Annáll 2012

Aldrei hafa fleiri ungir vísindamenn starfað með okkur á einu ári. Í ársbyrjun kom Hálfdán Helgi Helgason og kláraði meistararitgerð um lífslíkur lunda í Vestmannaeyjum. Um vorið varði Ellen Magnúsdóttir meistararitgerð um farhætti skúma frá frá Íslandi, Noregi og Skotlandi. Bæði hófu sitt nám undir leiðsögn Páls Hersteinssonar heitins. Var bæði ljúft og skylt að leiðbeina þeim til að ljúka sínum gráðum.

Tveir nýir meistaranemar hófu störf. Valtýr Sigurðsson kannar áhrif síldardauða á lífríkið með samanburði á fjölda og stærð krabbadýra milli þriggja staða. Síld var sleppt úr netum við Lyngey og Lundaklett undanfarna vetur, og eru þessi svæði borin saman við svæði við Skoreyjar sem eru laus við síldardauða. Valtýr hefur notið góðrar aðstoðar Símonar Sturlusonar við gagnasöfnun. Verkefnið er samstarfsverkefni með Vör Sjávarannsóknasetri við Breiðafjörð. Með Valtý kom gúmmíbátur frá HÍ, sem í vetur er í öruggri geymslu Högna og félaga í Áhaldahúsinu.

Frá Kollafirði við norðanverðan Breiðafjörð. Ljósmynd JEJHelgi Guðjónsson rannsakar varpvistfræði grágæsar og safnaði gögnum á Suðurlandi og í Breiðafirði. Verkefnið er samstarfsverkefni með Rannsóknasetri HÍ á Suðurlandi og Náttúrustofu Austurlands. Grágæs mun verða í enn stærra hlutverki á komandi ári, því Árni Ásgeirsson undirbýr nú talningu á gæsahreiðrum í völdum Breiðafjarðareyjum, þar sem Þorvaldur Björnsson taldi áður fyrir rúmum tveimur áratugum. Árni sinnir sem fyrr flestum öðrum fuglarannsóknum.

Rannsóknir á æðarfugli halda áfram að vera kjölfestan og birtust þrjár greinar um þær í alþjóðlegum vísindaritum.  Nokkuð var um fyrirlestrahald, fyrir Æðarsetur Íslands í Norska húsinu, íbúa Hellissands og svo ársfundi æðarræktarfélaga. Árni gerði tilraunir með lit grásleppuneta og drukknun sjófugla í netum. Æðarkollur komu aldrei í gul net né teistur í blá net, en sá fyrirvari gildir að sýnastærð var afar lítil og munurinn ekki tölfræðilega marktækur. Þórður Örn Kristjánsson birti sína fyrstu doktorsgrein um fæðu æðarfugls í Breiðafirði. Smári Lúðvíksson í Rifi er okkur drjúgur samstarfsmaður sem fyrr, við merkingar og aðrar tilraunir. Fjöldi æðarunga á Breiðafirði var metinn sjötta árið í röð og var með betra móti. Ítalskur BS nemi frá háskólanum í Bologna, Ettore Camerlenghi skoðaði sambýli æðarkollna og máfa í Landey. Ettore mun skrifa ritgerð við sinn háskóla um þetta efni. Ljóst er að norðurendi Landeyjar gæti orðið vettvangur spennandi verkefna, fái fuglarnir þar frið.

Frá og með 2009 hafa talningar á dílaskarfi verið kostaðar af Setrinu, en Arnþór Garðarsson hefur sinnt þeim árlega frá 1994. Þó er sem mesti móðurinn sé runnin af skörfunum sjálfum því eftir stanslausa fjölgun fram til 2010 stóð fjöldi þeirra nokkuð í stað síðustu tvö ár. Nýir varpstaðir hafa þó fundist, s.s. í Kollafirði á Ströndum 2011 og Grautarskeri í Breiðafirði 2012. Þá komust gamlir Breiðfirskir varpstaðir á blað eftir hlé: Innra Stangarsker með 87 hreiður og Innra Hagadrápsker með 36 hreiður.

Haustið 2011 fluttum við úr Egilshúsi í Ráðhúsið. Þar með erum við ásamt Náttúrustofu Vesturlands og samnýtum sem fyrr húsnæði, farartæki og mannskap. Með þeim höfum við vaktað ritu frá 2007. Í ár töldum við vatnafugla á Þórsnesi og á sunnanverðu Snæfellsnesi, sem er framhald nemendaverkefnis um fuglaskoðun frá 2011. Fræðimannaíbúðin var látin af hendi í skiptum fyrir minni íbúð í árslok, þrátt fyrir að nýting íbúðarinnar hafi verið með besta móti síðustu tvö ár. Starfsemin reiðir sig á samstarf við nema og aðra gestafræðimenn og slík aðstaða er því afar miklvæg.    

Við þökkum þeim sem hafa liðsinnt okkur kærlega fyrir okkur á nýliðnu ári.

Jón Einar Jónsson

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is