Vísindavaka Rannís og Rannsókna- og fræðasetur HÍ

Rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands taka þátt í Vísindavöku Rannís og bjóða upp á Vísindakaffi í Sandgerði, í Kántrýbæ á Skagaströnd, á Höfn í Hornafirði og úti á sjó við Húsavik!

 

Mánudagur 20. september, kl. 17-19 Vísindakaffi á Húsavík.

Rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands á Norðausturlandi, Húsavíkurbær og Norðursigling bjóða ykkur öll velkomin á Vísindakaffi. Að þessu sinni munum við halda út á sjó og  bjóða gestum að kynnast hljóðum undirdjúpanna. Rannsókna-og fræðasetrið vinnur um þessar mundir með fjölbreyttar hljóðupptökuaðferðir við rannsóknir á hvölum. Haldið verður út á sjó frá bryggju Norðursiglingar kl.17 og heimkoma áætluð kl. 19. Vísindakaffisiglingin kostar ekkert og kaffið verður í boði Rannís.

Miðvikudagur 22. september kl. 18-19:30 í Sandgerði

Grjótkrabbi - skemmtilegur og bragðgóður!
Háskólasetur Suðurnesja í Sandgerði og Náttúrustofa Reykjaness kynna grjótkrabba sem er nýr landnemi hér við land.  Að kynningu lokinni verður krabbi eldaður og gestum boðið að smakka.

Fimmtudagur 23. september kl. 20-21:30 Vísindakaffi Fræðasetursins á Skagaströnd, Kántrýbæ.


Rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands á Skagaströnd kynnir samstarfsverkefni um hljóðskjalasafn fyrir munnlega sögu, en samstarfsaðilarnir eru Miðstöð munnlegrar sögu, Árnastofnun, Landsbókasafn og Ísmús/Músik og saga ehf. Sagt verður frá aðdraganda verkefnisins, samstarfsaðilum og hlutverki þeirra, markmiðum og möguleikum samstarfsins. Efni úr gagnagrunni Ísmús verður sýnt, m.a. hljóðdæmi úr þjóðfræðisafni Árnastofnunar ásamt efni úr eigu Fræðafélags Vestur-Húnvetninga og frá Miðstöð munnlegrar sögu. Ráðgert er að sýna dæmi um notkun og úrvinnslu hljóðefnis í kennslu og listsköpun og kynna stuttlega útgáfumöguleika þess.

Fimmtudagur 23. september kl. 20-21:30 á Höfn í Hornafirði

Höfundaverk Þórbergs
Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur fjallar um rannsóknir á höfundaverki Þórbergs Þórðarsonar. Kynningin er á vegum Rannsókna- og fræðaseturs HÍ á Höfn í Hornafirði.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is