Mótun umhverfisstefnu í kvikum heimi - Ráðstefna á 16. -19.5. á Höfn og í Reykjavík

Mótun umhverfisstefnu í kvikum heimi

Í tilefni þess að nú í ár er liðinn áratugur frá stofnun Rannsóknaseturs Háskola Íslands á Hornafirði verður haldin alþjóðleg, þverfræðileg ráðstefna á Höfn og í Reykjavík dagana 16.-19. maí með heitið  Mótun umhverfisstefnu í kvikum heimi (e. Environmental Policy-making in a Dynamic World). Ráðstefnan er haldin í samvinnu við Nordic Network for Interdisciplinary Environmental Studies (NIES) og EDDU – öndvegissetur. Um fjörutíu fyrirlestrar verða haldnir á ráðstefnunni og hana sækja um 20 erlendir gestir.


Ráðstefnan verður tvískipt, fyrri hluti hennar fer fram dagana 16.-18. maí n.k. í Nýheimum á Höfn en síðari hlutinn í Odda (stofu 201) laugardaginn 19. maí. Sá hluti þingsins sem fram fer í Reykjavík verður með megináherslu á íslenskar rannsóknir á sviði umhverfishugvísinda. Lykilfyrirlesarar eru Sverker Sörlin, Kari Marie Norgaard, Steven Hartman, Þóra Ellen Þórhallsdóttir og Sigríður Þorgeirsdóttir.


Á ráðstefnunni (einkum þá í meginhluta hennar sem fram fer á Höfn) verður rætt um mótun stefnu í umhverfis- og náttúruverndarmálum frá margvíslegum hliðum - t.a.m. hvernig staðið er að slíkri stefnumótun, á hvaða forsendum hún byggir, hverjir hafa aðkomu að henni og hvort eða hvernig hægt er að móta heildstæða langtímastefnu innan margþætts málaflokks sem tekur sífelldum og oft örum breytingum á mörgum ólíkum sviðum - s.s. náttúrlegum, samfélagslegum og pólitískum. Sérstök áhersla verður lögð á þrjú undirþemu:


(1) Hlutverk og mikilvægi akademískra sérfræðinga í opinberri stefnumótun í umhverfismálum,
(2) Möguleika og takmarkanir þverfræðilegra vinnubragða í umhverfismálum, þ.m.t. við stefnumótun í málaflokknum,
(3) Samskipti umhverfis- og náttúruverndarsamtaka við stjórnvöld annars vegar og hið akademíska samfélag hins vegar.


Ráðstefnan fer fram á ensku. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill með húsrúm leyfir. Í tengslum við ráðstefnuna verða haldnar tvær sýningar á heimildarmyndinni Developing the Environmental Humanities en myndin, sem er enn í vinnslu, fjallar um starfsemi NIES og byggir á viðtölum við fyrirlesara á þeim fjölmörgu ráðstefnum sem netverkið hefur þegar staðið fyrir á Norðurlöndum.


Helstu styrktaraðilar ráðstefnunnar eru Nordforsk, Umhverfisráðuneytið, Háskóli Íslands, Sveitarfélagið Hornafjörður og Skinney-Þinganes ehf.
Nánari upplýsingar um dagskrá og fyrirlesara afmælisráðstefnunnar má finna i upplýsingabæklingi og á slóðinni https://edda.hi.is/
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is