Rannsakaði fæðuleit skúmsins á vetrarstöðvum

Skúmur sem verpir á Íslandi heldur sig bæði í Norður-Ameríku, Suður-Evrópu og norðanverðri Afríku yfir vetrartímann. Þetta sýnir rannsókn sem Ellen Magnúsdóttir vann að í meistaranámi sínu í líffræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, en grein um rannsóknina var nýverið birt í  vísindatímaritinu Bird Study. Jón Einar Jónsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Snæfellsnesi var leiðbeinandi Ellenar í verkefninu sem unnið var í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands.

 

Skúmurinn er vel þekktur hér á landi enda er Ísland ein af meginvarpsstöðvum þessa aðgangsharða fugls, en talið er að hátt í 90% stofnsins verpi á Íslandi, Orkneyjum og Hjaltlandseyjum. Takmörkuð þekking á vistfræði hans á vetrarstöðvum varð hins vegar kveikjan að alþjóðlegu verkefni sem Ellen tók þátt í á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands og Háskóla Íslands á árunum 2008-2010. Þá voru svokallaðir dægurritar settir á um 40 skúma sem verptu hér við land en með slíkum tækjum má ákvarða staðsetningu fuglanna á tilteknu tímabili. Í meistaraverkefni sínu í líffræði við Háskóla Íslands greindi Ellen gögnin úr dægurritunum en þeir veittu m.a. upplýsingar um helstu dvalarstaði og fæðuöflunartíma skúma yfir vetrartímann.

Fram kemur í greininni í Bird Study að íslenskir skúmar dvöldu í Norðvestur-Afríku, á Íberíuskaga, við Biscaya-flóa og á austurströnd Norður-Ameríku yfir vetrartímann. Þá reyndust fuglarnir á öllum þessum svæðum verja svipuðum tíma í flug til fæðuöflunar ef undan eru skildir skúmar sem dvöldu í Norðvestur-Afríku. Tölvert minni tími fór í flug hjá þeim og þykir það benda til þess að aðstæður til fæðuöflunar séu betri í Norðvestur-Afríku en á hinum svæðunum.

Ellen bendir á að rannsóknir sem þessar auki við takmarkaða þekkingu á vistfræði sjófugla að vetrarlagi. „Flestar rannsóknir á sjófuglum hafa hingað til verið gerðar á varptíma en ástæða þess er aðallega sú að sjófuglar halda sig flestir langt á hafi úti utan þess tíma. Síðustu ár og áratugi hafa gagnaritar, GPS-sendar og önnur tæki opnað möguleika á að rannsaka sjófugla á vetrarstöðvum og þar af leiðandi aukið vitneskju okkar um vistfræði og líferni þessara fugla utan varptíma, m.a. hvar og hvernig fuglarnir eyða tíma sínum á hafi úti. Það gefur okkur hugmynd um lykilsvæði sjófugla,“ segir Ellen.

Að rannsóknunum komu vísindamenn frá Skotlandi og Noregi auk Íslands og hefur hópurinn fengið fleiri greinar með niðurstöðum sínum birtar í alþjóðlegum ritum. Þar er m.a. komið inn á  uppsöfnun lífrænna eiturefna í eggjum skúma og í fullorðnum fuglum í varpi, stresshormónaframleiðslu hjá fuglum í varpi og uppsöfnun lífrænna eiturefna í fullorðnum fuglum á vetrarstöðvum. „Þar sem skúmurinn er langlífur og ránfugl á toppi fæðukeðjunnar á hann það til að safna töluverðu magni eiturefna í sig. Rannsóknirnar sýndu fram á það og jafnframt að munur var á uppsöfnun eiturefna á þeim þremur varpstöðvum sem rannsakaðar voru,“ segir Ellen.

Eftir að námi lauk hefur Ellen haldið áfram rannsóknum á fuglum. Í sumar vann hún fyrir Selasetur Íslands á Hvammstanga að verkefninu „Fuglastígar á Norðurlandi vestra“ sem miðar að því að byggja upp kort með helstu fuglaskoðunarstöðum í  landshlutanum. „Vinnan fólst aðallega í því að safna saman upplýsingum um fuglalíf á svæðinu og kanna þau svæði sem koma til greina sem fuglaskoðunarstaðir á fuglastígnum okkar á Norðurlandi vestra,“ segir Ellen en óhætt er að segja að fuglaskoðun sé einn af vaxandi öngum íslenskrar ferðaþjónustu.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is