Annáll 2019

Rannsóknasetur Háskóla Íslands (HÍ) á Snæfellsnesi, annáll ársins 2019

Starfsmenn voru tveir, báðir í 100% starfi, Jón Einar Jónsson vísindamaður og Ute Stenkewitz verkefnisstjóri. Ellen Magnúsdóttir líffræðingur starfaði með okkur fimmta sumarið í röð að merkingum á æðarfugli. Auk þeirra þriggja tóku þátt þrír vanir merkingamenn: Jón Jakobsson í Rifgirðingum, Árni Ásgeirsson í Þormóðsey og Elisabeth Knudsen í eyjunum við Stykkishólm.

Merkingaverkefnið, Stofnvistfræði æðarfugls er lang tíma verkefni, unnið í samstarfi við landeigendur og styrkt af Rannsóknasjóði HÍ. Alls náðust eða endurheimtust 158 merktar æðarkollur í Breiðafirði, þar af voru 57 nýmerktar. Veðurfar var óhagstætt til merkinga fyrstu tvær vikurnar í júni en þó náðist að heimsækja Landey, Hjallsey og Stakksey við Stykkishólm, og Rifgirðingar og  Þormóðsey. Nú hafa 938 æðarkollur verið merktar frá og með 2014 og af þeim hafa náðst 585 endurheimtur.

Á árinu hófst verkefni um stærðarbreytileika æðarfugls á Íslandi, sem eru breytilegir að líkamsstærð. Auk þess sýna DNA-gögn að í Skerjafirði og á Akureyri séu tveir aðskildir stofnar með ólíkan uppruna (Furness et al. 2010 Bird Study 57: 330-335) og að Breiðafjarðar kollurnar séu skyldari þeim í Skerjafirði (Elisabeth Knudsen 2019). Þrátt fyrir erfið veðurskilyrði í byrjun júní náðist að heimsækja tvo staði og merkja þar 34 æðarkollur með hjálp heimamanna: 1) í Óshólmum Eyjafjarðarár voru 19 æðarkollur mældar, myndaðar og vigtaðar með Sverri Thorstensen; og 2) að Ásbúðum á Skaga voru handsamaðar 15 æðarkollur með Sigríði Magnúsdóttur og Höskuldi Þráinssyni. Komin var stíf norðaustanátt þegar kom að Harðbak á Melrakkasléttu, Ytri-Nýpi við Vopnafjörð eða Skálanesi í Seyðisfirði og því varð að geyma þær heimsóknir.

Norska Seatrack-verkefnið hélt áfram að kortleggja vetrarstöðvar og farleiðir 11 sjófuglategunda. Í ár settum við út 13 hnattstöðurita og endurheimtum 18 stykki, alla á æðarkollum. Þar með eru endurheimtir hnattstöðuritar orðnir 126 en alls 180 settir út 2014-2019. Norsk Institut for Naturforskning leiðir verkefnið og fékk fjárveitingu til að framhalda verkefninu til 2022. Jón Einar sótti vinnufund Seatrack í Tromsö í nóvember 2019.

Katherine Herborn lektor við háskólann í Plymouth kom í heimsókn og setti gerviegg í æðarhreiður. Gervieggin hýsa tæki sem mæla hjartsláttartíðni og streituviðbrögð æðarkollna. Í sumar var kannað hvort unnt væri að nema viðbrögð æðarkollana við áreiti. Aðrir samstarfsmenn í verkefninu eru Rudi Nager frá Glasgow, Liliana D‘Alba í Ghent og Andreas Nord í Lundi. Verkefnið var styrkt af Konunglega Breska Vísindafélaginu (Royal Society) og er stefnt að framhaldi næstu ár, að rannsaka hvernig kollur í ólíkum hreiðurstæðum og með mismunandi eiginleika bregðast við streituvöldum á álegutímanum.

Æðarungar voru taldir við Breiðafjörð í 13. sinn. Hlutfallið ungar á kollu (fjöldi unga deilt með fjölda kollna) gefur vísitölu um heildar varpárangur æðarfugls á talningarsvæðinu. Í fyrri talningunni í júní var hlutfallið nákvæmlega jafnt meðaltali áranna 2007-2018, eða 1,30 ungar á kollu. Júní hlutfallið var á bilinu 1,0 til 1,5 2012-2018. Hlutfallið í síðari talningunni í júlí var 0,21 ungi/kollu, sem var það næst lægsta í júlímánuði til þessa, aðeins 2011 var lægra (0,1 ungi/kollu). Þetta hlutfall var 0,28 í fyrra en var annars í kringum 0,5 unga/kollu 2012-2017.

Vöktun Bjargfuglastofna er í umsjón Náttúrustofu Norðausturlands og starfa allar Náttúrustofurnar að verkefninu, Náttúrustofa Vesturlands og Rannsóknasetrið vinna saman á Snæfellsnesi. Ritu hefur fækkað alls staðar á landinu að suðaustanverðu landinu undanskildu (Yann Kolbeinsson o.fl. 2019, Vöktun bjargfuglastofna á Íslandi 2017 - 2019). Á Snæfellsnesi fækkaði rituhreiðrum 2017-2019, 45% á Arnarstapa, 27% í Svörtuloftum, og 14% í Svalþúfu, auk þess sem varpárangurinn 2019 var slakur, 0,4-0,5 ungar á hreiður. Langvíu vegnar betur, frá 2009 hefur fjöldi þeirra rúmlega tvöfaldast í Svörtuloftum (Skálasnagi + Hvalrauf). Fáeinar stuttnefjur finnast enn í Svörtuloftum en þær virðast horfnar af talningasniðinu í Svalþúfu.

Vatnafuglar voru taldir á Snæfellsnesi níunda árið í röð, í samstarfi við Náttúrustofu Vesturlands. Fjöldi tegunda hefur sveiflast 2011-2019, frá 33 til 38, var 33 í ár en var 34 þegar talningar hófust 2011. Flestir stofnar breyttust lítið þessi 9 ár, nema hvað himbrima, lóm og óðinshana fjölgaði en toppönd, duggönd og skeiðönd fækkaði. Nokkur árabreytilieiki er í fjölda annarra tegunda án þess um að hnig mælist.

Ute Stenkewitz verkefnisstjóri gerði tilraun með að telja rjúpur á Snæfellsnesi í maí. Nokkur breytileiki var í fjölda rjúpna meðal talningasvæða en þetta var besta rjúpnaár í tvo áratugi á landsvísu. Ute vinnur að rannsókn á tengslum veðurfars við breytileika í varpárangri og dánartölu rjúpna í samstarfi við Ólaf K. Nielsen á Náttúrufræðistofnun.

Elisabeth Knudsen varði mastersritgerð sína við Líf- og Umhverfisvísindadeild í maí 2019. Verkefnið safnaði fjaðra- og blóðsýnum til DNA greininga, m.a. til að bera saman stofngerð færeyskra og íslenskra æðarfugla. Leiðbeinendur voru Snæbjörn Pálsson og Jón Einar Jónsson.

Eyrún Gyða Gunnlaugsdóttir við Landbúnaðarháskóla Íslands skrifaði BS ritgerð um varptíma æðarfugls á Íslandi. Hún skilaði sinni ritgerð í maí 2019 en Jón Einar var leiðbeinandi.

Jón Einar starfaði auk þess : 1) í fjórum samráðshópum á árinu, um innflutning á framandi lífverum (Umhverfisráðuneyti), fyrirhugaða þörungaverksmiðja í Stykkishólmi (Stykkishólmsbær), viðbragðsáætlun vegna fuglakóleru í æðarvörpum (Æðarræktarfélag Íslands og Matvælastofnun) og samráðsnefnd um sjálfbærar veiðar (Fuglavernd og Umhverfisstofnun); 2) sem fagritstjóri fyrir Wildlife Biology og hafði umsjón með sex handritum; og 3) við kennslu í  dýrafræði Hryggdýra við bæði HÍ (haust) og Landbúnaðarháskóla Íslands (vor).

Á árinu komu út þrennar greinar í vísindaritum frá Rannsóknasetrinu, um stofnvistfræði dílaskarfs á Íslandi 1994-2015, fæðuval snæuglu á Íslandi, og félagskerfi sjakala í Suður-Afríku. Innanlands kom út grein um æðarmerkingarnar í tímariti Fuglaverndar, Fuglar 11. Rannsóknasetrið var með fjögur framlög á Líffræðiráðstefnunni í nóvember: 1) erindi um stærðarbreytileika æðarkollna á Íslandi, 2) veggspjald um rjúputalningar á Snæfellsnesi, 3) veggspjald um tengsl veðurfars og rjúpu, og svo 4) veggspjald um vatnafuglatalningar 2011-2019 í samstarfi við Náttúrustofu Vesturlands. Þá kynnti Elisabeth Knudsen verkefni sitt á Vistís að Hólum í Hjaltadal í lok mars.

Ritaskrá setursins er hér.

Annáll 2018 er hér

Starfsmenn Rannsóknasetursins þakka fyrir samstarfið á árinu 2019.

Ljósmyndir: Jón Einar Jónsson og Ute Stenkewitz

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is