Vilhelm Vilhelmsson - nánar um doktorsverkefni

Vilhelm Vilhelmsson er doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands. Doktorsverkefni hans nefnist Ögun, vald og andóf í íslensku samfélagi á nítjándu öld.

Öll samfélög eru mótuð af flóknum valdaafstæðum sem þó eru síbreytilegar. Átök um félagslega skipan samfélagsins eru ávallt til staðar en eru þó misjafnlega áberandi eftir samfélagsgerðum, tímabilum og þjóðfélagsástandi. Stundum eru þessi átök opinber og öllum augljós en oftar eru þau falin innan hversdagslegra hegðunarmynstra og orðræða. Þau mynda það sem mannfræðingurinn James C. Scott kallar „opinbera og dulda forskrift.“ Hversdagslegt andóf lágt settra gegn yfirráðum eða upplifðu óréttlæti er því oftast nær óformlegt og einstaklingsbundið en jafnframt útbreitt og erfitt viðureignar. Þessi rannsókn fjallar um hversdagslegt andóf í íslensku samfélagi á nítjándu öld. Leitað er svara við spurningum um það hvernig átökum um félagslega skipan samfélagsins var háttað innan gamla sveitasamfélagsins. Hverjar voru leiðir ráðandi afla til ögunar og félagslegs taumhalds? Hvers konar rými sköpuðu valdalausir sér til sjálfræðis og andófs og hvernig nýttu valdalausir sér opinber rými valdsins til þess sama? Með því að einblína á hversdagslegt andóf lágt settra er ætlunin að undirstrika þær takmarkanir sem voru á getu ráðandi þjóðfélagshópa til ögunar og félagslegs taumhalds þrátt fyrir formleg yfirráð þeirra og varpa ljósi á þær fjölbreytilegu leiðir sem „valdalausir“ höfðu til að taka líf sitt í eigin hendur og andæfa misbeitingu og yfirráðum.


Markmið rannsóknarinnar er að skoða valdaafstæður íslensks nítjándu aldar samfélags „neðan frá,“ að beita sjónarhorni lágt settra til þess að gera grein fyrir hversdagslegum birtingarmyndum þeirra valdaafstæðna. Áhersla er lögð á gerendahæfni einstaklinga í fortíðinni og möguleika þeirra til að skapa sér rými til sjálfræðis. Með þeirri áherslu er fjölbreytileiki fortíðarinnar undirstrikaður, að menning og félagsleg hegðun í fortíðinni lúti ekki almennum eða algildum reglum heldur hafi svigrúm einstaklinga til að hafa áhrif á eigið líf verið meira heldur en íslensk sagnritun hefur almennt gefið í skyn.


Helstu heimildir rannsóknarinnar eru dóma- og þingbækur sýslumanna auk dómsskjala. Til að afmarka rannsóknina er einblínt sérstaklega á tvær sýslur sem kalla má dæmigerða fulltrúa fyrir tvær ólíkar gerðir íslensks samfélags á nítjándu öld. Húnavatnssýsla er þannig skoðuð sem dæmigert landbúnaðarhérað en Gullbringusýsla sem blandað svæði sjósóknar og landbúnaðar.
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is