Jón Einar Jónsson hlýtur framgang í starf vísindamanns

Jón Einar Jónsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Snæfellsnesi, hlýtur framgang í starf vísindamanns við Háskóla Íslands frá 1. júlí. Staðan er sambærileg við starfsheitið prófessor við deildir skólans.

Akademískir starfsmenn háskólans geta samkvæmt reglum skólans sótt um framgang í starfi fyrir 1. nóvember ár hvert. Er í höndum sérstakrar framgangsnefndar að leggja mat á umsóknirnar að fengnu áliti dóm- og framgangsnefnda fræðasviðanna og forseta þeirra.

Í stefnu Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands er ákvæði um starfsþróun en þar segir:

,,Starfsþróun er mikilvægur þáttur mannauðsstefnunnar og er lögð áhersla á að framgangur akademísks starfsfólks rannsóknasetranna verði í takt við það sem gerist annars staðar innan Háskóla Íslands. Þá verði einnig sérstakur gaumur gefinn að starfsþróun annarra starfsmanna setranna en akademískra sérfræðinga og þeir hvattir til að sækja sér sí- og endurmenntun."

 

 Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands óskar Jóni Einari hjartanlega til hamingju með árangurinn.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is