Annáll 2015

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi, annáll ársins 2015

Starfsmenn voru þrír í ársbyrjun, tveir í fullu starfi en einn í 30% starfi. Í júní kvaddi Thomas Holm Carlsen (30% starf) okkur eftir 2 ára dvöl í Stykkishólmi. Thomas starfar nú í Noregi en mun klára með okkur verkefnið um eiginleika æðardúns. Ellen Magnúsdóttir líffræðingur kom í 2 mánaða vinnu í maí og júní. Við fjögur merktum 198 æðarkollur í 7 eyjum við sunnanverðan Breiðafjörð. Nú eru Jón Einar Jónsson forstöðumaður og Árni Ásgeirsson náttúrufræðingur báðir í 100% starfi.

Árið 2014 hófum við að merkja æðarkollur í Landey í samstarfi við norska SEATRACK-verkefnið. Alls náðust 37 kollur þetta fyrsta sumar og 2015 endurheimtust 21 þeirra lifandi meðal hinna 198 merktu 2015, auk þess sem 1 kolla fannst dauð í grásleppuneti. Síðan fengu 39 æðarkollur (20% merktra kollna 2015) nýja SEATRACK senda sem stefnt er á að endurheimta næstu sumur, ásamt því að setja út 40 nýja SEATRACK senda 2016.

Árleg verkefni um æðarfugl og dílaskarf héldu áfram, sem og talningar á æðarungum, álftum, ritu og vatnafuglum. Nú hyllir undir verklok, a.m.k. í bili, í skörfunum. Fjöldi dílaskarfshreiðra stóð nokkuð í stað og ungaframleiðsla var með lakara móti. Æðarungar voru taldir við Breiðafjörð í 9. sinn og var fjöldi þeirra undir meðallagi eða 0.4 ungar/kollu. Þá vakti athygli að ungar í lok júlí voru dúnungar en ekki stálpaðir ungar. Það hjálpaði ekki æðarvarpi að meðaltímasetning varps var níu dögum síðar 2015 en 2014. Talið er að stormasamur vetur og vor 2014-2015 skýri að hluta seinkunina, sem sást víða um land.

Rituvarp gekk skár en í mörg undanfarin ár og sáust nú hreiður með fleygum ungum á flestum talningastöðum, og stundum 2 og 3 ungar í hreiðri. Flest björgin litu mun betur út í ár en í mörg ár þar á undan, og sama má segja um varp lunda og kríu. Álftir voru taldar í Álftafirði fram á mitt sumar en dreifing álfta hefur aukist um Snæfellsnes síðan talningar hófust 2008 og verða álftatalningar því endurskoðaðar á næsta ári.

Einn mastersnemi útskrifaðist á árinu, þegar Valtýr Sigurðsson varði ritgerð sína um áhrif síldardauða á lífríki Breiðafjarðar. Annað mastersverkefni mun klárast í janúar 2016 þegar Aldís Erna Pálsdóttir mun verja verkefni sitt um afrán á æðarkolluhreiður í eyjunum við Stykkishólm. Bæði mastersverkefnin og og rituvöktun eru unnin í samstarfi með Náttúrustofu Vesturlands. Gagnasöfnun fyrir endurkomu lífríkis í botni Kolgrafafjarðar var endurtekin 3. árið í röð, styrkt af Vegagerðinni. Valtýr er nú kominn til starfa hjá Biopol á Skagaströnd.

Þórður Örn Kristjánsson doktorsnemi hefur að mestu lokið skrifum á doktorsrigerð sinni um varpvistfræði æðarfugls og stefnir á að verja doktorsritgerð sína 2016.

Fimm birtingar komu út í alþjóðlegum ritum, um afskipti æðarkollna af hreiðrum hver annarrar í Rifi, ógnir sem steðja að norrænum andastofnum, influensuveirur í sjóöndum,  varpárangur grágæsa á Íslandi og vetrarendurheimtur snjógæsa í Bandaríkjunum. Ein veigamikil birting kom út í Náttúrufræðingnum um Stofnbreytingar æðarfugls á Íslandi.

Sem fyrr tók Jón Einar Jónsson þátt í kennslu í Fuglafræði og Dýrafræði við Háskóla Íslands. Á Líffræðiráðstefnunni 5.-7. Nóvember voru haldin þrenn erindi og sýnd þrenn veggspjöld frá Rannsóknasetrinu. Á ársfundi Æðarræktarfélags Íslands 7. nóvember héldu Jón Einar og Árni báðir erindi.

Starfsmenn Rannsóknasetursins þakka fyrir sig og fyrir samstarfið á árinu 2015.

Ritaskrá setursins er hér.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is