Rannsóknir á lunda

Lundi (Fratercula arctica)

Lundi er einn algengasti sjófuglinn við Breiðafjörð.  Lundinn verpir í mörgum Breiðafjarðareyjum og lifir að mestu leyti á sandsíli. Þrátt fyrir útbreiðslu lundans við Breiðafjörð hefur hann og varp hans þar lítið verið rannsakað. 

Varpvistfræði lunda á Breiðafirði

Sumarið 2010 hófust rannsóknir á varpvistfræði lunda í suðureyjum Breiðafjarðar. Markmið þeirra er að meta á stofnstærð lundans, ábúðahlutfall, mat á aldri veiddra fugla í afla veiðimanna og söfnun veiðitalna. Þær upplýsingar gefa samanburð við önnur lundavörp á landinu, þar sem ástandið er breytilegt eftir landshlutum. Rannsóknin var gerð í fimm eyjum á suður Breiðafirði. Stofnstærð í öllum eyjum var könnuð og fylgst var með varpinu yfir sumarið.

Endurvakning gamalla lundavarpa

Sumarið 2011 verður ráðist í annað verkefni sem snýst um að endurvekja gamlar lundabyggðir í suðureyjum Breiðafjarðar. Notaðar verða eftirhermur af lundum sem smíðaðar verða úr tré og síðan málaðar. Nemendur úr 10. bekk Grunnskólans í Stykkishólmi munu sjá um að gera eftirhermurnar og aðstoða við að setja þær í ákveðnar eyjar þar sem lundi hefur ekki orpið í fjölda ára. Eftirhermum verður jafnframt komið fyrir í eyjum þar sem ekki er vitað til að lundi hafi orpið.

 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is