Auglýst eftir verkefnisstjóra við Rannsóknasetur HÍ á Suðurlandi

Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands auglýsir laust til umsóknar starf verkefnisstjóra við Rannsóknasetur HÍ á Suðurlandi.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi sinnir rannsóknum á landnýtingarmálum á breiðum grunni. Setrið hefur starfsstöðvar á Selfossi og í Gunnarsholti. Verkefnisstjórinn mun hafa umsjón með langtímarannsóknum setursins á vistkerfum á landi. Í því felst m.a. fjölbreytt gagnaöflun á vettvangi, umsjón gagnagrunna, úrvinnsla og kynning á niðurstöðum í ræðu og riti. Verkefnisstjórinn mun einnig koma að öðrum verkefnum setursins, svo sem námskeiðahaldi, móttöku og umsjón með erlendum gestum, vinnu við heimasíðu setursins og taka þátt í greinaskrifum og styrkumsóknagerð eftir því sem við á.

Innan Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands eru 7 sjálfstæð rannsóknasetur víða um land. Markmið stofnunarinnar er m.a. að skapa aðstöðu til rannsókna á landsbyggðinni og þá er stofnunin jafnframt vettvangur samstarfsverkefna háskólans við sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga á landsbyggðinni.

Umsækjendur skulu hafa lokið meistaraprófi í líffræði eða vistfræði og hafa verulega reynslu í öflun vistfræðilegra gagna og umsjón gagnasafna. Þá er góður grunnur í tölfræði skilyrði. Frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum, lipurð í mannlegum samskiptum, gott vald á ensku og íslensku er nauðsyn. Reynsla af stofnrannsóknum á fuglum er æskileg. Reynsla af alþjóðasamstarfi er æskileg sem og reynsla af þverfræðilegu samstarfi. Reynsla af sókn í innlenda rannsóknasjóði er einnig æskileg.

Verkefnisstjórinn verður starfsmaður Háskóla Íslands en hefur starfsaðstöðu við Rannsóknasetur HÍ á Suðurlandi. Búseta á svæðinu er æskileg. Um fullt starf er að ræða. Umsóknarfrestur er til 2. mars 2015. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.

Umsóknir sem greina frá menntun og fyrri störfum skulu sendar til starfsmannasviðs Háskóla Íslands, Aðalbyggingu við Sæmundargötu 2, 101 Reykjavík, eða á netfangið starfsumsoknir@hi.is merkt HI15010197. Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin. Umsóknir geta gilt í sex mánuði frá lokum umsóknafrests.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og Félags háskólakennara. Við ráðningar í störf hjá Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans.

Allar nánari upplýsingar um starfið veitir Tómas G. Gunnarsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi í símum 488 3075 / 525 5460 og tomas@hi.is.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is