Merkingar á æðarfugli - litmerki í umferð frá og með 2017

 

Sumrin 2015-2016 hófust litmerkingar á æðarkollum í Landey og sex öðrum eyjum til viðbótar, í Rifgirðingum, Hjallsey, Stakksey, Þorvaldsey, Sellátri og Elliðaey. Sumarið 2017 bættust svo 4 eyjar við, þ.e. Þormóðsey, Höskuldsey, Gimburey og Bíldsey.

Verkefnið er unnið í samráði við landeigendur viðkomandi eyja.

Markmið verkefnisins eru að 1) kanna hvort kvenfuglar sýni mismunandi átthagatryggð milli eyja og ára. 2) skýra einstaklingsbreytileika í vali á hreiðurstæði og varpárangri. 3) bera saman varpárangur, dagsetningu varps, og álegu milli rannsóknareyjanna, sem eru ólíkar um staðhætti, gróðurfar, afræningja og tegundir annarra varpfugla; 4) kanna hvort tryggð við hreiður eykst með aldri kvenfugla. Þessar spurningar tengjast líka staðháttum, gróðurfari o.fl.

Allar kollur fá litmerki (mismunandi litur eftir eyjum) og stálmerki frá Náttúrufræðistofnun á fætur. Kollurnar eru vigtaðar og mældar, auk þess sem álegustig er metin með vatnsprófi og fjöldi eggja í hreiðri (urptarstærð) er skráð. Litmerkin eru einkum lesin með myndavél með aðdráttarlinsu (400 mm).

Framvinda verkefnis 2014-2016

Merkingar á æðarfugli við Stykkishólm hófust sumarið 2014. Þá voru merktar 37 æðarkollur í Landey, með dæguritum frá norska SEATRACK verkefninu.

Sumarið 2015 voru nýmerktar 200 æðarkollur í sömu 7 eyjum og þá voru endurheimtar eða lesin merki hjá 22 af 37 æðarkollum sem merktar voru í Landey og Hjallsey sumarið 2014. Endurheimtu SEATRACK kollurnar frá 2014 fengu litmerki í fyrsta skipti.

Sumarið 2016 voru nýmerktar 204 æðarkollur í sjö eyjum auk þess sem tókst að endurheimta eða lesa á merki á 109 æðarkollum sem merktar voru 2014-2015.

Sumarið 2016 var hið fyrsta þar sem vænta mátti endurheimta á merktum æðarkollum í öllum sjö merkingaeyjunum. Fyrstu æðarkollurnar voru merktar í Höskuldsey, sem er vestasta eyjan í Breiðafirði. Meira var um nýmerkingar en við áttum von á, a.m.k. miðað við að við heimsóttum sömu svæði 2015 og 2016. Í lok 2016 höfðu verið merktar 418 æðarkollur og alls hafa náðst 135 endurheimtur/álestrar. Átján æðarkollur sem merktar voru 2014 voru endurheimtar bæði 2015 og 2016.

Sumarið 2017 voru fangaðar 386 æðarkollur (nýmerkt og fangaðar endurheimtur) og 2 blikar (einn í Landey og einn í Sellátri). Rúmlega 30 æðarungar fengu ungamerki. Fyrstu æðarkollurnar voru merktar í Bíldsey (30), Þormóðsey (29) og Gimburey (1, sú eina sem fannst).

Hver merkingareyja hefur sinn auðkennandi lit sem sjá á má á myndum hér fyrir neðan:

Allar kollur eru mældar: höfuð, ristarlengd, vængur og vængrendur

 

Kollur merktar í Landey fá hvít merki með svörtum stöfum.

 

Hjallsey-svartir

Kollur merktar í Hjallsey fá svört merki með hvítum stöfum.

 

Stakksey-gulur

Kollur merktar í Stakksey fá gul merki með svörtum stöfum.

 

Kollur merktar í Sellátri fá græn merki með hvítum stöfum.

 

Þorvaldsey-orangehvitt

Kollur merktar í Þorvaldsey fá appelsínugul merki með hvítum stöfum.

 

Kollur merktar í Elliðaey fá appelsínugul merki með svörtum stöfum.

 

Rifgirðingar-blair

Kollur merktar í Rifgirðingum fá blá merki með hvítum stöfum. Í vissri birtu líkjast blá merki þeim svörtu, og því eru merkin í Rifgirðingum látin á hægri fót í stað þess vinstri.

Kollur merktar í Þormóðsey (frá og með 2017) fá hvít merki með rauðum stöfum.

Kollur merktar í Bíldsey (frá og með 2017) fá bleik merki með hvítum stöfum.

Kollur merktar í Rifi 2011-2012 (vinstri fótur) og Gimburey frá og með 2017 (hægri fótur, sjá mynd) fá rauð merki með hvítum stöfum.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is