Rannís styrkur til Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi fékk styrk fyrir verkefnið: Environmental and demographic drivers of migratory strategies in birds (Áhrif umhverfis og lýðfræði á farhætti fugla) úr Rannsóknasjóði Vísinda- og tækniráðs nýverið.

 

Breytingar á farháttum fugla, sem viðbrögð við loftslagsbreytingum, standa yfir víða um heim en ástæður og afleiðingar þessara breytinga eru illa þekktar. Til að auka skilning á þessum breytingum og vernda farfuglastofna þarf að vera hægt að tengja árangur (lífslíkur og varpárangur) einstaklinga við farhætti innan sama stofns. Á Íslandi er hátt hlutfall fuglafánunnar farfuglar og hraðar breytingar standa yfir á farháttum þeirra. Ein þessara tegunda er tjaldur en hann er bæði farfugl og staðfugl og því hentugt viðfangsefni. Í rannsókninni verða varphættir og lífslíkur borin saman milli tjalda sem hafa vetursetu á Íslandi og þeirra sem fljúga til heitu landanna á veturna. Niðurstöður samanburðarins verða notaðar til að meta líkleg áhrif loftslagsbreytinga á farfuglastofna og auka einnig skilning á því hvers vegna þorri fugla á norðlægum slóðum eru farfuglar.

 

Verkefnisstjóri er Tómas Grétar Gunnarsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi. Meðumsækjendur eru Jennifer A. Gill við University of East Anglia í Bretlandi og José Alves og Veronica Mendez  nýdoktorar við rannsóknasetrið á Suðurlandi. 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is