Námskeið um sjávarspendýr á Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Húsavík

Tuttugu og þrír erlendir háskólanemar sækja nú námskeiðið Aðferðir við rannsóknir á sjávarspendýrum (Studying Marine Mammals in the Wild) á vegum Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík og Verkfræði - og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands.
 
Námskeiðið er nú haldið í sjötta sinn á Húsavík, en það hófst þriðjudaginn 10. júní og stendur í um tíu daga. Nemendur frá tíu þjóðlöndum sækja námskeiðið að þessu sinni, en í hópnum eru m.a. nemar frá Srí Lanka, Wales, Hollandi og Finnlandi.
 
Það er Marianne Helene Rasmussen, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík, sem heldur utan um námskeiðið og kennir hluta af því. Auk hennar koma Ole Lindquist, doktor í sagnfræði, og doktorsnemarnir Arnar Björnsson, Chiara Bertulli og Maria Iversen að kennslu í námskeiðinu. 
 
Á námskeiðinu fræðast nemendur m.a. um vistkerfi Skjálfanda, helstu hvali sem finna má í flóanumog helstu rannsóknaraðferðir. Þá fá þeir að fylgjast með krufningu á höfrungi sem rak á land í haust. 
 
Auk þess fara nemarnir í hvalaskoðunarferðir og fylgjast með og æfa rannsóknaraðferðir af bátum. Meðal aðferðanna má telja myndgreiningu einstakra hvala, hvernig einstökum hvölum er fylgt eftir á sjó, stofnstærðarmat af skipi, aðferðir við atferlisgreiningu, notkun stefnuvirkra hljóðnema sem dregnir eru í línu eftir skipi, notkun hljóðnema sem staðsettir eru á hafsbotni og notkun hornamælis af landi til að fylgjast með ferðum hvala.
 
Þess má geta að oftar en ekki koma nemar á námskeiðinu aftur til Húsavíkur, annaðhvort sem leiðsögumenn á hvalaskoðunarbátum eða sem framhaldsnemar við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík. 
 
Miðvikudaginn 18. júní kynna nemendur niðurstöður hópavinnu og fer sú kynning fram í fyrirlestrasal Hvalasafnsins á Húsavík. Kynningarnar hefjast kl. 10 og eru áhugasamir hvattir til að kíkja við og hlýða á nemana. Kynningarnar fara fram á ensku.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is