Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir ráðin forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Vestfjörðum

Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, sjávarlíffræðingur, hefur verið ráðin forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Vestfjörðum. Í júlí sl. var auglýst laust til umsóknar starf forstöðumanns (sérfræðings) Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum á sviði sjávarlíffræði með áherslu á fiskifræði. Tvær umsóknir bárust um starfið. Að loknu dómnefnar- og valnefndarferli var Guðbjörg Ásta ráðin forstöðumaður setursins frá 1. desember sl.

Guðbjörg Ásta lauk doktorsprófi í þróunarfræði frá Háskólanum í St. Andrews 2005, en áður hafði hún lokið B.S.-prófi líffræði (1990) frá Háskóla Íslands. Doktorsritgerð hennar bar heitið: “Population divergence and speciation in Icelandic threespine stickleback (Gasterosteus aculeatus)“.

Í rökstuðningi valnefndar stóð m.a:

,,Með rannsóknum sínum sl. áratug og birtingum hefur Guðbjörg Ásta sýnt fram á færni sína til að stunda sjálfstæðar rannsóknar og stjórna rannsóknaverkefnum. Í starfi sínu við Rannsóknasetur HÍ á Vestfjörðum hefur hún komið á fót þverfræðilegu samstarfi náttúru- og hug- og félagsvísinda og má afrakstur þess finna í frekari rannsóknum hennar og birtingum. Guðbjörg Ásta hefur sýnt góða virkni í rannsóknum og skrifað 13 ISI greinar, þar af 9 sem fyrsti höfundur. Þá hefur Guðbjörg Ásta skrifað skýrslur, greinar og bókarkafla, haldið fjölda erinda og kynnt fjölda veggspjalda á innlendum sem erlendum ráðstefnum.“

Í valnefndarálitinu stóð einnig: ,,Guðbjörg Ásta hefur sýnt með verkum sínum og störfum að hún býr yfir góðri hæfni við að koma á innlendu og erlendu rannsóknasamstarfi. Þá hefur hún sýnt fram á góðan árangur við öflun sértekna og styrkja til rannsóknarverkefna. Nú síðast fékk Rannsóknasetur HÍ á Vestfjörðum styrk úr rannsóknasjóði Rannís fyrir verkefnið Cod Story. Verkefnið er dæmi um þverfræðilegt samstarf náttúru- og hugvísindafólks sem og dæmi um alþjóðlegt samstarf í rannsóknum.“

Guðbjörg Ásta hefur starfað sem forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum frá 2007, að undanskildu árinu 2013 þegar hún gegndi stöðu forstöðumanns Sjávarrannsóknastöðvarinnar Varar í Ólafsvík og fögnum við hjá Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands því að hún sé aftur komin í fasta stöðu forstöðumanns Rannsóknaseturs HÍ á Vestfjörðum.

Rannsóknasetur HÍ á Vestfjörðum var stofnað 2007 og er megináhersla í rannsóknum á auðlindum sjávar í breiðum skilningi. Við setrið starfa tveir akademískir starfsmenn, Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir og Ragnar Edvardsson.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is