Kræklingaferð í Hvalfjörð

Laugardaginn 21. apríl fór Halldór Pálmar ásamt Gísla Má Gíslasyni prófessor við HÍ í kræklingaferð í Hvalfjörð á vegum Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands. Ferðin var hluti af átaki háskólans með Ferðafélaginu sem kallast „Með fróðleik í fararnesti“.

Á þriðja hundrað manns mættu í ferðina sem tókst með eindæmum vel. Haldið var af stað um morguninn frá Öskju og stefnan tekin að Fossá í Hvalfirði. Þar var kræklingur tíndur í blíðskaparveðri undir leiðsögn Halldórs og Gísla sem fræddu gesti um kræklinginn og líffræði hans. Nóg var af kræklingi í fjörunni og að tínslu lokinni var kveikt upp í prímus í fjöruborðinu og kræklingur eldaður í stórum pottum ofan í hópinn. Kræklingurinn smakkaðist vel og var þetta frábær endir á sérlega skemmtilegri ferð.

Markmiðið með samstarfi háskólans og Ferðafélagsins er að vekja áhuga almennings á fræðslu og hollri útivist og fjölga valkostum í þeim efnum.

Kræklingatínsla í Hvalfirði

Kræklingur tíndur við Fossá í Hvalfirði.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is