Vilhelm Vilhelmsson

Vilhelm Vilhelmsson er fæddur á Hvammstanga árið 1980 og ólst þar upp til fullorðinsára. Hann lauk BA prófi í sagnfræði við Kaupmannahafnarháskóla árið 2009, MA prófi við Háskóla Íslands árið 2011 og doktorsprófi í sagnfræði við sama skóla árið 2015. Sérsvið hans er félagssaga 18. til 20. aldar með áherslu á líf og kjör alþýðu. Doktorsritgerð hans fjallar um vistarband á Íslandi á 19. öld. Þar er einblínt á samskipti yfirboðara og undirsáta og leiðir þeirra síðarnefndu til að andæfa valdboði í daglegu lífi. Hann hefur einnig lagt fyrir sig rannsóknir á sögu íslenskra vesturfara og aðlögun þeirra að kanadísku samfélagi í lok 19. aldar ásamt hugmynda- og hugarfarssögu 19. aldar. Eftir hann eru bækurnar Sjálfstætt fólk. Vistarband og íslenskt samfélag á 19. öld (Sögufélag 2017) og Sakir útkljáðar. Sáttabók Miðfjarðarumdæmis í Húnavatnssýslu 1799‒1865 (Háskólaútgáfan 2017). Einnig hefur hann ritað fjölda greina um söguleg efni og sett upp texta- og ljósmyndasýningar. Auk rannsókna hefur hann starfað sem stundakennari við sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Hann er jafnframt annar af tveimur ritstjórum Sögu, tímarits Sögufélags. Hann býr á Hvammstanga ásamt eiginkonu og tveimur börnum.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is