Grein Marianne Rasmussen í tilefni af opnu húsi í Túni 4. nóvember sl.

Meðfylgjandi grein birtist í Skarpi 2. nóvember sl.
 
--------------------------------
 
Nú á haustmánuðum eru tíu ár síðan starfsemi á vegum Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík hófst. Formlega var setrið sett á fót 2008 en strax haustið 2007 hófst rannsóknastarfsemi við það. Við setrið starfa nú undirrituð sem forstöðumaður, Lilja Rögnvaldsdóttir verkefnastjóri og Charla Basran doktorsnemi.
Frá upphafi hafa rannsóknir á sjávarspendýrum, einkum hvölum, verið megináhersla starfseminnar. Fjölmörg rannsóknaverkefni hafa verið unnin við setrið í samstarfi við innlenda og erlenda vísindamenn og stofnanir, með aðkomu fjölda meistaranema og starfsnema (um 100 talsins) auk doktorsnema. Nýleg verkefni snúa að hegðun, atferli og hljóðum hnúfubaka, hnísa og steypireyða svo dæmi séu nefnd. Í tengslum við starfsemina kemur fjöldi vísindamanna, rannsakenda, nemenda og starfsnema árlega til Húsavíkur og dvelur um lengri og skemmri tíma. Árlega er haldið sumarnámskeið í samvinnu við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands og sækir það fjöldi nemenda alls staðar að úr heiminum. Námskeiðið hefur verið haldið í níu ár og hafa yfir 200 nemendur af fjölmörgum þjóðernum sótt Húsavík heim meðan á námskeiðinu stendur.
 
Á síðustu árum hafa starfsmenn rannsóknasetursins einnig snúið sér að rannsóknum á ferðaþjónustu, enda Húsavík og nágrenni kjörlendi slíkra rannsókna. Hafa rannsóknirnar m.a. snúið að því að kanna og bera saman ferðavenjur og neyslumynstur erlendra ferðamanna á Húsavík og nágrenni auk fjölda annarra bæjarfélaga á landinu.
 
Frá upphafi hefur sveitarfélagið Norðurþing verið öflugur bakhjarl Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík. Á ársfundi Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands, sem haldinn var á Húsavík 2014, var undirritaður samstarfssamningur rannsóknasetursins og sveitarfélagsins. Þá hefur samstarf rannsóknasetursins við Þekkingarnet Þingeyinga og Náttúrustofu Norðausturlands og annarra nágranna í Langaneshúsinu ávallt verið traust. Hvalaskoðunarfyrirtækin á Húsavík hafa frá upphafi stutt dyggilega við starfsemina með ýmsum hætti. Samstarf við Hvalasafnið á Húsavík hefur einnig verið gjöfult á báða bóga en í samvinnu þess og rannsóknasetursins hefur m.a. verið staðið fyrir árlegri hvalaráðstefnu undanfarin ár auk ýmiskonar samstarfs á sviði miðlunar og rannsókna. Þá er ótalinn stuðningur einstakra aðila á Húsavík og nágrenni við starfsemi setursins. Stuðningurinn hefur verið starfseminni ómetanlegur og fyrir hann er starfsfólk rannsóknasetursins afar þakklátt.
 
Nýlega tók Rannsóknasetrið á leigu húsið Tún fyrir gestafræðimenn, nemendur og starfsnemendur setursins. Er það mikilvægt skref til þess að tryggja til lengri tíma húsnæði fyrir þá fjölmörgu samstarfsaðila og gesti rannsóknasetursins sem árlega sækja Húsavík heim og taka þátt í rannsóknarverkefnum setursins. Til að kynna betur þá starfsemi sem fram fer á vegum Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík og þakka bæjarbúum og samstarfsaðilum stuðning og samstarf í gegnum tíðina mun rannsóknasetrið standa fyrir opnu húsi laugardaginn 4. nóvember nk., milli 13 og 16. Heitt kaffi verður á könnunni og starfsfólk og nemendur setursins taka vel á móti gestum.
 
Verið innilega velkomin!
 
Marianne Rasmussem
Forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is