Landsbyggðarráðstefna þjóðfræðinga í Borgarnesi

Laugardaginn 27. maí næstkomandi verður blásið til landsbyggðarráðstefnu í Borgarnesi á vegum Félags þjóðfræðinga á Íslandi í samstarfi við Safnahús Borgarfjarðar og Rannsóknarsetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu. Hér gefst tækifæri fyrir fræðafólk á fræðasviðum félags- og hugvísinda að leiða saman hesta sína, miðla af þekkingu sinni og koma rannsóknum og niðurstöðum á framfæri út fyrir fræðasamfélagið. Allir sem áhuga hafa eru velkomnir á ráðstefnuna. 

Skráning og upplýsingar um dagskrána má finna undir þessum tengli. Fyrsti viðburður er í Safnahúsi Borgarfjarðar í Borgarnesi, en málstofur verða í Óðali, máltíðir á Landsnámssetrinu og söguganga um bæinn er einnig hluti af dagskránni. Meðfylgjandi mynd er af sýningunni Börn í 100 ár og fengin af Facebook síðu Safnahússins, en sýningin verður einmitt skoðuð og kynnt.

Ráðstefnan hefur yfirskriftina Borgarfjarðarbrúin og þemað á henni eru hópar og hvernig byggja má brýr á milli þeirra. Á okkar tímum eru miklar hræringar í samfélögum út um allan heim, eins og löngum hefur verið. Hópar og hópvitund er grundvöllur samfélaga hvort sem er í samtímanum eða fortíðinni og jafnframt lykilhugtök í þjóðfræði. Hópar eru af ýmsum toga, fjölmennir og fámennir, og öll tilheyrum við mörgum ólíkum hópum. Hugtök eins og minnihlutahópar, jaðarhópar, elítuhópar eða innflytjendur heyrum við öll í daglegri umræðu. Yfirskrift ráðstefnunnar vísar til allra þessa ólíku hópa sem byggja samfélög í nútíð og fortíð og hvernig líf fólks mótast af því hvaða hópum það tilheyrir og ekki síður hvaða hópum það tilheyrir ekki. Spurningin er hvað rannsóknir á sviði félags- og hugvísinda geta lagt af mörkum til að byggja brýr á milli hópa, auka skilning á áhrif þeirra á samfélög og draga fram þá sammannlegu þræði sem liggja um öll samfélög í gegnum ólíkar hópamyndanir.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is