Heilsársþéttleiki og svæðaval hvala - rannsóknir með nýjum aðferðum

Doktorsnemandi: Edda Elísabet Magnúsdóttir

Aðferð 1: Talningar úr bátum

Talning fer fram á bátum sem sigla eftir línulegum sniðum 2 sinnum í mánuði í Skjálfandaflóa. Notast verður við þær aðferðir sem lýstar hafa verið af Buckland o.fl. (2001), Strindberg og Buckland (2004) og Dawson o.fl. (2008), bæði við hönnun sniða og við talningar. Norðursigling á Húsavík leggur til báta fyrir línulegar sniðatökur. Fjóra leitarmenn þarf í hverja sniðatöku, þá telja tveir í klukkutíma í senn svo hægt sé að hvíla leitarmenn. Leitað verður á einum leitarpalli þar sem leitast verður eftir að finna hlutfallslegan þéttleika í stað algilds þéttleika. Leitarpallur verður staðsettur ofan á stýrishúsi. Doktorsnemi og leiðbeinandi verða ávalt tveir þessara talningamanna, hinir tveir verða fastir og reyndir starfsmenn Norðursiglingar. Annar talningamaðurinn leitar beint áfram og um 90° aftur á stjórnborða á meðan hinn aðilinn leitar samtímis beint áfram og um 90° aftur á bakborða. Ekki verður talið ef sjólag fer yfir 2 stig (m.v. Beaufort skala). Þegar talningamenn koma auga á hval skrá þeir niður tímann, staðsetningu báts, hornstefnu hvals miðað við leitarlínu, nærtækustu fjarlægð hvals frá báti (með viðeigandi mælitæki), tegund hvals og áætlaðan fjölda séðra dýra. Skráður verður tími, vegalengd og hraði fyrir hvern legg sniðsins auk veðurlýsinga. 

Aðferð 2: Skráning hljóðmerkja frá hvölum samhliða sjónrænum talningum á bátum.

Til að auka marktækni þéttleikamatsins verða neðansjávarhljóðupptökutæki sem kallast Towed array, dregin á eftir talningabátunum um leið og talning fer fram. Towed array hljóðupptökutækin geta reiknað út fjarlægð og stefnu í dýrið sem gaf frá sér hljóð (Borchers o.fl. 2007). Tími hverrar sjónrænnar talningar er svo borinn saman við Towed array gögnin og kannað hvort samræmi sé í niðurstöðum aðferðanna tveggja.

Aðferð 3: Botnföst neðansjávarhljóðupptökutæki (Eyru)

Tvö botnföst neðansjávarhljóðupptökutæki, þróuð af Dr. Marc Lammers (University of Hawaii), verða notuð við rannsóknirnar. Þau kallast Ears eða Eyru. Tækjunum var komið fyrir í Skjálfandaflóa þann 3. september 2008, hvort um sig á algengum hvalaskoðunarstað. Hljóðupptökutækin, eða Eyrun, innihalda neðansjávarhljóðnema sem nemur hljóð á tíðnibilinu 1 Hz - 28 kHz, gögnin vistast jafnóðum á harðan disk. Gögn verða sótt af harða diskinum á 3 mánaða fresti, allt í allt verða Eyrun notuð yfir eins árs tímabil.

Aðferð 4: Talningar úr landi

Talið verður og fylgst með ferðum hvala frá Húsavíkurvita 2 – 4 sinnum í mánuði. Til þess notar doktorsneminn sjónhornamæli og sjónauka. Aðeins verður talið af landi þegar sjólag er 0 - 2 stig og skyggni gott. Sömu aðferðir sem Salo (2003) nýtti við rannsóknir sínar verða notaðar. Sjónhornamælirinn verður beintengdur við fartölvu og forritið Cyclops, sem þróað hefur verið af sérfræðingum við University of Newcastle (http://civilweb.newcastle.edu.au/cyclops/About.htm). Við þessar talningar er leitað á tilteknu svæði frá vinstri til hægri. Allir hvalir sem talningamaður kemur auga á verða skráðir inn á tölvuna. Talningarnar munu fylgja fyrirfram skilgreindu vinnuformi. Fylgt verður eftir algengustu tegundunum, eins og hnýðingum, hrefnum og hnúfubökum. Til að áætla hvort um einstaklingar eða hópa er að ræða verður notast við skilgreiningar Mann (1999). Einnig verður stuðst við Mann (1999) við val á hentugri aðferð fyrir hverja tegund, þegar t.d. smærri tannhvölum er fylgt eftir verður notast við group follow protocol en individual follow protocol við talningar á skíðishvölum líkt og hrefnu og hnúfubak.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is