Annáll 2014

 

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi, annáll ársins 2014

Starfsmenn Rannsóknasetursins voru þrír í ársbyrjun, tveir í fullu starfi en einn í 30% starfi. Reglubundin verkefni um æðarfugl og dílaskarf héldu áfram, sem og árlegar talningar á æðarungum,  álftum, ritu og vatnafuglum.

Dílaskarfi hélt áfram að fjölga og æðarungar voru í meðallagi eftir slök ár á undan. Rituvarp gekk skár en í fyrra en ungaframleiðslan  á utanverðu Snæfellsnesi (0,4 ungi á par) er langt undir því sem æskilegt væri (1,0 ungi á par). Í Hvítabjarnarey gekk varp þó betur og var með besta móti miðað við undanfarin ár. Hjá vatnafuglum gekk varp vel hjá hornsílafuglunum, þ.e. þ.e. lóm, toppönd, flórgoða og himbrima. Helsingjapar sást með tvo unga á Snæfellsnesi í byrjun ágúst.

Einn mastersnemi útskrifaðist á árinu, þegar Helgi Guðjónsson varði ritgerð sína um varpárangur grágæsa. Nýtt mastersverkefni hófst þegar Aldís Erna Pálsdóttir hóf að rannsaka afrán á æðarkolluhreiður í eyjunum við Stykkishólm, í samstarfi með Náttúrustofu Vesturlands.

Starfandi framhaldsnemar eru langt komnir. Þórður Örn Kristjánsson lauk gagnasöfnun í Rifi og Hvallátrum og sendi tvær greinar til birtingar fyrir árslok. Valtýr Sigurðsson vinnur að mastersritgerð sinni um áhrif síldardauða á umhverfi. Gagnasöfnun fyrir það verkefni var endurtekin í Kolgrafafirði, styrkt af Vegagerðinni. Framhaldssagan um ormana mun því halda eitthvað áfram.

Þrenn ný rannsóknaverkefni hófust á árinu. Auk mastersverkefnis Aldísar Ernu fóru menn að merkja æðarkollur í Landey í samstarfi við norska SEATRACK-verkefnið. Alls náðust 37 kollur þetta fyrsta sumar og stefnt er að endurheimta tækin frá þeim næsta sumar. Thomas Holm Carlsen hóf störf við rannsóknir á eiginleikum æðardúns í samstarfi við Æðarsetur Íslands en verkefnið er styrkt af Framleiðnisjóði Landbúnaðarins.

Fjórar birtingar komu í alþjóðlegum ritum, um fuglaflensu, vetrarstöðvar skúma, varphegðan æðarkollna og ferðalög snjógæsa.

Stærsta stundin til þessa í sögu Rannsóknasetursins rann upp í september, þegar Sjóandaráðstefnan var haldin á Radisson Blu Hótel Sögu í Reykjavík. Þetta var fimmta sjóandaráðstefnan og sú fyrsta utan Norður-Ameríku, haldin af Háskóla Íslands og Environment Canada. Þangað komu 142 þátttakendur frá 18 löndum. Boðsfyrirlesarar voru þeir Dr. Sveinn Are Hanssen (Noregi), Dr. Jim Lovvorn (Bandaríkjunum) and Arnþór Garðarsson (Íslandi). Alls voru haldin 66 erindi og sýnd 49 veggspjöld. Starfsmenn Rannsóknasetursins áttu í 4 framlögum til samans. Ráðstefnan þótti takast firna vel og endaði á sérlega vel heppnaðri vettvangsferð á Mývatn. Sumarið 2015 kom út grein um málefni sjóanda í Fuglum, tímariti Fuglaverndar. Ráðstefnuritið má nálgast hér.

Í samstarfi við Náttúrustofuna kenndu starfsmenn í námskeiðinu Verkefnalíffræði í Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Sem tók Jón Einar Jónsson þátt í kennslu í Fuglafræði og Dýrafræði við Háskóla Íslands.

Starfsmenn Rannsóknasetursins þakka fyrir sig og fyrir samstarfið á árinu 2014.

Álftafjörður í vetrarbúningi

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is