15.30 - 15.25 Introduction of panel

15.25 - 15.55 Panel Q&A on all aspects of whales’ roles in the ecosystem

15.55 - 16.00 Appreciation and Closing

Fjölmennur ársfundur í Reykjavík

Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands var haldinn í Reykjavík 30. mars sl. Fjöldi erinda var fluttur að viðstöddu fjölmenni. 

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, setti fundinn. Að því loknu voru flutt fróðleg erindi um viðfangsefni sem tengjast rannsóknum sem unnar eru við eða í tengslum við setrin. Fyrstu fjögur erindin tengdust ýmsum hliðum ferðaþjónustu:

Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor í ferðamálafræði við HÍ, fjallaði um samspili ferðaþjónustu og virkjana; Gyða Þórhallsdóttir, doktorsnemi í ferðamálafræði við HÍ, sagði frá greiningu á fjölda ferðamanna og hvert þeir leggja leið sína; Lilja B. Rögnvaldsdóttir, verkefnisstjóri við Rannsóknasetur HÍ á Húsavík, sagði frá könnun á væntingum ferðamanna til valinna áfangastaða og loks fjallaði Eyrún Jenný Bjarnadóttir hjá Rannsóknamiðstöð ferðamála um samfélagsleg áhrif ferðaþjónustu.

Allt eru þetta viðfangsefni sem tengjast umræðu um stöðu ferðaþjónustunnar og þróun hennar,  niðurstöðurnar eru fróðlegar fyrir alla sem áhuga hafa á málefninu auk þess sem rannsóknirnar gefa mikilsverðar upplýsingar sem geta komið að góðum notum við stefnumótun í greininni.

Eftir hlé var m.a. sagt frá rannsóknum á sviði bókmenntafræði og fornleifafræði. Soffía Auður Birgisdóttir, bókmenntafræðingur við rannsóknasetur HÍ á Hornafirði, velti fyrir sér hvað fræðimaður gerir sem rekist hefur á spennandi rannsóknarefni þar sem heimildir eru af skornum skammti. Erindið tengist rannsókn á heimildum um Guðrúnu Sveinbjarnardóttur Egilssonar (f.1831) sem „varð fyrir því óláni“ að kynferði hennar var rangt skilgreint við fæðingu og „hlaut hún að búa við það alla ævi“ eins og segir í einni heimildinni.

Ragnar Edvardsson, fornleifafræðingur við rannsóknasetur HÍ á Vestfjörðum, sagði síðan frá rannsóknum sínum á minjastöðum sem tengjast hvalveiðum Dana, Hollendinga, Norðmanna og fleiri þjóða við Ísland á 19. öld. Í fyrirlestrinum verður fjallað um rannsókninar á hvalveiðistöðvunun og greint frá vel heppnuðu samspili fræðilegra rannsókna, nýtingaráætlunar og ferðamennsku.

Að lokum flutti Sigurður Sigursveinsson, framkvæmdastjóri Háskólafélags Suðurlands, erindi sem hann nefndi Þekkingin og byggðirnar. .

Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands starfrækir rannsóknasetur á Hornafirði, Suðurlandi, Suðurnesjum, Snæfellsnesi, Vestfjörðum, Ströndum, Norðurlandi vestra og Norðausturlandi. Þá vinnur akademískur starfsmaður að rannsóknum á vegum stofnunarinnar á Austurlandi.

Á vegum rannsóknasetranna eru stundaðar fjölbreyttar rannsóknir. Meðal viðfangsefna eru lífríki hafsins, umhverfi og landnýting, hvalir, fiskar og fuglar, auðlindir, ferðamál, bókmenntir, sagnfræði, fornleifafræði og þjóðfræði. Allt eru þetta rannsóknasvið sem mikill áhugi er á um allt land og gefa tilefni til samstarfs milli setranna við Háskóla Íslands í Reykjavík, sem og aðrar rannsóknastofnanir hérlendis og erlendis. Nánari upplýsingar um starfsemi rannsóknasetra Háskóla Íslands má finna í ársskýrslu stofnunarinnar. 

Myndir á ársfundinum tók Kristinn Ingvarsson ljósmyndari.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, setti ársfundinnFjölmennt var á fundinumFjölmenni sótti fundinnFjölmenni sótti fundinnJörundur Svavarsson, prófessor og formaður ráðgefandi nefndar Stofnunar rannsóknsetra HÍ, var fundarstjóri. Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor í ferðamálfræði, flutti erindið: Ferðaþjónusta og virkjanir sem gerendur í byggðaþróun.Anna Dóra svarar spurningum úr sal. Gestir ársfundarinsGestir ársfundarins hlustuðu granntFjölmennt var á ársfundinum,Fjölmennt var. Gyða Þórhallsdóttir doktorsnemi flutti erindið: Ferðamenn – Hvert fara þeir?Lilja B. Rögnvaldsdóttir, verkefnisstjóri við Rannsóknasetur HÍ á Húsavík, flutti erindið: Hver var þetta og hvað vildi hann? Erlendir ferðamenn á Húsavík, Siglufirði, Höfn og í Mývatnssveit sumarið 2015.

Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra 30. mars 2017 í Þjóðminjasafni Íslands

Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands verður haldinn í sal Þjóðminjasafns Íslands fimmtudaginn 30. mars 2017.  Ársfundurinn hefst kl. 13.30 og dagskrá lýkur kl. 16.  Fundurinn er opinn öllum en gestir eru beðnir að skrá sig hér.

Dagskrá:

13.30 Setning ársfundar.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

13.45 Ferðaþjónusta og virkjanir sem gerendur í byggðaþróun.

Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor í ferðamálafræði við Háskóla Íslands.

14.00 Ferðamenn – Hvert fara þeir?

Gyða Þórhallsdóttir, doktorsnemi Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.

14.15 Hver var þetta og hvað vildi hann? Erlendir ferðamenn á Húsavík, Siglufirði, Höfn og í Mývatnssveit sumarið 2015

Lilja B. Rögnvaldsdóttir, verkefnisstjóri við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík. 

14.30 „Maður getur átt von á öllu mögulegu“. Um áhrif ferðaþjónustu í einstökum samfélögum.

Eyrún Jenný Bjarnadóttir, Rannsóknamiðstöð ferðamála.

14.45 Kaffi

15:15 Heimildarýni, speglanir og spuni. Hvað getur fræðimaður leyft sér?

Soffía Auður Birgisdóttir, sérfræðingur við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði.

15.30 Frá fornleifafræðilegum rannsóknum að hagnýtri stýringu og ferðaþjónustu: dæmi af hvalveiðistöðvum.

Ragnar Edvardsson, sérfræðingur við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum.

15.45 Þekkingin og byggðirnar

Sigurður Sigursveinsson, framkvæmdastjóri Háskólafélags Suðurlands.

16.00 Samantekt.

Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands.

Fundarstjóri: Jörundur Svavarsson, prófessor og formaður ráðgefandi nefndar Stofnunar rannsóknasetra HÍ.

 

Gestir eru vinsamlega beðnir að skrá sig á sérstöku eyðublaði. Skráningu lýkur 28. mars nk.

Erlendir ferðamenn á Húsavík, Siglufirði, Höfn og í Mývatnssveit sumarið 2015

Niðurstöður fjögurra skýrslna um erlenda ferðamenn á Húsavík, Siglufirði, Höfn í Hornafirði og í Mývatnssveit sýna að dvalarlengd gesta og útgjöld þeirra voru misjöfn eftir áfangastöðum sumarið 2015. Margt var þó líkt með gestum þessara staða, s.s. búsetuland þeirra, val á tegund gistingar, ferðafélagar og uppruni upplýsinga.

Skýrslurnar komu nýverið út hjá Rannsóknamiðstöð ferðamála, en verkefnið var samstarfsverkefni RMF, Rannsóknaseturs HÍ á Húsavík, Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri og Þekkingarnets Þingeyinga. Höfundur og umsjónaraðili verkefnisins var Lilja Berglind Rögnvaldsdóttir.

Í skýrslunum eru birtar niðurstöður ferðavenjukannana sem framkvæmdar voru á þessum stöðum sumarið 2015. Meðal þess sem kannað var í verkefninu var neysluhegðun og útgjaldamynstur erlendra gesta á hverjum stað auk þess sem svæðisbundið umfang ferðaþjónustunnar var áætlað út frá niðurstöðunum. Skýrslurnar má finna á vef Rannsóknamiðstöðvar ferðamála: (http://www.rmf.is/is/um-rmf/frettir/erlendir-gestir-nidurstodur-ferdavenjukonnunar).

Auglýst eftir doktorsnema í ARCPATH rannsóknaverkefnið

Norræna öndvegissetursverkefnið Arctic Climate Predictions: Pathways to Resilient, Sustainable Societies (ARCPATH), sem fjármagnað er af NordForsk, auglýsir eftir umsóknum um stöðu doktorsnema.

Í ARCPATH er stefnt að eftirfarandi niðurstöðum: að ná fram betri spám um loftslag heimskautasvæða með því að fækka óvissuþáttum sem rekja má til breytinga í hafinu, að öðlast innsýn í næmi heimskautaloftslags gagnvart umhverfisbreytingum af mannavöldum, einnig að auka skilning á því hvernig loftslagsbreytingar orka á margvíslega félagslega þætti, allt frá þróun fiskveiðisamfélaga til nýtingar og neyslu sjávarspendýra í Norður-Atlantshafi. Í ARCPATH verða notuð tæki og nálgun bæði úr náttúruvísindum og félagsvísindum til þess að skapa þverfaglegt verkefni sem mun tengja saman loftslagsspár og áhrif á mannlíf, með greiningu og mati á þeim tækifærum og áhættu sem eru loftslagstengd.

Markmiðið með doktorsverkefninu er að tengja dreifingu smárra hvala við þætti sem tengjast loftslagsbreytingum, svo sem breytingar á dreifingu fæðudýra og magni þeirra sem stjórnast af umhverfisþáttum eins og breyttu hitastigi sjávar. Sjálfvirk hljóðupptökutæki verða notuð í tveimur fjörðum á Norðurlandi, Eyjafirði og Skjálfanda, til að mæla hlutfallslegan fjölda smárra hvalategunda (eins og höfrunga og hnísa). Áætlað er að verkefnið standi yfir frá maí 2017 til apríl 2020.

Umsækjandi þarf að hafa MS-próf í líffræði, með rannsóknarefni úr náttúruvísindum eða af skyldu sviði, og að hafa reynslu af hljóðupptökum og síritum eins og C-POD.

Umsókn um stöðuna HI17010154 þarf að fylgja kynningarbréf og lýsing umsækjanda á væntanlegu framlagi hans til verkefnisins. Bréfið skal ekki vera lengra en ein síða. Að auki þarf að fylgja umsókninni: 1) náms- og starfsferilsskrá, 2) afrit af prófskírteinum (BS- og MS-próf), 3) tvenn meðmæli og upplýsingar um símanúmer/netfang. Neminn sem ráðinn verður þarf síðan að senda inn umsókn um doktorsnám við Háskóla Íslands innan tilskilins frests.

Umsóknarfrestur er til 15. febrúar 2017. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst. Sótt er um á slóðinni: http://www.hi.is/doktorsnemi_i_arcpath_vid_rannsoknasetur_haskola_islands_a_husavik_hi17010154

Allar frekari upplýsingar veitir Marianne Rasmussen (mhr@hi.is), forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík. Upplýsingar um rannsóknasetrið er að finna hér.

Allar umsóknir verða metnar og öllum umsækjendum svarað um leið og ákvörðun um ráðningu liggur fyrir.

Við allar ráðningar í stöður við Háskóla Íslands er tekið mið af Jafnréttisáætlun Háskóla Íslands.

Laun eru í samræmi við samning Félags háskólakennara og fjármálaráðuneytisins.

Háskóli Íslands er stærsta mennta-, rannsókna- og vísindastofnun á Íslandi og meðal 250 bestu háskóla heims skv. matslista Times Higher Education.
Upplýsingar um Háskóla Íslands má finna hér www.hi.is en frekari upplýsingar er einnig að finna hjá Skrifstofu alþjóðasamskipta og Relocation Service.

 

Sérlega stefnuvirk hljóðsjá náhvala

Út er komin skýrslan Highly Directional Sonar Beam of Narwhal (Monodon monoceros) Measured with a Vertical 16 Hydrohphoe Array eftir Marianne Rasmussen og félaga.

Rannsóknin fólst í að taka upp hljóð náhvala með 16-raða neðansjávarupptökutæki í hafísfylkingum í Baffin Bay við Grænland á ellefu stöðum árið 2013. Hljóðgeislinn sýnir keilulaga form með mjórri geisla fyrir ofan öxul geislans. Gæti þetta verið þróunarlegt forskot tannhvala til að minnka bergmál frá vatnsyfirborði eða ísyfirborði. Rannsóknin gefur gagnlegar upplýsingar fyrir mælingar á hljóðum náhvala og fyrir vöktun og notkun á hljóðsjármælitækjum á norðurslóðum.

Nánar um rannsóknina má lesa hér.

Nýtt rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum stofnað

Nýtt rannsóknasetur, Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum - Þjóðfræðistofa, hefur verið sett á laggirnar. Rannsóknir í þjóðfræði verða þar í öndvegi og sérstök áhersla á miðlun og hagnýtingu þjóðfræðilegrar þekkingar. Rannsóknasetrið er staðsett á Hólmavík.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum er hluti af Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands en innan stofnunarinnar eru fyrir sjö rannsóknasetur víða um land, á Suðurnesjum, Snæfellsnesi, Vestfjörðum, Norðurlandi vestra, Húsavík, Hornafirði og Suðurlandi. Viðfangsefni rannsókna sem setrin standa fyrir eru fjölbreytt, en á meðal þeirra eru lífríki hafsins, umhverfi og landnýting, hvalir, fiskar og fuglar, ferðamál, bókmenntir, sagnfræði, fornleifafræði og nú þjóðfræði.

Með samningi mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands frá byrjun ársins 2016 var sett af stað vinna við að greina tækifæri og leiðir við að koma rannsóknasetrinu á fót. Áður hafði Strandagaldur ses staðið fyrir rekstri þekkingarsetursins Þjóðfræðistofu á Hólmavík frá árinu 2008, en starfsemi hennar hafði lagst af. Á grunni þessarar vinnu varð úr að ráðuneytið fól Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands að hefja starfsemi þessa nýja rannsóknaseturs, í góðri samvinnu við heimamenn og að hluta til er byggt á þeim góða grunni sem áður hefur verið lagður með starfsemi Þjóðfræðistofu Strandagaldurs.

Jón Jónsson þjóðfræðingur hefur verið ráðinn verkefnisstjóri Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofu og hóf hann störf í byrjun mánaðarins. Jón hefur síðustu árin starfað sem menningarfulltrúi Vestfjarða. Aðsetur rannsóknasetursins er í Þróunarsetrinu á Hólmavík.

Strandamenn ætla að fagna stofnun Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofu strax um helgina. Laugardagskvöldið 10. september verður haldin þjóðtrúarkvöldvaka í samvinnu hins nýja seturs og Sauðfjárseturs á Ströndum sem ber yfirskriftina Leyndardómar fjörunnar, þjóðtrú, ótti og óhugnaður. Jón Jónsson mun þar segja frá þjóðtrú og þjóðsögum tengdum heimsóknum ísbjarna til landsins og heitir erindi hans: Ísbirnir éta ekki óléttar konur! Á kvöldvökunni flytja einnig erindi þjóðfræðingarnir Dagrún Ósk Jónsdóttir og Kristinn H.M. Schram sem var fyrsti forstöðumaður Þjóðfræðistofu Strandagaldurs. Kvöldvakan verður í félagsheimilinu Sævangi og hefst kl. 20:00.

--------
Nánari upplýsingar gefur Jón Jónsson (jonjonsson@hi.is / gsm: 831 4600), verkefnisstjóri Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofu.

Árleg Hvalaráðstefna haldin í dag, þriðjudag

Árleg Hvalaráðstefna verður haldin í dag, þriðjudag 21. júní kl. 20 í sal Hvalasafnsins á Húsavík.

Ráðstefnan var fyrst haldin sumarið 2014. Markmið ráðstefnunnar er m.a. að kynna þær rannsóknir sem eru og hafa verið stundaðar í Skjálfandaflóa og efla tengslin á milli hvalaskoðunarfyrirtækja, Rannsóknaseturs Háskóla Íslands, Hvalasafnsins og vísindafólks. Með þess konar samvinnu og samræðum, geta hvalaskoðunarfyrirtækin og Hvalasafnið miðlað nýjustu upplýsingum og aukið gæði svæðisins sem eitt besta svæði landsins til að skoða og fræðast um hvali.

Í gegnum árin hafa verið gerðar rannsóknir í flóanum og hafa þær niðurstöður ekki alltaf skilað sér inn á dekk til fyrirtækjanna, því bjóða Rannsóknasetur Háskóla Íslands og Hvalasafnið upp á þennan vettvang til að miðla upplýsingum, fræðast og spyrja spurninga en slíkur vettvangur nýtist einnig sem hluti af þjálfun nýrra leiðsögumanna og endurmenntun eldri leiðsögumanna, þar sem áhugaverðar upplýsingar koma fram og umræður gætu skapast.

Ráðstefnan hefst kl. 20 og er aðgangur ókeypis. Athugið að erindin eru flutt á ensku.

 

Pages

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is