Ömmur á faraldsfæti

RIKK – Rannsóknarstofnun í jafnréttisfræðum – stóð á vormisseri 2015 fyrir hádegisfyrirlestraröð sem helguð var ömmum í tilefni 100 ára kosningaréttar kvenna á Íslandi. Markmiðið var að segja sögur kvenna sem lifðu þann tíma þegar nútíminn hóf innreið sína á Íslandi, í lok 19. aldar og á fyrri hluta 20. aldar, og varpa ljósi á framlag þeirra, stöðu og aðstæður.
 

Tuttugasta öldin var öld baráttu fyrir borgaralegum réttindum, þar á meðal kvenréttindum en fyrsta bylgja femínisma skilaði atkvæðarétti til kvenna víða um heim á fyrstu áratugum 20. aldar. Í fyrirlestraröðinni var fjallað um sögu, hugmyndaheim og aðstæður þessara kvenna og efnið sett í kenningalegt en jafnframt persónulegt samhengi.

 

Fræðimenn úr ýmsum greinum tengdu rannsóknarefni sín við ömmur/langömmur sínar og/eða konur sem tengdust þeim með einum eða öðrum hætti. Fjallað var um breiðan hóp kvenna með ólíka búsetu, menntun og menntunarmöguleika, af ólíkri stétt; þekktar sem óþekk(t)ar. Nánari upplýsingar um fyrirlestraröðina er að finna á vefsíðu RIKK.


Skemmst er frá því að segja að fyrirlestraröðin vakti mikla athygli og segja má að aðsókn á hana sé dæmalaus. Svo fór að fyrirlestrarnir voru fluttir í stærstu salarkynni Háskóla Íslands og dugði varla til. Af þessu spratt sú hugmynd að flytja fyrirlestrana úti á landi, til að fleiri mættu njóta þeirra, í samstarfi við Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands og á Vestfjörðum í samstarfi við Prófessorsembætti Jóns Sigurðssonar og á Akureyri í samstarfi við Hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri. Einnig var ákveðið að leita til heimamanna til að taka þátt í viðburðunum.

 

Nú í september verða því fluttir fyrirlestrar úr fyrirlestraröðinni á eftirfarandi stöðum:
• Rannsóknarsetur HÍ, Skagaströnd, 12. og 19. september 

• Rannsóknarsetur HÍ, Vestfjörðum og prófessorsstaða Jóns Sigurðssonar, Ísafirði, 19. september 

• Rannsóknarsetur HÍ, Hornafirði, 26. september 

• Háskólinn á Akureyri, 26. september

 

Nánari upplýsingar um hvern fyrirlestur verða veittar fljótlega.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is