Hólmavík - íbúabyggð og ferðamannastaður

Sumarið 2018 er unnið að hugmyndavinnu og skýrslugerð í verkefninu Hólmavík - íbúabyggð og ferðamannastaður, en vinna að því hófst á síðasta ári. Verkefnið er unnið á vegum Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu í samvinnu við sveitarfélagið Strandabyggð og framundan er einnig samvinna við Vestfjarðastofu innan vébanda Sóknaráætlunar Vestfjarða. 

Þrír starfsmenn Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu vinna að verkefninu í sumar, Jón Jónsson þjóðfræðingur og verkefnastjóri hjá setrinu, Guðrún Gígja Jónsdóttir MA-nemi í hagnýtri menningarmiðlun og Agnes Jónsdóttir þjóðfræðinemi. Þær tvær síðastnefndu eru ráðnar sérstaklega til Rannsóknasetursins til að vinna að verkefninu fram á haust, að hluta til með stuðningi Nýsköpunarsjóðs námsmanna. 

Í haust eiga að liggja fyrir útfærðar tillögur um margvíslegar umbætur á almannarýminu utanhúss á Hólmavík og miðlun sögu og fróðleiks um þorpið á áningarstöðum í því. Hugmyndavinnunni er ætlað að koma bæði Strandamönnum og ferðafólki til góða, auka lífsgæði íbúa og möguleika þeirra á að njóta útivistar. 

Fimmtudaginn 21. júní er haldin spjallfundur um verkefnið á Hólmavík sem allir eru velkomnir á. Þar verður rætt um hugmyndir sem fram hafa komið í tengslum við vinnuna og verkefnið kynnt fyrir þeim sem áhuga hafa. Í framhaldinu verður síðan leitað frekar til íbúa um tillögur og hugmyndir.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is