Rannsókn á póstskipinu Phønix

í byrjun maí hóf rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum í samstarfi við Fornleifavernd ríkisins rannsóknir á póstskipinu Phønix sem fórst við Löngufjörur á Snæfellsnesi í aftakaveðri árið 1881. Rannsóknin mun standa með hléum í allt sumar. Rannsóknin er styrkt af fornleifasjóði.

 Póstskipið Phønix var tvímastra málmskip,  knúið seglum og gufuvél. Skipið var um 400 tonn og flutti farþega og vörur milli Danmerkur og Íslands. Þegar skipið var á leið til Reykjavíkur í janúarmánuði árið 1881 hreppti það aftakaveður á Faxaflóa. Veðurhamurinn var svo mikill að skipið náði ekki inn til Reykjavíkur og hraktist það norður og strandaði við Löngufjörur á sunnanverðu Snæfellsnesi. Engir farþegar voru með skipinu í þessari ferð og öll áhöfnin bjargaðist í land.

Skipið liggur á um 10 metra dýpi og er það talsvert brotið eftir 130 ára legu á hafsbotninum. Skuturinn er þó heillegur og hægt er að greina ýmsa stærri hluta skipsins, t.d. skrúfu, gufuketil, öxul og hluta vélarúmsins. Framhluti skipisins liggur upp við sker og er verr farinn af veðrun.  Talsvert mikið af gripum, bæði úr farmi og af persónulegum munum áhafnarinnar, liggja á víð og dreif um flakið.

Diskar á hafsbotninumRannsóknin á póstskipinu Phønix er ein af stærstu neðansjávarrannsóknum í fornleifafræði sem ráðist hefur verið í á Íslandi.  Megin markmið rannsóknarinnar í sumar er að mæla upp og ljósmynda flakið til að fá heildarmynd af rústasvæðinu með frekari rannsóknir á næstu árum í huga. 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is