Skessur sem éta karla

Mánudaginn 10. september kl. 17:00 verður opnuð sýningin Skessur sem éta karla í Borgarbókasafninu í Spönginni í Reykjavík. Heiðurinn af þessari spennandi sýningu á Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur sem hefur rannsakað mannát í íslenskum þjóðsögum. Það birtist í nokkrum tröllasögum og næstum alltaf eru það tröllskessur sem éta karla. Þetta vitnar um átök kynjanna í þessum sögnum sem flestum var safnað og skrifaðar niður af körlum. Öll sem áhuga hafa eru boðin hjartanlega velkomin á opnun sýningarinnar mánudaginn 10. september kl. 17! Sýninguna má svo skoða á opnunartíma safnsins, mán-fim 10-19, fös 11-19 og lau 12-16, til og með 3. október.

Í rannsókninni spyr Dagrún hvað sögurnar segi okkur um samfélagið sem þær spretta úr og fléttar saman þjóðsögunum og nýrri hugmyndum um femínisma. Niðurstöðurnar birtast svo á veggspjöldum á sýningunni sem er myndskreytt af Sunnevu Guðrúnu Þórðardóttur sem teiknaði myndina sem hér fylgir.

Vinnan við uppsetningu sýningarinnar er styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna og unnin í samstarfi við Rósu Þorsteinsdóttur þjóðfræðing hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Jón Jónsson þjóðfræðing hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu.

Í tengslum við sýninguna heldur Dagrún Ósk einnig fyrirlestur undir yfirskriftinni "Fáir hafa notið bónda síns betur en ég" á Borgarbókasafninu í Spönginni, mánudaginn 24. september kl. 17:15.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is