Annáll 2013

Starfsmenn Rannsóknasetursins voru tveir í ársbyrjun, en sá þriðji bættist í hópinn um haustið. Tveir mastersnemar eru langt komnir með sín verkefni.  Reglubundin verkefni um æðarfugl og dílaskarf héldu áfram, sem og árlegar talningar á æðarungum,  álftum, ritu og vatnafuglum.

Freydís Vigfúsdóttir varði doktorsritgerð sína um kríur í febrúar. Heiti verkefnisins var: Drivers of productivity in a subarctic seabird - The Artic tern in Iceland. Fyrsta greinin úr verkefninu kom út síðsumars í Bird Study.

Tvö smærri nemendaverkefni voru unnin á árinu: 1) Ítalskur BS nemi frá háskólanum í Bologna, Ettore Camerlenghi skoðaði sambýli æðarkollna og máfa í Landey sumarið 2012. Ettore er langt kominn með ritgerð sína um þetta efni. 2) Bandarískur mastersnemi í Loftslagsbreytingum og vistfræði hafsins, Zofia M. Burr, gerði rannsóknaverkefni fyrir erlenda nema, sem heitir: „ Climate variability, plankton and seabirds: a discussion on trophic interactions in the North Atlantic“, og fjallar um áhrif loftslagsbreytinga á sjófugla í gegnum fæðuvefi.

Rannsóknasetrið tekur þátt í norrænu samstarfi um áhrif loftslagsbreytinga á andfugla og fundaði sá hópur í Þrándheimi í mars. Ferðin var nýtt til fundar með Thomas Holm Carlsen frá Noregi, sem kom svo til starfa í ágúst, í samstarfi við norsku landbúnaðar- og umhverfismálastofnunina (Bioforsk). Thomas hefur rannsakað æðarfugl og eiginleika æðardúns og mun vinna að tengdum rannsóknum.

Í júní komu út tveir bókarkaflar á ensku. Jón Einar Jónsson uppfærði kaflann um mjallgæsir fyrir Birds of North America en Arnþór Garðarsson og Jón Einar rituðu um stofnstærð dílaskarfs á Íslandi fyrir Skarfaverkvang ESB.

Í byrjun júlí kom út grein í Plos One þar sem rannsökuð voru tengsl milli fjölda hreiðra í æðarvörpum og veðurfars á Íslandi m.t.t. yfirstandandi loftslagsbreytinga. Hægt var að rekja þróun stofnstærðar sl. 30 ár eða lengur í 18 æðarvörpum og voru þau til grundvallar greininni.  Breytingar í stofnstærð milli ára voru fyrst og fremst háðar aðstæðum á hverjum stað. Marktækt  samband fannst milli sumarveðurs og fjölda hreiðra 2-3 árum seinna í þremur æðarvörpum, þetta bendir til áhrifa veðurs á afkomu unga og þar með nýliðun 2-3 árum seinna (æður verður kynþroska 2-3 ára). Veðuráhrif á æður á Íslandi virtust mest bundin við ýkt ár (t.d.  1918) þó svo að syrpa af mildum vetrum upp úr 1980 hafi einmitt hist á við aukningu í æðarvörpum um allt land.  

Í kjölfar síldardauðans veturinn 2012-2013 var ráðist í samstarfsverkefni með Náttúrustofu Vesturlands og Jörundi Svavarssyni prófessor í Sjávarvistfræði við HÍ.  Gögnum  var safnað í júní og tekin botnsýni með botngreip og fjörusýni af landi. Frumniðurstöður sýna að flestar botndýrategundir hurfu, utan þess að burstaorminum Capitella capitata fjölgaði gífurlega, en hann þolir lækkaðan súrefnisstyrk sérlega vel.

Starfsmenn okkar kynntu verk sín á tveimur stöðum í nóvember. Fyrst sóttu þeir Líffræðiráðstefnuna. Arnþór Garðarsson hélt fyrirlestur um stofnstærð dílaskarfs, sem var enn í vexti á árinu. Kynnt voru  fjögur veggspjöld: 1) Árni Ásgeirsson o.fl. fjallaði um hreiðurfjölda og ábúð ritu í Hvítabjarnarey, Svörtuloftum, Svalþúfu og Arnarstapa. 2) Helgi Guðjónsson o.fl. fjallaði um varp og ungafjölda grágæsar og bar saman landshluta, verkefnið er meistaraverkefni hans. 3) Þórður Örn Kristjánsson o.fl. fjallaði um hluta síns doktorsverkefnis,  sem felur í sér að bera saman fjölda dúnflóa í Rifi og Hvallátrum. 4) Valtýr Sigurðsson o.fl. fjallaði um sýnatöku í Kolgrafafirði, sem er hluti af meistaraverkefni hans. Jón Einar Jónsson og Thomas Holm Carlsen voru boðnir á ársfund Æðarræktarfélags Íslands 10. nóvember,  þar sem þeir héldu sitt hvort erindið. 

Loks hófst undirbúningur fyrir sjóandaráðstefnuna, sem verður haldin í Reykjavík í september 2014 en stutta lýsingu á íslensku má finna hér.

Við þökkum þeim kærlega sem hafa liðsinnt okkur á nýliðnu ári.

Jón Einar Jónsson

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is