Fréttir af Ströndum

Starfsemi hófst hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu í september síðastliðnum og hefur verið unnið af kappi við að koma setrinu af stað. Haldin var þjóðtrúarkvöldvaka í september í samvinnu við Sauðfjársetur á Ströndum og tókst vel til. Yfirskriftin var Leyndardómar fjörunnar, þjóðtrú, ótti og óhugnaður. Þrír þjóðfræðingar héldu þar erindi, Kristinn H.M. Schram, Dagrún Ósk Jónsdóttir og Jón Jónsson. Kristinn var fyrsti forstöðumaður Þjóðfræðistofu Strandagaldurs sem er forveri Rannsóknasetursins á Ströndum. Þjóðtrúin, tónlistaratriði Arnars S. Jónssonar og dulmagnað kaffihlaðborð lokkuðu að fjölda gesta.

Þjóðfræðinemar í félaginu Þjóðbrók komu í heimsókn á Strandir í haust og í staðinn fyrir hefðbundna móttöku tók Jón Jónsson verkefnastjóri hjá rannsóknasetrinu þá með sér í dágóða álagabletta- og tröllaskoðunargönguferð í Kollafirði á Ströndum.

Unnið hefur verið að undirbúningi margvíslegra verkefna og uppbyggingu á tengslaneti. Sem dæmi má nefna að verkefnastjóri flutti fyrirlestur fyrir safnafólk um samspil safna og samfélags á Farskóla safnmanna í Keflavík og búið er að starta súpufundum yfir vetrartímann á Hólmavík um vísindi og fræði í samvinnu við Þróunarsetrið á Hólmavík. Unnið er að útfærslu á samstarfi við þjóðfræðiskor Háskóla Íslands og námsmenn í doktors- og mastersnámi hafa þegar notið góðs af samvinnu og aðstöðu við Rannsóknasetrið.

Rannsóknarsetrið á Ströndum er tilbúið í margvísleg samvinnuverkefni sem tengjast rannsóknum, kennslu og miðlun. Þetta á bæði við um samvinnu við þjóðfræðinga og þjóðfræðinema hér á landi og erlendis, en einnig fræðimenn á öðrum sviðum þar sem nálgunin er þverfagleg. Þeir sem hafa hugmynd um samvinnu eru hvattir til að hika ekki við að hafa samband við Jón Jónsson þjóðfræðing og verkefnastjóra - jonjonsson@hi.is.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is