Gestafræðimaður í Rannsóknasetri HÍ á Skagaströnd

Sumarið 2012 verður Vilhelm Vilhelmsson gestafræðimaður í Rannsóknasetrinu á Skagaströnd. Vilhelm leggur setrinu til aðstoð við uppsetningu Bókasafns Halldórs Bjarnasonar en  vinnur fyrst og fremst að doktorsritgerð sinni í sagnfræði við Háskóla Íslands. Rannsóknin heitir „Ögun, vald og andóf í íslensku samfélagi á nítjándu öld“ og beinist að valdaafstæðum íslensks nítjándu aldar samfélags þar sem gengið er út  frá því að gerendahæfni einstaklinga í fortíðinni og möguleikar þeirra til að skapa sér rými til sjálfræðis hafi verið meiri heldur en íslensk sagnritun hefur almennt gefið í skyn. Vilhelm beitir sjónarhorni lágt settra til þess að gera grein fyrir hversdagslegum birtingarmyndum þeirra valdaafstæðna og leggur áherslu á að fjölbreytileiki fortíðarinnar hafi verið talsverður sem og svigrúm einstaklinga til að hafa áhrif á eigið líf. Leiðbeinandi Vilhelms er Guðmundur Hálfdánarson, en hann gegnir prófessorsstöðu við Háskóla Íslands sem tengd er nafni Jóns Sigurðssonar.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is