Annáll 2017

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi, annáll ársins 2017

Starfsmenn voru tveir, báðir í 100% starfi, Jón Einar Jónsson forstöðumaður og Árni Ásgeirsson náttúrufræðingur. Ellen Magnúsdóttir líffræðingur starfaði áfram með okkur 3. sumarið í röð og kom í 3 vikna vinnu í maí og júní. Þá kom Gilles Chen frá Frakklandi 2. sumarið í röð, nú sem sjálfboðaliði við æðarmerkingarnar. Gilles lauk við mastersritgerð um þekkingarheim æðarbænda haustið 2016 og sjá má enska útgáfu hér.

Æðarkollur voru merktar fjórða sumarið í röð. Nýmerkt var 261 æðarkolla, auk þess sem 199 æðarkollur voru endurheimtar með merki frá fyrri árum. Farið var í sömu sjö eyjar og heimsóttar voru 2015 og 2016 en einnig bætt við fimm nýjum eyjum og hólmum: Bíldsey, Höskuldsey, Þormóðsey, Bænhúshólma og Gimburey. Merkingar tókust vel þrátt fyrir rysjótt tíðarfar og nú hafa 685 æðarkollur verið merktar við Stykkishólm frá og með 2014. Varptími æðarkollna hófst á nokkuð eðlilegum tíma eða upp úr 20. maí og síðustu kollurnar voru merktar í Stakksey 19. júní. Varpárangur var sá besti miðað við 2014-2017 en 87% æðarhreiðra klöktu a.m.k. einum unga. Verkefnið Stofnvistfræði æðarfugls er unnið í samstarfi við landeigendur og styrkt af Rannsóknasjóði Háskóla Íslands.

Árið 2014 hófum við að merkja æðarkollur í samstarfi við norska SEATRACK-verkefnið. Í sumar voru settir út 29 nýir hnattstöðuritar á æðarkollur og 30 slíkir endurheimtust frá fyrri árum. Nú hafa alls verið settir út 153 hnattstöðuritar og 86 þeirra endurheimtir 2015-2017. Við SEATRACK –verkefnið bættist síðan í sumar við ein rannsóknartegund en 25 fýlar fengu hnattstöðurita sem munu veita okkur á næsta ári upplýsingar um farhætti þeirra. Fýlarnir voru merktir í Landey, Stakksey og Brúnkolluhólmum sem eru hólmarnir milli Landeyjar og Stakkseyjar.

Tveir nýir framhaldsnemar störfuðu með okkur á árinu. Julie Murray frá Bretlandi skoðaði viðbrögð æðarkollna við dúntekju í fimm æðarvörpum á Vestfjörðum og skilaði sínu verkefni til Háskólaseturs Vestfjarða í árslok. Elisabeth Knudsen frá Færeyjum byrjaði í master við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ og rannsakar hún erfðafræðileg tengsl íslenskra og færeyskra æðarfugla.

 

Æðarungar voru taldir við Breiðafjörð í 11. sinn og var fjöldi þeirra í tæpu meðallagi eða 0.5 ungar/kollu í lok júlí, sem er svipað og var 2016. Varpárangur ritu í eyjunum hér við Stykkishólm reyndist nokkuð góður eða 2 -3  ungar í hreiðri og nánast ekkert um dauða unga í hreiðrum líkt og var flest ár frá 2005.  Fjöldi rituhreiðra á sunnanverðum Breiðafirði eru þó rúmlega helmingi færri nú en fyrir 20 árum en hefur þó verið nokkuð stöðugur frá 2006. Rituvöktunin er samstarfsverkefni með Samtökum náttúrustofa og kallast Vöktun Bjargfuglastofna, þar sem vaktaðir eru fýll og svartfuglar auk ritu. Vöktun Bjargfuglastofna er í umsókn Náttúrustofu Norðausturlands og þá flutti Arnþór Garðarsson erindi um Vöktun Bjargfuglastofna á Líffræðiráðstefnunni í nóvember.

Stofnanirnar fóru einnig í Kolgrafafjörð 29. júlí til botnsýnatöku 5. árið í röð með Álfgeiri og Páli á bátnum Önnu Karínu og er unnið að úrvinnslu gagna úr þeim leiðangri. Vatnafuglar á Snæfellsnesi voru taldir 7. árið  í röð en það verkefni er samstarfsverkefni með Náttúrustofu Vesturlands.

Þrjár birtingar komu út í alþjóðlegum vistfræðitímaritum, um smásjárskoðun á eiginleikum æðardúns bornir saman við gæsadún í Journal of Avian Biology,  um komutíma æðarkollna í varp Rifi í Polar Biology og svo um fæðunám snjógæsa í Wildfowl. Þá komu út greinar innanlands, í Náttúrufræðingnum um tengsl æðarfugls og loðnu, í Breiðfirðingi um kofnatekju og heyskap í Breiðafirði, og loks skýrsla um mælikvarða æðardúns sem unnin var með NIBIO í Noregi.

Um haustið voru haldnir þrír fyrirlestrar um rannsóknir á æðarfugli á Hrafnaþingi Náttúrufræðistofnunnar Íslands (sjá upptöku hér), Líffræðiráðstefnu Líffræðifélags Íslands og Fræðafundum heima að Hólum. Allir fyrirlestrarnir voru vel sóttir en þeir fjölluðu um merkingar á æðarfugli, fjöldabreytingar æðarhreiðra í Brokey og útlitsbreytileika meðal æðarfugla.

Ritaskrá setursins er hér.

Annáll 2016 er hér

Starfsmenn Rannsóknasetursins þakka fyrir samstarfið á árinu 2017.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is