Saga

Haldin var opnunarhátíð með sjávarlíftæknisetrinu Biopol í Gamla kaupfélagshúsinu á Skagaströnd, þar sem bæði hafa skrifstofur sínar. Þangað komu margir gestir og meðal annars færðu Anna Agnarsdóttir prófessor og forseti Sögufélags, og Eggert Þór Bernharðsson, deildarforseti sagnfræði- og heimspekideildar, setrinu bókagjafir.

Þar var einnig tilkynnt að Elín Hannesdóttir ekkja Halldórs Bjarnasonar heitins sagnfræðings ætlar að færa setrinu að gjöf sagnfræðibókasafn Halldórs sem var bókasafnari frá unglingsaldri. Safnið verður skráð í Gegni en ekki liggur fyrir hvar það verður til húsa.

Sagnfræðisetur úti á landi er nýjung í íslensku háskólalífi og þess vegna er það ærið verkefni að ákveða hvernig verði best staðið undir væntingum. Bókagjöfin höfðinglega bætir stöðu setursins stórkostlega að öllu leyti, en ekki síst skapar það raunverulega möguleika á því að bjóða gestafræðimönnum vinnuaðstöðu á setrinu. Húsnæðismál og stefnumótun hafa þess vegna verið í brennidepli allt fyrsta starfsárið og stefnt er að því að þau mál verði farin að skýrast þegar líður á haustið. Þar sem sjálfstætt rannsóknarsetur í sagnfræði úti á landi er nokkur nýjung í íslensku háskólalífi er að mörgu að hyggja í þeim efnum. Það er áhugavert tækifæri fyrir hugvísindi að tengja rannsóknir sínar samfélagi og atvinnuþróun með þeim hætti sem er markmið Stofnunar fræðasetra. Sömuleiðis þarf að taka tillit til annarra þátta sem teljast á sviði setursins, s.s. rannsókna á sviði munnlegrar sögu, eins og nefnt hefur verið, virkni forstöðumanns í rannsóknum, námskeiðahaldi og móttöku gestafræðimanna.

Frá upphafi var ákveðið að fræðasetrið starfaði að hluta til á sviði munnlegrar sögu og því var strax hafist handa við að undirbúa verkefni um hljóðskjalasafn, sem felur í sér að skapa forsendur fyrir samræmdri skráningu og landsaðgengi að hljóðheimildum. Verkefnið er unnið með Ísmús/Tónlistarsafni Íslands, Miðstöð Munnlegrar sögu, Landsbókasafninu og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Að því hafa einnig komið skráningarfyrirtækið Lausn ehf á Hvammstanga og nú þegar er byrjað að flytja gamlar hljóðritanir frá Fræðafélagi Vestur-Húnvetninga í stafrænt form og undirbúa fyrir skráningu í gagnagrunn. Vonir standa til að með því að stuðla að samvinnu þeirra sem hafa þekkingu á heimildum sem verða til við upptökur á hljóði, og mynd í seinni tíð, megi skapa vettvang fyrir tryggari varðveislu og betra aðgengi fyrir fræðimenn jafnt og almenning. Þannig megi sömuleiðis stuðla að auknum rannsóknum á sviði munnlegrar sögu.

Staðreyndir málsins eru hins vegar þær að einsmannsstofnunum sem þessari er ætlað að útvega sjálfar fé til verkefna og starfseminnar sjálfrar að miklu leyti. Enn sem komið er veit því enginn hversu miklir styrkir fást til verkefnanna og á meðan beðið er eftir niðurstöðum styrkveitenda er ekki annað að gera en að vinna að kappi að fleiri umsóknum og öðrum aðkallandi málefnum.

Eitt af því sem gert er í fræðasetri er að gefa fræðimönnum kost á að kynna rannsóknir sínar og stuðla að markvissari samfélagsumræðu með því að koma fræðilegri umræðu á framfæri við almenning. Í beinu framhaldi af opnunarhátíðinni í apríl hélt fræðasetrið málþing í samvinnu við sveitarfélagið Skagaströnd um sögu pólitískra samskipta Íslands við önnur ríki. Þar fluttu Anna Agnarsdóttir, Helgi Þorláksson, Jón Þ. Þór, Unnur Birna Karlsdóttir og Ragnheiður Kristjánsdóttir erindi, Oddný Eir Ævarsdóttir var fundarstjóri og Ármann Jakobsson stýrði umræðum. Að því loknu var sveitarstjórinn á Skagaströnd, Magnús B. Jónsson leiðsögumaður í ferð í Kálfshamarsvík í fögru veðri. Þingið var ágætlega sótt, meðal annars af sagnfræðingum, og heppnaðist vel í alla staði. Í júní kom Karl Aspelund frá Bostonháskóla og sagði frá lýsingum Bandaríkjamannsins S.S. Howlands á ferðum sínum um Norðurland árið 1873 við góðar undirtektir. Nú í september verður haldin ráðstefna um ímyndir og framtíð þjóðhetjunnar Jóns Sigurðssonar. Fræðasetrið tekur svo þátt í vísindavöku Rannís síðar í september með vísindakaffi þar sem starfsemi þess og verkefnið um hljóðskjalasafn verður kynnt.

Ræðu menntamálaráðherra við opnun Rannsókna- og fræðasetursins má finna á heimasíðu menntamálaráðuneytisins.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is