Rannís styrkir verkefni við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum

Stjórn Rannsóknasjóðs Rannís hefur lokið við úthlutun til nýrra rannsóknaverkefna fyrir árið 2015.  Alls bárust 226 gildar umsóknir í Rannsóknasjóð að þessu sinni og voru 67 þeirra styrktar eða 29,6% umsókna.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum fékk að þessu sinni styrk til verkefnisins „CodStory“.

Megin markmið verkefnisins er að rannsaka landfræðilega dreifingu, fæðugöngur, stofnsamsetningu og aðlaganir þorsks  á síðasta árþúsundi og kanna hvort breytingar í þessum þáttum tengist sveiflum í loftslagi og vistfræði hafsins. Unnið verður með erfðaefni og efnamörk úr fornum þorskbeinum frá Íslandi, Færeyjum og Bretlandseyjum.

Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Vestfjörðum stýrir verkefninu. Meðumsækjendur voru Einar Eg Nielsen, prófessor við Danska Tækniháskólann og Snæbjörn Pálsson prófessor við Háskóla Íslands. Aðrir þátttakendur eru William Patterson, Jakob Hemmer-Hansen, Ragnar Edvardsson, Símun Arge, Thomas McGovern og Julie Bond.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is