Nánar um kríurannsóknir

Lýðfræðilegar takmarkanir í norrænum sjófuglastofnum – Kría Sterna paradisaea

Loftslagsbreytingar hafa nú þegar haft merkjanleg áhrif á vistkerfi norðurhjarans og eru mörg dæmi um lífverur sem hafa orðið fyrir áhrifum af þeirra völdum. Einkum hefur verið áberandi lélegur varpárangur og fækkun varppara í mörgum sjófuglastofnum. Vegna stöðu sinnar ofarlega í fæðukeðjunni endurspeglar ástand sjófuglastofna breytingar á lægri fæðuþrepum sjávar og gefur því upplýsingar um ástand vistkerfis sjávar.

Krían Sterna paradisaea er einn þeirra sjófugla sem er sérstaklega viðkvæm fyrir umhverfisbreytingum. Vegna langrar farleiðar póla á milli gefst henni stuttur tími til varps. Eina varptilraun kríunnar þarf að falla að hámarks fæðuframboði til að viðunandi varpárangur náist. Krían er útbreidd um allt Ísland, einkum með ströndum, í misstórum vörpum. Líklegt er að bæði staðbundnir og landshlutabundnir umhverfisþættir stjórni fæðuframboði og afkomu hennar.

Með því að kanna lýðfræði kría á varptíma og bera saman við sjó- og landræna umhverfisþætti má meta áhrif umhverfis á stofna á landfræðilegum skala. Markmið verkefnisins 2008-2012 voru að meta áhrif breytilegs umhverfis á lýðfræði kríunnar á þrem landfræðilegum skölum:

  1. nákvæm úttekt á áhrifaþáttum er stjórna varpárangri á Snæfellsnesi,
  2. söfnun sögulegra upplýsinga um vörp og varpstærðir á Vesturlandi,
  3. breytileiki í stærð varpa, varptíma og varpárangri á völdum stöðum á landinu öllu.

Niðurstöðunar juku þekkingu á lítt rannsakaðri tegund hérlendis, kríunni, og nýtast víðum hópi vísindamanna og stjórnvalda er vinna að málum um nýtingu og verndun hafsvæða Íslands.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is