Minnstu skógar geta haft áhrif á varp mófugla

Skógrækt á varpsvæðum mófugla eins og heiðlóu og spóa hefur ekki aðeins áhrif á varp á ræktunarsvæðinu sjálfu heldur einnig utan jaðars þess, óháð stærð og tegund skóga. Þetta er meðal þess sem rannsóknir doktorsnemans Aldísar Ernu Pálsdóttur við Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Suðurlandi hafa leitt í ljós og kynntar verða á ársfundi Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands.
 
Háskóli Íslands starfrækir níu rannsóknarsetur víða um land þar sem vísindamenn og nemendur vinna að forvitnilegum og blómlegum rannsóknum á jafnólíkum fræðasviðum og lífríki hafsins, umhverfi og landnýtingu, ferðamálum, bókmenntum, þjóðfræði og fornleifafræði, í góðu samstarfi við heimamenn. Á ársfundi Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands, sem fram fer fimmtudaginn 28. mars á Laugarvatni, veita starfsmenn setranna innsýn í starfsemina og í hópi fyrirlesara er Aldís Erna Pálsdóttir, doktorsnemi við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi.
 
Aldís vinnur að rannsókn á áhrifum breytinga á landnotkun á Íslandi á mófuglastofna sem verpa hér á landi, en í hópi þeirra eru þúfutittlingur og vaðfuglar eins og heiðlóa, hrossagaukur, tjaldur og stelkur. „Upphaflegt markmið rannsóknarinnar var að kanna áhrif svokallaðar landbútunar á fuglastofna, þ.e. þegar stór landsvæði eru brotin niður í smærri einingar með ýmiss konar uppbyggingu. Land víðast hvar í Evrópu er mikið bútað niður en Ísland er enn þá tiltölulega dreifbýlt og því er gott að skoða þessi byrjunarstig landbútunar og hvaða áhrif þau hafa á fugla hér á landi. Auk þess hýsir Ísland stóran hluta ýmissa vaðfuglastofna, eins og heiðlóu, og okkur ber því lagaleg skylda til að vernda búsvæði þessara tegunda. Ísland er því kjörið fyrir slíka rannsókn,“ segir Aldís.
 
Mófuglar kunna alla jafna vel við sig á opnum svæðum og Aldís bendir á að við uppbyggingu mannsins á varpsvæðum mófugla missi fuglarnir ekki einungis landið sem fer undir uppbygginguna heldur verða oft einnig svokölluð jaðaráhrif þannig að fuglarnir forðast uppbyggingarsvæði og missa þ.a.l. meira varpsvæði en uppbyggingin sjálf afmarkar. „Hingað til hef ég kannað þessi jaðaráhrif annars vegar í kringum skóga og hins vegar í og við sumarbústaðarlönd. Til þess að kanna þessi áhrif tel ég fugla nálægt þessum uppbyggingarstöðum og ber saman við fjölda fugla og tegundasamsetningu fjær uppbyggingarstöðunum,“ segir Aldís um rannsóknina.
 

Mófuglar forðast skógarjaðarinn

Aldís segir fyrstu niðurstöður rannsóknanna sýna að flestar tegundir mófugla forðast skógarjaðarinn. „Skógarþröstur og hrossagaukur fundust í meira mæli nálægt skóginum en tjaldur, jaðrakan, spói, heiðlóa, lóuþræll, stelkur og þúfutittlingur fundust frekar lengra frá skóginum og var þetta samband mjög marktækt. Það merkilega við þessar niðurstöður er að stærð skógar (hæð og breidd), þéttleiki hans og gerð trjáa hafði engin áhrif á þessa „fælni“ fuglanna sem bendir til þess að jafnvel minnstu skógar geti framkallað þessi áhrif,“ segir hún og bætir við að upplýsingarnar megi nýta til þess að skipuleggja framtíðaruppbyggingu skóga þannig að þeir hafi sem minnstan jaðar. „Þetta er t.d. hægt með því að hafa þá eins hringlaga og hægt er og einnig að rækta frekar færri en stærri skóga en marga trjáreiti hér og þar.“
 
Enn er verið að vinna úr niðurstöðum á áhrifum sumarhúsauppbyggingar á varp mófugla en þær benda að sögn Aldísar til þess að skógarþresti fjölgi þar sem húsum fjölgi en fjöldi hrossagauka breytist ekki með fjölda húsa. Þá séu vísbendingar um að hinar fimm tegundirnar, sem skoðaðar voru í rannsókninni, forðist hús að einhverju leyti. „Stefnt er að því að stórauka skógrækt á Íslandi og sumarhúsum fjölgar hratt og því gætu þessar niðurstöður rannsóknarinnar nýst til þess að skipuleggja áframhaldandi uppbyggingu á þann hátt að hún hafi sem minnst áhrif á fugla landsins,“ segir Aldís aðspurð um þýðingu rannsóknanna.
 
Aldís státar af bæði BS- og MS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands og aðspurð hvað heilli hana við fræðigreinina segir hún hnattræna hlýnun og þær breytingar sem fylgi henni fela í sér áskoranir sem hún vilji taka þátt í að leysa. „Jörðin er að taka miklum og hröðum breytingum með hækkandi hitastigi, súrnun sjávar og röskun á búsvæðum lífvera og okkur ber skylda til að reyna að vernda þær dýrategundir sem eftir eru. Með því að fara í líffræði og vinna að rannsóknum og birta niðurstöður þeirra get ég vonandi lagt mitt af mörkum til að vernda þær tegundir sem hér eru. Starfið sjálft hefur enn fremur mikla kosti. Ég kynnist fjölmörgu áhugaverðu fólki sem kemur til landsins til að safna gögnum fyrir rannsóknir og ég ver tveimur mánuðum á hverju sumri í útivinnu en á sama tíma er þetta krefjandi og ég tekst á við nýjar áskoranir á hverjum degi. Ég gæti ekki hugsað mér að gera neitt annað,“ segir hún að endingu.
 
Hægt er að fræðast frekar um rannsóknasetur Háskóla Íslands víða um land og ársfund Stofnunar rannsóknasetra á vef stofnunarinnar.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is