Rannsóknasetur Háskóla Íslands (HÍ) á Snæfellsnesi, annáll ársins 2018

Rannsóknasetur Háskóla Íslands (HÍ) á Snæfellsnesi, annáll ársins 2018

Starfsmenn voru tveir, báðir í 100% starfi, Jón Einar Jónsson vísindamaður og Árni Ásgeirsson náttúrufræðingur. Ellen Magnúsdóttir líffræðingur starfaði áfram með okkur 4. sumarið í röð í maí og júní. Auk þeirra unnu í æðarmerkingum Jón Jakobsson æðarbóndi í Rifgirðingum og Elisabeth Knudsen mastersnemi við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ.  

Árni skipti um starfsvettvang um haustið eftir 7 ára starf og kennir nú við Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Í hans stað var ráðinn Ute Stenkewitz sem hóf störf 1. nóvember.

Verkefnið Hreiðurstaðaval æðarfugls er unnið í samstarfi við landeigendur og styrkt af Rannsóknasjóði HÍ. Æðarkollur voru merktar fimmta sumarið í röð, í sömu eyjum og 2017. Nýmerktar voru 198 æðarkollur, auk þess 191 æðarkollur voru endurheimtar með merki frá fyrri árum. Nú hafa 879 æðarkollur verið merktar við Stykkishólm frá og með 2014. Varptíminn hófst upp úr 20. maí og síðustu kollurnar voru merktar í Landey 27. júní.

Áfram var samstarf við líffræðinga hjá Fróðskaparsetri Færeyja. Á báðum stöðum eru rekin lang tíma merkingaverkefni, þar sem æðarkollur á hreiðrum eru fangaðar, litmerktar og afdrif þekktra einstaklinga rannsökuð. Færeyingarnir heimsóttu okkur í Stykkishólm í maí 2018 og merktu kollur í Landey. Jón Einar, Árni og Ellen heimsóttu færeyska teymið 18.-22. júní 2018 og þá náðust 30 æðarkollur í Kirkjubæjarhólma sem telur u.þ.b. 80-100 æðarkollur.

Árið 2014 hófum við að merkja æðarkollur í samstarfi við norska SEATRACK-verkefnið. Í sumar voru settir út 25 nýir hnattstöðuritar á æðarkollur og 21 slíkir endurheimtust frá fyrri árum. Nú hafa alls verið settir út 178 hnattstöðuritar og 107 þeirra endurheimtir 2015-2018. Teymi frá SEATRACK kom í heimsókn og endurheimti 11 af 25 hnattstöðuritum sem settir voru á fýla 2017 í Landey, Stakksey og Brúnkolluhólma.

Gengið var til samstarfs við kanadískt rannsóknarverkefni á fæðuvali æðarfugla, þar sem blóðsýni eru tekin til að greina fæðuval æðarfugla með isotópagreiningu. Auk okkar taka þátt félagar okkar í Færeyjum og vísindamenn frá Kanada, Bandaríkjunum, Danmörku, Noregi, Finnlandi og Rússlandi.

 

Þrír framhaldsnemar störfuðu með okkur á árinu:

  1. Julie Murray frá Bretlandi rannsakaði viðbrögð æðarkollna við dúntekju í fimm æðarvörpum á Vestfjörðum. Hún varði ritgerð sína við Háskólasetur Vestfjarða í febrúar.
  2. Elisabeth Knudsen frá Færeyjum er langt kominn með sinn master við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ. Hún rannsakar erfðafræðileg tengsl íslenskra og færeyskra æðarfugla. Verkefni Elisabethar er unnið í samstarfi við Snæbjörn Pálsson og Jóhannis Danielsen.
  3. Doktorsneminn Florian Ruland er frá Þýskalandi og starfar hann með Náttúrustofu Vesturlands og Rannsóknasetrinu að rannsóknum á áhrifum minks á varp fugla, m.a. æðarfugla. Aðalleiðbeinandi Florians er Jonathan Jeschke.

Æðarungar voru taldir við Breiðafjörð í 12. sinn. Þetta var næst lakasta árið frá upphafi, en þó svipað og 2013 (0,31 ungar/kollu). Varpárangur ritu í eyjunum hér við Stykkishólm, og vatnafuglar á Snæfellsnesi voru áfram vaktaðir í samstarfi við Náttúrustofu Vesturlands. Fjöldi rituhreiðra á sunnanverðum Breiðafirði eru þó rúmlega helmingi færri nú en fyrir 20 árum en hefur þó verið nokkuð stöðugur frá 2006. Rituvöktunin er samstarfsverkefni með Samtökum náttúrustofa og kallast Vöktun Bjargfuglastofna, sem er í umsjón Náttúrustofu Norðausturlands, sjá má áfangaskýrslu hér.

Rannsóknasetrið tók þátt í Vísindavöku Rannís í Laugardalshöllinni 28. september og kynnti þar rannsóknir á æðardún 2014 -2018. Þær voru líka viðfangsefni erindis á ársfundi Æðarræktarfélags Íslands. Jóhanna Ómarsdóttir frá Ásbyrgi heimsótti okkur á fyrirmyndardögum Vinnumálastofnunnar og skrifaði um það grein á Snæfellingar.is.

Í lok apríl sótti Jón Einar Pan-European Duck symposium, þar sem andasérfræðingar Evrópu komu saman ásamt nokkrum Bandarískum og Kanadískum sérfræðingum. Ráðstefnan var haldinn í Millport á Kumrey við Clyde-Fjörð. Erindi okkar fólks fjallaði um merkingarnar í Breiðafirði.

Í apríl kom út skýrsla um Gróðurfar í Breiðafjarðareyjum, unnin í samstarfi við NIBIO í Noregi og Náttúrufræðistofnun Íslands. Verkefnið var styrkt af Breiðafjarðarnefnd. Skýrsluna má nálgast á heimasíðu Rannsóknasetursins:

http://rannsoknasetur.hi.is/sites/rannsoknasetur.hi.is/files/myndir_snae...

Ritaskrá setursins er hér

Annáll 2017 er hér

Starfsmenn Rannsóknasetursins þakka fyrir samstarfið á árinu 2018.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is