Árlegt sumarnámskeið á Húsavík fór vel fram

Í síðustu viku lauk árlegu sumarnámskeiði á Húsavík: Að rannsaka sjávarspendýr í viltri náttúru. Námskeiðinu er stýrt af Dr. Marianne H. Rasmussen forstöðumanni Rannsóknaseturs HÍ á Húsavík og haldið í samstarfi við íf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.

 

Í ár sóttu 24 nemendur námskeiðið, þar af var einn íslendingur, búsettur á Húsavík. Þá kom þýskur nemandi alla leið frá Perth í Ástralíu til að taka þátt í námskeiðinu og má því segja að vinsældir þess nái þvert yfir hnöttinn. Almenn ánægja var meðal nemenda með skipulagningu námskeiðsins en meðal fyrirlesara voru Dr. Ole Lindquist, sérfræðingur í sögu hvalveiða í Norður-Atlantshafi, og Sabrina Brando, eigandi Animal Concepts sem vinnur ma. að velferð dýra í dýragörðum. Gaman er að segja frá því að oftar en ekki snýr hluti nemendanna aftur til Húsavíkur, til að nema við Rannsóknasetur Háskóla Íslands eða til að starfa sem leiðsögumenn hjá hvalaskoðunarfyrirtækjum í bænum, enda er námskeiðið góð kynning bæði á Húsavík og Skjálfandaflóa.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is