Háskólalestin leggur af stað um landið

Háskóli Íslands er skóli allra landsmanna og því er aldarafmæli skólans fagnað víða um land. Þar verður í fararbroddi svokölluð Háskólalest sem ferðast um landið með fjölbreytta dagskrá fyrir alla aldurshópa – viðburði og vísindi, fjör og fræði.

Fyrstu áfangastaðir Háskólalestarinnar eru Stykkishólmur og Hvolsvöllur en á ferðaáætlun lestarinnar í sumar eru samtals níu viðkomustaðir. Verkefnið er unnið í samstarfi við Rannsóknasetur HÍ á landsbyggðinni, Háskóla unga fólksins, Vísindavefinn, grunnskóla, sveitarfélög og fleiri. 

Heimsókn Háskólalestarinnar á hverjum áfangastað stendur yfirleitt í tvo daga, þann fyrri sækja grunnskólanemar margvísleg námskeið en síðari dagurinn er ætlaður gestum á öllum aldri. Viðkomustaðir lestarinnar verða Stykkishólmur, Hvolsvöllur, Höfn í Hornafirði, Skagaströnd, Húsavík, Bolungarvík, Egilsstaðir, Sandgerði og Seltjarnarnes. Dagskráin er sérsniðin að hverjum áfangastað.    

Vísindaveisla á Stykkishólmi 29. og 30. apríl
Í Stykkishólmi býðst nemendum í 5. – 10. bekk grunnskólans að  að sækja valin námskeið úr hinum vinsæla Háskóla unga fólksins föstudaginn 29. apríl. Þar kynnast nemendur japönsku, stjörnufræði, eðlisfræði, nýsköpun, íþrótta- og heilsufræði og jarðfræði.

Að morgni laugardagsins 30.apríl, kl 10:30, er boðið í fuglaskoðun undir leiðsögn sérfræðinga Rannsóknaseturs HÍ á Snæfellsnesi.

Klukkan 12 til 16 verður síðan efnt til sannkallaðrar vísindaveislu á Vísindavöku á Hótel Stykkishólmi. Í fjölbreyttri dagskrá er meðal annars sýning félaga úr Sprengjugenginu landsfræga, eldorgel, stjörnutjald, leikir, japönsk menning, Vísindavefur HÍ og undur jarðar, hafs og himins. Kynntar verða náttúrurannsóknir á Snæfellsnesi, rannsóknarkafbáturinn Gavia verður til sýnis og háfur verður krufinn.  Gestir geta kynnt sér radíósenditækni í minkum og skoðað krabba, fugla, fiska og spendýr svo fátt eitt sé nefnt.

Í stuttum fræðsluerindum kynnast gestir meðal annars bernskubrekum æðarblika, botndýrum við Íslandsstrendur, eðli minksins og ferðum geimfara um himingeiminn.  

Hvolsvöllur 1. og 6. maí
Á Hvolsvelli hefur verið undirbúin umfangsmikil dagskrá sunnudaginn 1. maí í Grunnskóla Hvolsvallar
kl. 13 til 17.

Þar verða sýnitilraunir af ýmsu tagi, Sprengju-Kári mætir á svæðið, teikniróla sýnd og stjörnutjald ásamt japanskri menningu.  Vísindavefur HÍ mætir á svæðið og kynnt verða undur jarðar og farið verður í spennandi úti- og innileiki fyrir alla fjölskylduna. Tónlist mun óma með eldorgelinu og Ástráður veitir góð ráð um ástina. Landgræðslustöð ríkisins að Gunnarsholti, Háskólafélag Suðurlands og Rannsóknasetur HÍ á Suðurlandi taka þátt í dagskránni með margvíslegum kynningum og viðburðum.

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, flytur erindi sem hann kallar „Gosið í Eyjafjallajökli, stórt eða lítið“ og sérfræðingar Rannsóknaseturs HÍ ræða m.a. um kjör kríunnar, ágengar plöntutegundir og margt fleira.

Föstudaginn 6. maí sækja nemendur 5. – 10. bekkjar Hvolsskóla námskeið í Háskóla unga fólksins í stjörnufræði, dönsku, kynjafræði, nýsköpun, jarðvísindum og stjórnmálafræði.

Vísindavefur Háskóla Íslands
er ötull samstarfsaðili Háskólalestarinnar og hafa grunnskólanemar í Stykkishólmi og á Hvolsvelli unnið að bæði spurningum og svörum fyrir vefinn.

Ferðaáætlun Háskólalestarinnar og nánari dagskrá

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is