Suðurnes

Fjölmennur ársfundur í Reykjavík

Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands var haldinn í Reykjavík 30. mars sl. Fjöldi erinda var fluttur að viðstöddu fjölmenni. 

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, setti fundinn. Að því loknu voru flutt fróðleg erindi um viðfangsefni sem tengjast rannsóknum sem unnar eru við eða í tengslum við setrin. Fyrstu fjögur erindin tengdust ýmsum hliðum ferðaþjónustu:

Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor í ferðamálafræði við HÍ, fjallaði um samspili ferðaþjónustu og virkjana; Gyða Þórhallsdóttir, doktorsnemi í ferðamálafræði við HÍ, sagði frá greiningu á fjölda ferðamanna og hvert þeir leggja leið sína; Lilja B. Rögnvaldsdóttir, verkefnisstjóri við Rannsóknasetur HÍ á Húsavík, sagði frá könnun á væntingum ferðamanna til valinna áfangastaða og loks fjallaði Eyrún Jenný Bjarnadóttir hjá Rannsóknamiðstöð ferðamála um samfélagsleg áhrif ferðaþjónustu.

Allt eru þetta viðfangsefni sem tengjast umræðu um stöðu ferðaþjónustunnar og þróun hennar,  niðurstöðurnar eru fróðlegar fyrir alla sem áhuga hafa á málefninu auk þess sem rannsóknirnar gefa mikilsverðar upplýsingar sem geta komið að góðum notum við stefnumótun í greininni.

Eftir hlé var m.a. sagt frá rannsóknum á sviði bókmenntafræði og fornleifafræði. Soffía Auður Birgisdóttir, bókmenntafræðingur við rannsóknasetur HÍ á Hornafirði, velti fyrir sér hvað fræðimaður gerir sem rekist hefur á spennandi rannsóknarefni þar sem heimildir eru af skornum skammti. Erindið tengist rannsókn á heimildum um Guðrúnu Sveinbjarnardóttur Egilssonar (f.1831) sem „varð fyrir því óláni“ að kynferði hennar var rangt skilgreint við fæðingu og „hlaut hún að búa við það alla ævi“ eins og segir í einni heimildinni.

Ragnar Edvardsson, fornleifafræðingur við rannsóknasetur HÍ á Vestfjörðum, sagði síðan frá rannsóknum sínum á minjastöðum sem tengjast hvalveiðum Dana, Hollendinga, Norðmanna og fleiri þjóða við Ísland á 19. öld. Í fyrirlestrinum verður fjallað um rannsókninar á hvalveiðistöðvunun og greint frá vel heppnuðu samspili fræðilegra rannsókna, nýtingaráætlunar og ferðamennsku.

Að lokum flutti Sigurður Sigursveinsson, framkvæmdastjóri Háskólafélags Suðurlands, erindi sem hann nefndi Þekkingin og byggðirnar. .

Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands starfrækir rannsóknasetur á Hornafirði, Suðurlandi, Suðurnesjum, Snæfellsnesi, Vestfjörðum, Ströndum, Norðurlandi vestra og Norðausturlandi. Þá vinnur akademískur starfsmaður að rannsóknum á vegum stofnunarinnar á Austurlandi.

Á vegum rannsóknasetranna eru stundaðar fjölbreyttar rannsóknir. Meðal viðfangsefna eru lífríki hafsins, umhverfi og landnýting, hvalir, fiskar og fuglar, auðlindir, ferðamál, bókmenntir, sagnfræði, fornleifafræði og þjóðfræði. Allt eru þetta rannsóknasvið sem mikill áhugi er á um allt land og gefa tilefni til samstarfs milli setranna við Háskóla Íslands í Reykjavík, sem og aðrar rannsóknastofnanir hérlendis og erlendis. Nánari upplýsingar um starfsemi rannsóknasetra Háskóla Íslands má finna í ársskýrslu stofnunarinnar. 

Myndir á ársfundinum tók Kristinn Ingvarsson ljósmyndari.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, setti ársfundinnFjölmennt var á fundinumFjölmenni sótti fundinnFjölmenni sótti fundinnJörundur Svavarsson, prófessor og formaður ráðgefandi nefndar Stofnunar rannsóknsetra HÍ, var fundarstjóri. Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor í ferðamálfræði, flutti erindið: Ferðaþjónusta og virkjanir sem gerendur í byggðaþróun.Anna Dóra svarar spurningum úr sal. Gestir ársfundarinsGestir ársfundarins hlustuðu granntFjölmennt var á ársfundinum,Fjölmennt var. Gyða Þórhallsdóttir doktorsnemi flutti erindið: Ferðamenn – Hvert fara þeir?Lilja B. Rögnvaldsdóttir, verkefnisstjóri við Rannsóknasetur HÍ á Húsavík, flutti erindið: Hver var þetta og hvað vildi hann? Erlendir ferðamenn á Húsavík, Siglufirði, Höfn og í Mývatnssveit sumarið 2015.

Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra 30. mars 2017 í Þjóðminjasafni Íslands

Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands verður haldinn í sal Þjóðminjasafns Íslands fimmtudaginn 30. mars 2017.  Ársfundurinn hefst kl. 13.30 og dagskrá lýkur kl. 16.  Fundurinn er opinn öllum en gestir eru beðnir að skrá sig hér.

Dagskrá:

13.30 Setning ársfundar.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

13.45 Ferðaþjónusta og virkjanir sem gerendur í byggðaþróun.

Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor í ferðamálafræði við Háskóla Íslands.

14.00 Ferðamenn – Hvert fara þeir?

Gyða Þórhallsdóttir, doktorsnemi Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.

14.15 Hver var þetta og hvað vildi hann? Erlendir ferðamenn á Húsavík, Siglufirði, Höfn og í Mývatnssveit sumarið 2015

Lilja B. Rögnvaldsdóttir, verkefnisstjóri við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík. 

14.30 „Maður getur átt von á öllu mögulegu“. Um áhrif ferðaþjónustu í einstökum samfélögum.

Eyrún Jenný Bjarnadóttir, Rannsóknamiðstöð ferðamála.

14.45 Kaffi

15:15 Heimildarýni, speglanir og spuni. Hvað getur fræðimaður leyft sér?

Soffía Auður Birgisdóttir, sérfræðingur við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði.

15.30 Frá fornleifafræðilegum rannsóknum að hagnýtri stýringu og ferðaþjónustu: dæmi af hvalveiðistöðvum.

Ragnar Edvardsson, sérfræðingur við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum.

15.45 Þekkingin og byggðirnar

Sigurður Sigursveinsson, framkvæmdastjóri Háskólafélags Suðurlands.

16.00 Samantekt.

Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands.

Fundarstjóri: Jörundur Svavarsson, prófessor og formaður ráðgefandi nefndar Stofnunar rannsóknasetra HÍ.

 

Gestir eru vinsamlega beðnir að skrá sig á sérstöku eyðublaði. Skráningu lýkur 28. mars nk.

Hvatningarverðlaun ferðaþjónustunnar veitt Rannsóknasetri HÍ á Suðurnesjum og Vitanum

Á dögunum fengu Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum og veitingahúsið Vitinn Hvatningaverðlaun ferðaþjónustunnar á Suðurnesjum 2017. Verðlaunin voru veitt fyrir farsælt samstarf undanfarin ár varðandi grjótkrabba. Þar hafa fléttast saman annars vegar rannsóknir af hálfu arnnsóknasetursins á grjótkrabba og landnámi hans hér við land og hins vegar þróun á hagnýtingu krabbans á Vitanum þar sem krabbaveislur hafa notið mikilla vinsælda innlendra sem erlendra gesta.

Nánar má lesa um afhendingu verðlaunanna hér

Nýtt rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum stofnað

Nýtt rannsóknasetur, Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum - Þjóðfræðistofa, hefur verið sett á laggirnar. Rannsóknir í þjóðfræði verða þar í öndvegi og sérstök áhersla á miðlun og hagnýtingu þjóðfræðilegrar þekkingar. Rannsóknasetrið er staðsett á Hólmavík.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum er hluti af Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands en innan stofnunarinnar eru fyrir sjö rannsóknasetur víða um land, á Suðurnesjum, Snæfellsnesi, Vestfjörðum, Norðurlandi vestra, Húsavík, Hornafirði og Suðurlandi. Viðfangsefni rannsókna sem setrin standa fyrir eru fjölbreytt, en á meðal þeirra eru lífríki hafsins, umhverfi og landnýting, hvalir, fiskar og fuglar, ferðamál, bókmenntir, sagnfræði, fornleifafræði og nú þjóðfræði.

Með samningi mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands frá byrjun ársins 2016 var sett af stað vinna við að greina tækifæri og leiðir við að koma rannsóknasetrinu á fót. Áður hafði Strandagaldur ses staðið fyrir rekstri þekkingarsetursins Þjóðfræðistofu á Hólmavík frá árinu 2008, en starfsemi hennar hafði lagst af. Á grunni þessarar vinnu varð úr að ráðuneytið fól Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands að hefja starfsemi þessa nýja rannsóknaseturs, í góðri samvinnu við heimamenn og að hluta til er byggt á þeim góða grunni sem áður hefur verið lagður með starfsemi Þjóðfræðistofu Strandagaldurs.

Jón Jónsson þjóðfræðingur hefur verið ráðinn verkefnisstjóri Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofu og hóf hann störf í byrjun mánaðarins. Jón hefur síðustu árin starfað sem menningarfulltrúi Vestfjarða. Aðsetur rannsóknasetursins er í Þróunarsetrinu á Hólmavík.

Strandamenn ætla að fagna stofnun Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofu strax um helgina. Laugardagskvöldið 10. september verður haldin þjóðtrúarkvöldvaka í samvinnu hins nýja seturs og Sauðfjárseturs á Ströndum sem ber yfirskriftina Leyndardómar fjörunnar, þjóðtrú, ótti og óhugnaður. Jón Jónsson mun þar segja frá þjóðtrú og þjóðsögum tengdum heimsóknum ísbjarna til landsins og heitir erindi hans: Ísbirnir éta ekki óléttar konur! Á kvöldvökunni flytja einnig erindi þjóðfræðingarnir Dagrún Ósk Jónsdóttir og Kristinn H.M. Schram sem var fyrsti forstöðumaður Þjóðfræðistofu Strandagaldurs. Kvöldvakan verður í félagsheimilinu Sævangi og hefst kl. 20:00.

--------
Nánari upplýsingar gefur Jón Jónsson (jonjonsson@hi.is / gsm: 831 4600), verkefnisstjóri Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofu.

Vel sóttur ársfundur í Stykkishólmi

Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands var haldinn í Stykkishólmi 15. apríl sl. Í ár eru tíu ár frá stofnun Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Snæfellsnesi og flutti Jón Einar Jónsson forstöðumaður setursins yfirlitserindi þar sem hann sagði frá rannsóknum á æðarfugli sem stundaðar hafa verið við setrið.  Afrakstur rannsóknanna byggja m.a. á góðu samstarfi við æðarbændur, heimamenn, sveitarfélagið og Náttúrustofu Vesturlands. Með samstarfi og stuðningi þessara aðila má ná miklum árangri í starfi háskólastarfsemi á landsbyggðinni eins og sýnir sig með Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Snæfellsnesi. Á ársfundinum voru flutt áhugaverð erindi sem mörg hver tengdust lífríki Breiðafjarðar, önnur um náttúru og nytjar í víðum skilningi og umgengni mannsins við náttúruna. 

Að loknum ávörpum Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, og Sturlu Böðvarssonar, bæjarstjóra Stykkishólmbæjar, flutti Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands, erindi um hringrásarhagkerfið. Þá fjallaði Róbert Arnar Stefánsson, forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands, um hina auðugu þörungaskóga Breiðafjarðar í erindi sem hann nefndi „Regnskógar norðursins.“ Aldís Erna Pálsdóttir sagði frá afráni á æðarhreiðrum í Breiðafirði, en hún lauk nýlega meistaraprófi í líffræði frá Háskóla Íslands. Unnur Birna Karlsdóttir, sérfræðingur við starfsstöð Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands á Egilsstöðum, fjallaði um rannsókna sína á sögu hreindýra á Íslands í erindi sínu og Hrönn Egilsdóttir, doktorsnemi við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands, fjallaði um súrnun sjávar í erindi sínu ,,Súrnun sjávar við Íslands. Rannsóknir og staða þekkingar." 

Að dagskrá lokinni var haldið í Æðarsetur Íslands sem opnar innan skamms í Stykkishólmi. Nánari upplýsingar um dagskrá fundarins er að finna á vefsíðu Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands.

Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands starfrækir rannsóknasetur á Hornafirði, Suðurlandi, Suðurnesjum, Snæfellsnesi, Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Norðausturlandi. Þá vinnur akademískur starfsmaður að rannsóknum á vegum stofnunarinnar á Austurlandi.

Á vegum rannsóknasetranna eru stundaðar fjölbreyttar rannsóknir. Meðal viðfangsefna eru lífríki hafsins, umhverfi og landnýting, fiskar og fuglar, auðlindir, ferðamál, bókmenntir, sagnfræði og fornleifafræði. Allt eru þetta rannsóknasvið sem mikill áhugi er á um allt land og gefa tilefni til samstarfs milli setranna við Háskóla Íslands í Reykjavík, sem og aðrar rannsóknastofnanir hérlendis og erlendis. Nánari upplýsingar um starfsemi rannsóknasetra Háskóla Íslands má finna í ársskýrslu stofnurinnar.

Myndir á ársfundinum tók Kristinn Ingvarsson ljósmyndari.

Jón Einar Jónsson forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Snæfellsnesi

Sturla Böðvarsson bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar

Jón Atli Benediktsson rektors Háskóla Íslands

 

Ársskýrsla Stofnunar rannsóknasetra 2015

Ársskýrsla Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands 2015 er komin í birtingu á vef stofnunarinnar. Skýrslan er ríkulega myndskreytt og greinir frá helstu áföngum í starfsemi rannsóknasetra Háskóla Íslands á landsbyggðinni á árinu 2015. Ársskýrslan er að venju gefin út í tengslum við ársfund Stofnunar rannsóknasetra HÍ en hann er að þessu sinni haldinn í Stykkishólmi í tilefni af því að 10 ár eru síðan Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi tók til starfa.

Ársfundurinn verður í Hótel Stykkishólmi föstudaginn 15. apríl og hefst dagskráin kl. 13.  Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra setur fundinn og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og Sturla Böðvarsson, bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar, flytja ávörp. Á fundinum verða flutt fjölbreytt og áhugaverð erindi sem öll tengjast náttúru og nytjum, en nánar má fræðast um dagskrá ársfundarins á vefsíðu Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands .

Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra 2016 haldinn í Stykkishólmi 15. apríl nk.

Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands verður haldinn í Stykkishólmi föstudaginn 15. apríl nk. Fundurinn fer fram á Hótel Stykkishólmi.

Unnið er að dagskrá og nánari tilhögun ársfundarins. Við sama tækifæri verður 10 ára afmæli Rannsóknaseturs HÍ á Snæfellsnesi fagnað. Gera má ráð fyrir að ársfundurinn hefjist um hádegisbil og standi fram eftir degi. Boðið verður upp á sætaferðir frá Aðalbyggingu Háskóla Íslands í Stykkishólm og tilbaka.

Ömmur á faraldsfæti

RIKK – Rannsóknarstofnun í jafnréttisfræðum – stóð á vormisseri 2015 fyrir hádegisfyrirlestraröð sem helguð var ömmum í tilefni 100 ára kosningaréttar kvenna á Íslandi. Markmiðið var að segja sögur kvenna sem lifðu þann tíma þegar nútíminn hóf innreið sína á Íslandi, í lok 19. aldar og á fyrri hluta 20. aldar, og varpa ljósi á framlag þeirra, stöðu og aðstæður.
 

Tuttugasta öldin var öld baráttu fyrir borgaralegum réttindum, þar á meðal kvenréttindum en fyrsta bylgja femínisma skilaði atkvæðarétti til kvenna víða um heim á fyrstu áratugum 20. aldar. Í fyrirlestraröðinni var fjallað um sögu, hugmyndaheim og aðstæður þessara kvenna og efnið sett í kenningalegt en jafnframt persónulegt samhengi.

 

Fræðimenn úr ýmsum greinum tengdu rannsóknarefni sín við ömmur/langömmur sínar og/eða konur sem tengdust þeim með einum eða öðrum hætti. Fjallað var um breiðan hóp kvenna með ólíka búsetu, menntun og menntunarmöguleika, af ólíkri stétt; þekktar sem óþekk(t)ar. Nánari upplýsingar um fyrirlestraröðina er að finna á vefsíðu RIKK.


Skemmst er frá því að segja að fyrirlestraröðin vakti mikla athygli og segja má að aðsókn á hana sé dæmalaus. Svo fór að fyrirlestrarnir voru fluttir í stærstu salarkynni Háskóla Íslands og dugði varla til. Af þessu spratt sú hugmynd að flytja fyrirlestrana úti á landi, til að fleiri mættu njóta þeirra, í samstarfi við Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands og á Vestfjörðum í samstarfi við Prófessorsembætti Jóns Sigurðssonar og á Akureyri í samstarfi við Hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri. Einnig var ákveðið að leita til heimamanna til að taka þátt í viðburðunum.

 

Nú í september verða því fluttir fyrirlestrar úr fyrirlestraröðinni á eftirfarandi stöðum:
• Rannsóknarsetur HÍ, Skagaströnd, 12. og 19. september 

• Rannsóknarsetur HÍ, Vestfjörðum og prófessorsstaða Jóns Sigurðssonar, Ísafirði, 19. september 

• Rannsóknarsetur HÍ, Hornafirði, 26. september 

• Háskólinn á Akureyri, 26. september

 

Nánari upplýsingar um hvern fyrirlestur verða veittar fljótlega.

Fyrirlestradagur á Skagaströnd 19. september

Laugardaginn 19. september heldur Rannsóknasetur HÍ á Norðurlandi vestra Fyrirlestradag á Skagaströnd í samstarfi við Rannsóknastofu í jafnréttisfræðum. Dagskráin verður frá kl. 13:30 til 16:30 í Bókasafni Halldórs Bjarnasonar, Gamla kaupfélagshúsinu, Einbúastíg 2 á Skagaströnd. Heitt verður á könnunni og eru allir velkomnir.

Dagskrá:
13:30-14.00     Páll Sigurðsson prófessor ermeritus: Tveir norðlenskir lögskýrendur – Lögbókarskýringar Páls lögmanns Vídalíns og Björns Jónssonar, bónda og fræðimanns á Skarðsá
14:00-14:30    Nanna Þorbjörg Lárusdóttir sagnfræðingur: Góðtemplarastúkurnar og áhrif mótandi orðræðu
14:30-15:00    Vilhelm Vilhelmsson sagnfræðingur: Að halda friðinn. Um sáttanefndir í Húnavatnssýslu  og störf þeirra á 19. öld
15:00-15:30     Kaffihlé og umræður
15:30-16:10    Súsanna Margrét Gestsdóttir sagnfræðingur segir frá ömmu sinni í tilefni 100 ára kosningarafmælis kvenna:  Það var sól þann dag –  um Súsönnu Margréti Gunnarsdóttur frá Norðurfirði á Ströndum (1926-2002)
Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröðinni „Margar myndir ömmu“ sem Rannsóknastofa í Jafnréttisfræðum (RIKK) heldur og styrkt er af framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna.
16:10-16:20    Umræður og dagskrárlok

 

Doktorsvörn í líffræði: Óskar Sindri Gíslason og grjótkrabbinn

Þriðjudaginn 9. júní ver Óskar Sindri Gíslason doktorsritgerð sína í líffræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Landnám grjótkrabba (Cancer irroratus) við Ísland (Invasion of the Atlantic rock crab (Cancer irroratus) in Icelandic waters).
 
Andmælendur eru dr. Erik Bonsdorff, prófessor við Åbo Akademi University í Turku í Finnlandi, og dr. Bernd Hänfling, vísindamaður við Háskólann í Hull í Bretlandi.
 
Leiðbeinandi var dr. Jörundur Svavarsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.
Auk hans sátu í doktorsnefnd dr. Snæbjörn Pálsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, og dr. Halldór Pálmar Halldórsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum.
 
Dr. Eva Benediktsdóttir, dósent og deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni.
 
Ágrip af rannsókn
 
Í doktorsverkefninu eru landnámi grjótkrabba (Cancer irroratus) við Ísland gerð skil, útbreiðslu hans við landið, þéttleika og erfðabreytileika. Grjótkrabbinn fannst fyrst við Ísland árið 2006 í Hvalfirði. Fundur grjótkrabbans hér við land er um margt áhugaverður, ekki síst fyrir þá staðreynd að þetta er í fyrsta skipti sem tegundin finnst utan sinna náttúrulegu heimkynna sem liggja meðfram austurströnd Norður-Ameríku, frá Suður-Karólínu til Labrador í norðri. Hér er landnámi grjótkrabbans lýst frá því hann fannst fyrst hér við land og hvernig hann hefur breiðst út til dagsins í dag, en rannsóknir á útbreiðslu og þéttleika hafa farið fram bæði á fullorðnum einstaklingum, sem og lirfum. Samhliða rannsóknum á grjótkrabba hafa fengist mikilvægar grunnupplýsingar um þéttleika tveggja algengustu krabbategundanna á grunnsævi við Ísland, þ.e. bogkrabba (Carcinus maenas) og trjónukrabba (Hyas araneus).
 
Niðurstöður rannsóknanna sýna að grjótkrabbi er orðinn algengasta krabbategundin á mjúkum botni á grunnsævi við Suðvesturland. Útbreiðsluaukning krabbans hefur verið mjög hröð og þekur samfelld útbreiðsla hans nú um 50% af strandlengjunni, frá Faxaflóa til Vestfjarða, auk þess sem hann finnst á blettum allt norður í Eyjafjörð. Erfðafræðilegur breytileiki grjótkrabbans var skoðaður bæði innan hans náttúrulegu heimkynna í Norður Ameríku og við Ísland en þetta er í fyrsta skipti sem erfðabreytileiki innan tegundarinnar er skoðaður.
 
Niðurstöður rannsóknanna sýndu fram á að erfðabreytileiki innan Íslands er svipaður og í Norður-Ameríku. Jafnframt kom í ljós að erfðafræðileg aðgreining er meðal stofna sunnan og norðan Nova Scotia í Norður-Ameríku sem líklega má rekja til atburða sem áttu sér stað í kjölfar síðasta jökulskeiðs. Landnám og útbreiðsla grjótkrabbans við Ísland hefur gengið hratt fyrir sig og virðist honum vegna vel við Ísland. Hár erfðabreytileiki, skortur á landnemaáhrifum, hröð útbreiðsla og hár þéttleiki bæði lirfa og fullorðinna einstaklinga benda til að tegundin þrífist vel við Ísland og sé komin til að vera.
 
Óskar Sindri Gíslason er fæddur árið 1984 í Reykjavík. Hann lauk BS-gráðu í líffræði á braut fiskifræði  árið 2007 og MS-gráðu í sjávarlíffræði árið 2009 frá Háskóla Íslands. Óskar Sindri starfaði sem sérfræðingur við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum árin 2010 og 2011. Árið 2012 hóf hann doktorsnám í sjávarlíffræði með áherslu á landnám og uppruna grjótkrabba við Ísland. Samhliða náminu hefur hann sinnt kennslu í sjávar-, vatna- og
fiskavistræði, vistfræði og lífheiminum við Háskóla Íslands og í sjávarvistfræði við Háskólasetur Vestfjarða. Doktorsverkefnið var styrkt af Rannsóknasjóði Háskóla Íslands, Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og Vaxtarsamningi Suðurnesja.

 

http://www.hi.is/vidburdir/doktorsvorn_i_liffraedi_oskar_sindri_gislason

Pages

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is