Kolgrafarfjörður rannsakaður í kjölfar síldardauðans mikla 2012-2013

Vefur Háskóla Íslands fjallar um rannsókn Valtýs Sigurðssonar, meistaranema í líffræði við Háskóla Íslands, sem hann vann á vegum Rannsóknaseturs HÍ á Snæfellsnesi og Náttúrustofu Vesturslands. Rannsóknin sýni að dýrategundum á botni Kolgrafarfjarðar fækkaði um rúmlega 75% í kjölfar mikils síldardauða þar á árunum 2012-2013.Ekki eiga þó allar tegundir undir högg að sækja í firðinum því burstaormi hefur fjölgað gríðarlega á sama tíma.
 
Rannsókn Valtýs er í raun lýsing á botnseti Kolgrafafjarðar í kjölfar síldardauðans veturinn 2012/2013. Dauðinn er rakinn til súrefnisskorts sem varð í firðinum eftir að stórar síldartorfur syntu inn fyrir brúna sem þverar fjörðinn. Auk þess að skoða tegundasamsetningu á botninum rannsakaði  Valtýr magn lífræns kolefnis í setinu. „Sýnatökur voru gerðar seinni hluta júnímánaðar 2013 og úrvinnsla sýnanna og tegundagreining fór fram veturinn 2013/2014,“ segir Valtýr. Niðurstöður sínar bar hann svo saman við niðurstöður sams konar rannsóknar sem gerð var árið 1999 í tilefni af þverun fjarðarins.
 
Óhætt er að segja að niðurstöðurnar séu stórmerkilegar. „Dýrategundum í firðinum fækkar umtalsvert, úr um það bil 110 í 26. Hins vegar má einnig sjá fjölgun innan tiltekinna tegunda og þar ber hæst gríðarlegur fjöldi burstaorma af tegundinni Capitella capitata. Hann reyndist vera um 88% allra dýra í sýnunum sem tekin voru innan brúar en hann fannst líka í miklu magni utan brúar. Aðeins eitt stykki af þessum ormi fannst í firðinum árið 1999,“ segir Valtýr. 
 
Valtýr bendir á að til séu að minnsta kosti 12-13 gerðir af Capitella capitata sem hafa ekki enn verið skilgreindar til tegunda. „Þetta eru systurtegundir sem erfitt er að greina í sundur. Sumar þeirra hafa sviflægt lirfustig en aðrar botnlægt þar sem ormarnir skríða fullþroska í burtu frá foreldrinu sem hentar mjög vel séu aðstæður á staðnum góðar. Syndandi lirfur setjast á botninn finni þær fyrir miklum styrk næringarefna og einnig ef þær nema súlfíð sem flest önnur dýr forðast. Ormarnir hafa því mikla getu til að dreifa sér í umhverfi eins og ríkir í Kolgrafafirði núna en við vitum ekki hvort þetta er ein eða fleiri týpur í Kolgrafafirði,“ segir Valtýr.
 
Hann bendir á að niðurstöður rannsóknanna samræmist því sem sést hafi annars staðar við Ísland og úti í heimi. „Fáar tegundir, sem geta lagað sig sérstaklega að súrefnissnauðu og eitruðu umhverfi, ná yfirgnæfandi stöðu og blómstra í fjarveru keppinauta sinna sem drepast við þessar óeðlilegu aðstæður,“ segir Valtýr en vegna rotnandi síldarinnar liggur súrefnissnautt lag yfir botnsetinu, svart set sem er sums staðar með fitubrák og síldarleifum. „Það er ekki algengt að súrefnisfirrtar aðstæður, eins og eru undir síldarfarginu, verði í íslenskum fjörðum. Því er þetta einstakt tækifæri til rannsókna. Við vitum dæmi þess að 500 tonn af síld hafi sokkið til botns og kaffært lífríkið í Alterosen, litlum firði í N-Noregi fyrir um 30 árum. Síldarmagnið var um 100 sinnum meira í Kolgrafafirði eða 50.000 tonn sem er fordæmalaus að því er ég best veit,“ segir Valtýr og bendir á að rannsóknir sem þessar bæti einnig við þekkingu á grunnsævi við Ísland en þar eru víða gloppur.
 
Sýnatökur í firðinum voru endurteknar sumarið 2014 og vonast Valtýr og samstarfsaðilar hans til þess að hægt verði að vinna úr þeim en til þess þurfi vitaskuld fjármagn. Jafnframt vonast þau til að geta fylgst áfram með lífríkinu á botni fjarðarins á næstu árum. „Framvindan í Alterosen var könnuð með fjögurra ára vöktun á lífríki botns og fjöru og það er það sem stefnt er að í Kolgrafafirði,“ segir Valtýr.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is