Háskólalestin fær einstakar viðtökur

Háskólalestinni var tekið með kostum og kynjum þegar hún heimsótti tvo fyrstu áfangastaði ferðarinnar um síðustu helgi.

Lestin nam staðar í Stykkishólmi á föstudag og laugardag. Fyrri daginn tóku nemendur í 5. til 10. bekk Grunnskóla Stykkishólms þátt í Háskóla unga fólksins og sóttu námskeið í stjörnufræði, japönsku, jarðfræði, frumkvöðlafræðum, eðlisfræði og íþrótta- og heilsufræði.

Á laugardeginum var haldin mikil vísindaveisla í samstarfi við rannsóknastofnanir á svæðinu þar sem fjölbreytt og lifandi dagskrá heillaði alla aldurshópa.

Sunnudaginn 1. maí hélt Háskólalestin svo til Hvolsvallar þar sem önnur vísindaveisla var haldin í Hvolsskóla.

Heimamenn í Stykkishólmi og á Hvolsvelli tóku Háskólalestinni einkar vel eins og meðfylgjandi myndir bera með sér. Unga fólkið lét ekki sitt eftir liggja og brennandi áhuginn leyndi sér ekki. 

Lestin verður aftur á ferðinni á Hvolsvelli föstudaginn 6. maí þar sem nemendur í 5.-10. bekk Hvolsskóla taka þátt í Háskóla unga fólksins.

Í framhaldinu heldur Háskólalestin enn austar og nemur staðar á Höfn í Hornafirði dagana 13.-14. maí.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is