Suðurland

Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra 2019 á Laugarvatni 28. mars nk.

Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra verður haldinn í húsnæði Háskóla Íslands á Laugarvatni fimmtudaginn 28. mars nk.  Fundurinn er öllum opinn en gestir eru beðnir að skrá sig. Skráningu lýkur 22. mars. 

Dagskrá

13.30       Setning ársfundar. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra

13.40       Ávarp. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands

13.50       Ávarp. Helgi Kjartansson, oddviti Bláskógabyggðar

14:00       Hvað er rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða? Guðrún Pétursdóttir, formaður verkefnisstjórnar 4. áfanga rammaáætlunar og framkvæmdastjóri Stofnunar Sæmundar fróða

14:20       Þjóðgarðar - óleysanlegar mótsagnir eða hvatning til breyttrar hugsunar? Þorvarður Árnason, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Hornafirði

14:40       Kaffi

15:10       Náttúruvernd og landnotkun. Tómas Grétar Gunnarsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Suðurlandi

15:30       Hafa villt dýr réttindi? Spjall um umhverfissögulega rannsókn á sambúð manns og villtra dýra á Íslandi. Unnur Birna Karlsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Austurlandi

15:50       Áhrif manna á búsvæði fugla.  Aldís Erna Pálsdóttir, doktorsnemi við Rannsóknasetur HÍ á Suðurlandi

16:10       Fundarslit og samantekt. Halldór Jónsson, sviðsstjóri Vísinda- og nýsköpunarsviðs Háskóla Íslands

Fundarstjóri: Halldór Jónsson, sviðsstjóri Vísinda- og nýsköpunarsviðs Háskóla Íslands

Að fundinum loknum verður boðið upp á léttar veitingar.

Rútuferð verður frá Aðalbyggingu HÍ kl. 11.30 og aftur frá Laugarvatni kl. 17:00 (ef ekki kemur til boðaðs verkfalls rútubílstjóra 28.mars) Boðið verður upp á léttan hádegisverð á Laugarvatni áður en fundurinn hefst.

Skráning á ársfundinn er á vefslóðinni https://goo.gl/forms/rmdZvKpbBCGTsJLm1

 

Nýtt rannsóknasetur Háskóla Íslands á Breiðdalsvík

Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands hyggst koma á fót Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Breiðdalsvík á grunni starfsemi Breiðdalsseturs ses. Rannsóknasetrinu er einkum ætlað að sinna rannsóknum á sviði jarðfræði og málvísinda. Aðsetur þess verður í Gamla Kaupfélaginu. 

Tvö störf hafa verið auglýst við rannsóknasetrið, starf forstöðumanns sem jafnframt verður akademískur starfsmaður við Háskóla Íslands, og starf verkefnisstjóra.

Auglýsingar um störfin má sjá hér:

Starf forstöðumanns og akademísks sérfræðings við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Breiðdalsvík

Starf verkefnisstjóra við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Breiðdalsvík

Á dögunum var undirritaður samstarfssamningur Háskóla Íslands og Náttúruvísindastofnunar Íslands um að efla rannsóknir í jarðfræði á Austurlandi og auka hlut þeirra verkefna Náttúrufræðistofnunar Íslands sem unnin eru í þeim landsfjórðungi. Háskóli Íslands og Náttúfræðistofnun Íslands munu sameiginlega tryggja fjármögnun starfs verkefnisstjóra við rannsóknasetrið.

Um afar spennandi verkefni er að ræða og starfsfólk rannsóknasetra háskólans hlakkar til að eiga gott samstarf við heimamenn fyrir austan um eflingu rannsókna og vísindastarfs á svæðinu.

Myndina af Gamla kaupfélaginu tók Hákon Hansson. 

Háhyrningarannsóknir í Vestmanneyjum

Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands hóf starfsemi á ný í Vestmannaeyjum 1. júní sl. Dr. Filipa Samara, hvalasérfræðingur, hefur verið ráðin í ársverkefni sem akademískur sérfræðingur við háskólann. Rannsóknir Filipu snúa einkum að háhyrningum, hegðun, hljóðum og ferðum þeirra. Filipa þekkir vel til Vestmanneyja þar sem hún og rannsóknahópur hennar, með stuðningi verkefnastyrks Rannís, hafa unnið rannsóknir sínar út frá Vestmannaeyjum sl. sumur. Meðan á því verkefni stóð var Filipa í stöðu sérfræðings við Hafrannsóknastofnun. Filipa og samstarfsfólk hennar hefur aðsetur í Þekkingarsetri Vestmannaeyja. 

Verkefnið verður hluti af Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands næsta árið en markmið hennar er að skapa aðstöðu til rannsókna á landsbyggðinni, auka möguleika almennings til menntunar og styrkja tengsl Háskóla Íslands við atvinnu- og þjóðlíf. Stofnunin er jafnframt vettvangur samstarfsverkefna Háskólans við sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga á landsbyggðinni. Unnið er að því að tryggja fjármögnun starfseminnar Í Vestmannaeyjum til frambúðar svo hægt verði að setja á fót sjálfstætt Rannsóknasetur Háskóla Íslands í Vestmannaeyjum.

 

 

 

Á myndinni má sjá háhyrning

Tjaldurinn tjaldar ekki til einnar nætur

Farfuglarnir hafa verið að tínast til landsins undanfarnar vikur og í þeirra hópi er tjaldurinn. Þar hittir hann fyrir aðra tjalda sem dveljast hér allt árið um kring. Þau Verónica Méndez Aragón, nýdoktor við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi, og José Alves, gestavísindamaður við setrið, beina sjónum sínum að þessum tveimur hópur og kanna nú hvort einhver munur er á þeim fuglum sem fara og hinna sem halda hér til yfir veturinn með tilliti til varpárangurs. Þau segja hér frá rannsóknum sínum sem m.a. fara fram í Hvalfirði þar sem tjaldurinn verpir við þjóðveginn.

Myndbandið má einnig sjá hér: https://www.youtube.com/watch?v=FqlOx9wfdDY&list=PLoc0mU0QB6h5q86BF4dvQGQd-RlZQQosr

Sumarstörf við rannsóknasetur Háskóla Íslands

Rannsóknasetur Háskóla Íslands taka þátt í átaki stjórnvalda um sumarstörf fyrir stúdenta. Störfin eru hluti af atvinnuátaki Félagsmálaráðuneytisins, Vinnumálastofnununar og Háskóla Íslands og eru sérstaklega ætluð nemum, 18 ára og eldri, sem eru milli anna í námi (þ.e. eru að koma úr námi og skráðir í nám að hausti).

Ráðningartímabilið eru tveir mánuðir yfir sumartímann og hefst 10. júní.

Umsóknarfrestur er til og með 5. júní 2020. 

 

 

Á vegum rannsóknasetranna eru auglýst 17 sumarstörf. Þau eru við:

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum

 • Rannsóknarmaður við þróun aðferða við botnmælingar og kortlagningu á grunnsævi. Sjá nánar hér.
 • Rannsóknamaður við fiskimerkingar. Sjá nánar hér.
 • Rannsóknamaður við rannóknir á landnámi flundru á Íslandi. Sjá nánar hér.
 • Aðstoðarmaður við rannsóknir. Sjá nánar hér. 

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum

 • Aðstoð við rannsókn: Ímynd og sjálfsmynd. Sjá nánar hér.
 • Rannsóknaverkefni: Vestfirska þjóðtrúarfléttan. Sjá nánar hér.
 • Átthagafræði og gamlar ljósmyndir á Hólmavik. Sjá nánar hér.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra

 • Aðstoðarmaður við rannsóknir í sagnfræði. Sjá nánar hér. 
 • Aðstoðarmaður við rannsóknir í sagnfræði. Sjá nánar hér.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík

 • Aðstoðarmaður í rannsóknum á háhyrningum. Sjá nánar hér. 

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Austurlandi

 • Aðstoð við rannsóknir. Sjá nánar hér.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði

 • Aðstoðarmaður við rannsóknir ( 2 störf). Sjá nánar.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi

 • Aðstoðarmaður við náttúrurannsóknir á Suðurlandi. Sjá nánar hér.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi

 • Aðstoðarmaður í rannsóknum við Breiðafjörð. Sjá nánar hér.
 • Aðstoðarmaður í rannsóknum við Breiðafjörð. Sjá nánar hér. 

Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands

 • Aðstoð við vefmál. Sjá nánar hér.

Sum starfanna eru auglýst án staðsetningar. Nánari upplýsingar má finna um hvert þeirra á vef Vinnumálastofnunar en slóðir á auglýsingar hvers og eins þeirra er að finna hér að ofan. 

Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands 12. maí nk.

Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands var haldinn  í Teams fjarfundi þriðjudaginn 12. maí nk. kl. 8.30–10.

Upptöku af fundinum má finna hér.

Dagskrá:

Opnunarávarp. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra

Ávarp. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands

Rannsóknir á örplasti og efnamengun í lífríki sjávar við Ísland  í samhengi við heimsmarkmið SÞ. Halldór Pálmar Halldórsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Suðurnesjum

Milliliðalaust samband við fortíðina. Tilfinningar, fátækt og hungur í dagbók frá 19. öld. Eiríkur Valdimarsson, verkefnisstjóri við Rannsóknasetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu

Vísindamaðurinn í samfélaginu: hvaða lærdóm geta háskólar dregið af reynslu rannsóknasetranna? Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Vestfjörðum

Samfélagslegt hlutverk háskóla. Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda við Háskóla Íslands

Fundarslit og samantekt. Guðmundur Hálfdanarson, formaður ráðgefandi nefndar Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands og forseti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands.

Fundarstjóri var Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands. 

 

Grunnskólakrakkar í háskólarannsókn á Laugarvatni

Rannsóknir á fuglum eru mjög mikilvægar vegna þess að þær endurspegla ástand vistkerfa auk þess að gefa skarpa mynd af breytingum í lífríkinu vegna sviptinga í lofslagi. Nú er hafið mjög spennandi verkefni við Bláskógaskóla á Laugarvatni þar sem unglingastig skólans vinnur með Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Suðurlandi að því að meta áhrif árferðis og loftslagsbreytinga á fuglastofna í nágrenni við vatnið.

„Til að mæla þessar breytingar fara krakkarnir út vikulega og telja fugla í ýmsum búsvæðum á og við Laugarvatn,“ segir Tómas Grétar Gunnarsson, sem er forstöðumaður rannsóknasetursins en hann leiðir verkefnið ásamtfuglafræðingnum Böðvari Þórissyni, sem einnig starfar við rannsóknasetrið og grunnskólakennurunum Hallberu Gunnarsdóttur og Guðna Sighvatssyni við Bláskógaskóla.

Í stefnu Háskóla Íslands er hvatt til gagnkvæms samstarfs við fyrri skólastig og þetta verkefni er svo sannarlega að uppfylla það markmið með mjög frumlegum hætti. Í þessu verkefni styðja grunnskólanemar nefnilega við mikilvægar rannsóknir á háskólastigi og raunar gott betur því þeir taka beinan þátt í þeim.

Tómas Grétar segir að talningarnar nýtist á fjölbreyttan hátt í kennslunni en fuglatalningarnar eru hluti af sérhæfðu útinámi við Bláskógaskóla á Laugarvatni.  „Auk þess að byggja upp þekkingu á náttúrufræði er hægt að nota upplýsingarnar sem fást í verkefninu í fleiri fögum til dæmis landafræði og stærðfræði.“

Miklar sviptingar í lífríki vegna loftslagsbreytinga

Að Tómasar sögn hófst verkefnið í fyrra og þótti gefa það góða raun að því er haldið áfram núna í haust af miklum krafti.

„Ef reglubundnum mælingum af þessu tagi er haldið til streitu um lengri tíma má meta breytingar á komutíma farfugla, á stofnstærðum og á samsetningu fuglafánunnar. Hnattrænar breytingar á náttúrufari eru settar saman úr staðbundnum atburðum og ferlum og því leggja mælingar sem þessar til mikilvægar upplýsingar sem nýtast til náttúruvöktunar.“

Tómas Grétar segir að miklar breytingar séu að verða á lífríki jarðar vegna loftslagsbreytinga og eyðingar búsvæða. „Breytingar á komutíma farfugla að vori eru afar augljós merki um áhrif loftslagsbreytinga á náttúrufar. Fjöldi rannsókna í Evrópu og Ameríku, m.a. á Íslandi, hefur sýnt að farfuglar koma æ fyrr á varpstöðvar með hlýnandi veðri. Þetta á einkum við um skammdræga farfugla en síður um langdræga. Þá benda rannsóknir til að breytingar á fartíma séu tengdar stofnstærðum á þann hátt að það fækki síður í fuglastofnum sem geta frekar aðlagað fartíma sinn að breyttum skilyrðum . Fuglar eru áberandi og auðþekktir miðað við flesta hópa dýra  og eru því ákjósanlegur mælikvarði og viðfangsefni rannsókna. Þá eru fuglar gjarnan ofarlega í fæðukeðjum,“ segir Tómas,  og fuglarannsóknir gefa þannig vísbendingar um atburði á neðri fæðuþrepum.“

Krakkarnir mjög áhugasamir

Í stefnu Háskóla Íslands er hvatt til að auka áhuga nemenda á öllum skólastigum á vísindum og fræðum og hér er sannarlega unnið í þeim anda. Nemendur grunnskólans á Laugarvatni hafa verið mjög áhugasamir um verkefnið enda er rannsóknin sjálf spennandi og fuglarnir heilla krakkana eins og reyndar flest fólk.  Mjög margir njóta þess að horfa á fugla og tengja þá við árstíðir, komu vorsins þegar farfuglar þyrpast til landsins, og haustsins þegar þeir fljúga aftur utan. „Fuglar eiga undir högg að sækja eins og fleiri þættir lífríkisins. Aukin þekking sem fæst með rannsóknum er besta leiðin til að stemma stigu við slíkri hnignun. Það er því ánægjulegt að geta sameinað ánægjulega útiveru, nám og mikilvægar rannsóknir á náttúrunni í verkefninu, þvert á skólastig,“ segir Tómas Grétar.  

 

Ljósmyndir tók Kristinn Ingvarsson, ljósmyndari Háskóla Íslands. 

Varp tjaldsins brást algerlega á Suðurlandi

„Þetta sumar var gríðarlega þurrt á Suðurlandi og varla kom dropi úr lofti. Við sáum í rannsóknum okkar hvernig fullorðnir fuglar, sem halda til á túnum sunnan lands, áttu í gríðarlegum erfiðleikum með að finna æti fyrir ungana og jafnvel sjálfa sig.“

Þetta segir Verónica Méndez Aragón sem er nýdoktor við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi.  Hún hefur varið stórum hluta af sínum vísindaferli hér við að rannsaka þennan fallega vaðfugl. Rannsóknirnar hófust af fullum þunga sumarið 2015 og hafa verið fjármagnaðar af Rannís og breska rannsóknaráðinu NERC. Verónica vinnur rannsóknirnar í samstarfi við teymi af vísindafólki og áhugamönnum. José Alves sem er gestavísindamaður við Rannsóknasetrið hefur m.a. unnið náið með henni. 

Þau segja að í sumum tilvikum hafi tjaldurinn algerlega hætt við varp þar sem hann hafði ekkert aðgengi að fæðu og á svæðum inn til landsins þar sem tjaldar reiða sig á ánamaðka hafi verið mikill ungadauði í þurrkunum í sumar.

Verónica segir að á Íslandi noti tjaldar einkum tvenns konar búsvæði. Hluti stofnsins haldi sig gjarnan í fjörum og á leirum eða lítt grónum svæðum við strendurnar. Þessir tjaldar lifa á því sem fjörurnar færi þeim og er það mest kræklingur og annar skelfiskur. Aðrir tjaldar sæki í tún og graslendi en þeir verpi flestir inn til landsins. 

Tjaldurinn er einkar áberandi í íslenskri náttúru því hann er stór og stendur gjarnan upp úr melunum, svartur og hvítur, með sinn langa rauðgula gogg og rauðbleika háa fætur. Hann á það líka til að verpa þar sem hann virðist alveg berskjaldaður en margir taka eftir honum á eggjum á vegöxlum, jafnvel við fjölförnustu þjóðvegi landsins. 

„Tjaldur er sérkennilegur vegna þess að ólíkt öðrum vaðfuglum, þá fóðra fullorðnir fuglar ungana en láta þá ekki um að bjarga sér upp á eigin spýtur. Ungarnir eru af þessum sökum gjarnan vel fóðraðir þar sem fullorðnir fuglar þekkja varplandið gríðarlega vel og þá möguleika sem svæðið býður upp á varðandi það að finna æti.“ 

Verónica segir að sunnanlands sé stærstur partur af stofninum í túnum og graslendi og þar hafi nánast verið um náttúruhamfarir að ræða fyrir þennan fugl í sumar. „Það var mjög óvenjulegt ástand því það skorti algerlega úrkomu, vatnsborð varð þannig mjög lágt í tjörnum og skurðum, og tjaldurinn gat hvergi grafið sig í gegnum grjótharðan jarðveginn, hann var svo þurr. Þetta er langversti varpárangur tjaldsins á þessu svæði frá því við hófum rannsóknir okkar árið 2015. Strandfuglarnir á hinn bóginn, á Norðurlandi vestra og í Hvalfirði, stóðu sig afar vel eins og í öðrum árum, sem er léttir fyrir mig,“ segir Verónica og brosir. 

„Hugsaðu þér sumar án unga!“

Málþing á Skagaströnd 13. apríl nk: Selir og samfélag við Húnaflóa í fortíð, samtíð og framtíð

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra býður til opins málþings um margslungið samband manna og sela við Húnaflóa í fortíð, samtíð og framtíð. Á málþinginu munu koma saman fræðimenn af ýmsum sviðum sem eiga það sameiginlegt að stunda rannsóknir á Norðurlandi vestra og deila rannsóknum sínum og niðurstöðum og kanna möguleikann á frekara samstarfi í framtíðinni. Málþingið er öllum opið og án endurgjalds. Fyrirlestrar munu fara fram á íslensku og ensku.

Að loknu málþingi verður haldið kvöldverðarboð með þátttakendum á veitingastaðnum Fellsborg á Skagaströnd. Verðið er 5900 kr á mann. Þeir sem vilja vera með í kvöldverðinum þurfa að skrá sig með því að hafa samband við Vilhelm Vilhelmsson, forstöðumann Rannsóknasetursins, fyrir 1. apríl næstkomandi. Hægt er að skrá sig með því að senda tölvupóst í netfangið vilhelmv@hi.is

Dagskrá / Programme

Laugardaginn 13. apríl 2019 / Saturday 13 April 2019

 

13:00-13:05 – Opening remarks by dr. Vilhelm Vilhelmsson, director of the University of Iceland Research Centre in Northwestern Iceland.

13:05-13:30 – Unnur Birna Karlsdóttir, „Umhverfissagnfræði sem aðferð í rannsóknum á sambúð manns og villtra dýra á Íslandi.“

13:30-13:55 - Sandra M. Granquist, „The triangle drama; an ecological perspective of anthropogenic interactions with seal populations in Iceland“.

13:55-14:20 – Vilhelm Vilhelmsson, „Selveiðar við Húnaflóa: Sögulegt yfirlit“.

14:20-14:45 – Helen ßler, „Under water vocalisations of harbour seals in Húnaflói“.

14:45-15:15 – Coffee break

15:15-15:40 – Dagrún Ósk Jónsdóttir, Eiríkur Valdimarsson og Jón Jónsson, „Yfirnáttúrulegar sagnir um seli“.

15:40-16:05 –Jessica Faustini Aquino, Sandra Magdalena Granquist and Georgette Leah Burns, „An Ethical Framework for Seal Watching Management Development“.

16:05-16:30 - Jessica Faustini Aquino, „Neolocalism and Seal Watching Tourism Development“.

16:30-17:00 – Discussion

17:00-18:00 – Closed meeting/discussion for participants

18:00 – Conference dinner

 

 

Jón Jónsson ráðinn verkefnisstjóri við Rannsóknasetur HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu

Jón Jónsson þjóðfræðingur hefur verið ráðinn verkefnisstjóri Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofu. Starfið var auglýst í júli sl. og bárust þrjár umsóknir. Jón er með meistarapróf í þjóðfræði frá Háskóla Íslands. Áður en hann kom til starfa við rannsóknasetrið starfaði hann sem menningarfulltrúi Vestfjarða í tæpan áratug. Þar áður rak Jón rekið eigið fyrirtæki á sviði miðlunar sögu og þjóðfræða. Jón hefur stundið margvíslegar rannsóknir í þjóðfræði og nýverið gaf Háskólaútgáfan út bók hans Á mörkum mennskunnar. Viðhorf til förufólks í sögnum og samfélagi.

Jón hefur gegnt tímabundnu starfi við rannsóknasetrið síðustu tvö árin eða frá því að setrinu var komið á fót haustið 2016. Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Ísland, segir að með ráðningunni sé starfið orðið ótímabundið og þannig mikilvægt skref tekið til að festa starfsemi Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu enn betur í sessi.

Með samningi mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands í ársbyrjun 2016 var sett af stað vinna við að greina tækifæri og leiðir við að koma rannsóknasetrinu á fót, en áður hafði Strandagaldur staðið fyrir rekstri Þjóðfræðistofu á Hólmavík. Á grunni þessarar vinnu varð úr að ráðuneytið fól Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands að hefja starfsemi rannsóknaseturs í þjóðfræði á Ströndum, í náinni samvinnu við heimamenn. Að hluta til er byggt á þeim góða grunni sem áður hafði verið lagður með starfsemi Þjóðfræðistofu Strandagaldurs. Aðsetur rannsóknasetursins er í Þróunarsetrinu á Hólmavík.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofa er eitt af níu rannsóknasetrum Háskóla Íslands um landið. Viðfangsefni þeirra eru fjölbreytt, en á meðal þeirra eru lífríki hafsins, umhverfi og landnýting, hvalir, fiskar og fuglar, ferðamál, bókmenntir, sagnfræði, fornleifafræði og þjóðfræði.

Markmið Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands er m.a. að stuðla að rannsóknum, menntun og leiðbeiningu framhaldsnema víða um land og vera vettvangur samstarfsverkefna háskólans við nærumhverfi og nærsamfélög setranna. Með þeim hætti leggja rannsóknasetrin sitt af mörkum við að efla tengsl Háskóla Íslands við atvinnu- og þjóðlíf. Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands býður Jón Jónsson hjartanlega velkominn til starfa.

Pages

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is